Fréttir

Hringlaga box í Iðnó á laugardag

Bandalag íslenskra listamanna býður til málþings í Iðnó laugardaginn 8. febrúar í tengslum við aðalfund félagsins. Yfirskrift málþingsins er Hringlaga box.

Í nýrri kenningum stjórnunarfræða er talað um mikilvægi skapandi nálgunar við lausn viðfangsefna og bent á aðferðir listamanna í því sambandi. Kallað er eftir kröftum listafólks í þverfaglegu samstarfi, ekki síst þegar glímt er við heftandi ramma viðtekinna hefða. Hlutverk og erindi listarinnar virðast oft og tíðum framandi hinni almennu orðræðu, en hverjar eru mýturnar og hver veruleikinn um skapandi vinnubrögð?

Innlegg málþingsins verða flutt af skapandi fólki sem hefur reynslu af því að takast á við fjölbreytt verkefni á vettvangi atvinnulífsins og vítt og breitt um samfélagið. Sérstakur gestur málþingsins, Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur, mun fjalla um sína nálgun á verkefnið sem átt hefur hug hans sl. fjögur ár: að stofna stjórnmálaflokk, leiða hann til sigurs í kosningum til borgarstjórnar og stýra stjórnkerfi borgarinnar heilt kjörtímabil.

Aðrir mælendur eru: Saga Garðarsdóttir leikkona, Kjartan Pierre Emilsson leikjahönnuður hjá CCP, Sólrún Sumarliðadóttir tónlistarmaður og ónefndur fulltrúi Plain Vanilla.

Málþingsstjóri verður Hildigunnur Sverrisdóttir arkitekt.

Málþingið hefst kl. 14:00 og stendur til kl. 15:45. Því lýkur með léttum veitingum og óformlegu spjalli um efni málþingsins. Upptökur af erindunum verða gerðar aðgengilegar á netinu í kjölfarið.

Málþingið er öllum opið.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál