Fréttir

Ljós, ljóð og sögur í Sundhöllinni á sundlauganótt

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Sundhöll Reykjavíkur bjóða upp á afslappaða kvöldstund í lauginni á Sundlauganótt á Vetrarhátíð, laugardaginn 15. febrúar. Sundhöllin verður opin frá kl. 20 til miðnættis á Sundlauganótt og er frítt inn.

Dagskrá er eftirfarandi:

FLÆÐANDI LJÓS OG LJÓÐASPIL - KL. 20 - 00
Sundlaugargestir geta fengið sér sundsprett eða slakað á í lauginni við ljóðaupplestur einvalaliðs skálda. Lesturinn mun hljóma af bandi og heyrist bæði ofan og neðan vatnsborðsins. Laugin verður böðuð sérstakri birtu í tilefni kvöldsins. Dagskráin er í samstarfi við forlagið DIMMU, sem hefur gefið út geisladiska með upplestri skálda. Flytjendur eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Bragi Ólafsson, Gerður Kristný, Gyrðir Elíasson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Sigurður Pálsson og Sjón.

FLJÓTUM OG NJÓTUM - KL. 20-22
Frá kl. 20 – 22 geta gestir fengið lánaða flotbúnað frá fyrirtækinu Float og notið ljóðaflutningsins og ljósanna í svífandi léttu þyngdarleysi. Búnaðurinn verður lánaðar í 15 mínútur í senn og hægt verður að fá leiðsögn um notkun hans. Float er ný íslensk hönnun, innblásin af vatnsauðlegð og baðmenningu Íslands. Þessi einfaldi búnaður, sem samanstendur af flothettu og flotstuðningi fyrir fótleggi, hjálpar fólki að njóta fljótandi slökunar, losa um streitu og upplifa endurnærandi stund í kyrrð vatnsins.

Sjá nánar um Float á vefsíðunni www.float.is

HVÍSLAÐ Í KAFI - KL. 21 - 22. SKÁLDKONUR LESA VIÐ HEITU POTTANA 
Á útisvæði Sundhallarinnar, við heitu pottana, munu skáldin Björk Þorgrímsdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir, Æsa Strand Viðarsdóttir og Þórey Mjallhvít H. Ómarsdóttir lesa úr verkum sínum fyrir pottagesti við ljóstíru í vetrarmyrkrinu. Þær eiga allar sögur og ljóð í bókinni Hvísl sem kom út á síðasta ári og munu bæði lesa verk úr bókinni og nýrri verk. 


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál