Fréttir

Erla að austan í skál af ljóðum

Næsta fimmtudag og alla fimmtudaga fram að dymbilviku verður boðið upp á ljóðadagskrá í hádeginu á Borgarbókasafninu við Tryggvagötu, í umsjá Jakobs S. Jónssonar. Yfirskriftin er Skál af ljóðum en gestum gefst kostur á að snæða súpu og brauð frá Kryddlegnum hjörtum á meðan dagskráin fer fram.

Jakob stýrði samskonar dagskrá á bókasafninu síðasta haust, sem vakti mikla lukku meðal safngesta. Næstu fimmtudagar verða með svipuðu sniði; lesin verða ljóð eftir einstök skáld, ljóð af ákveðnu þema eða dæmi um tiltekna anga íslenskrar ljóðlistar, í bland við fróðleik og umfjöllun. Jakobi til fulltingis eru leikarar, ljóðunnendur og jafnvel óvæntir gestir. Fastir lesarar verða þær Birna Pétursdóttir, Halla Margrét Jóhannesdóttir og Tinna Þorvalds Önnudóttir.

Dagskrá næsta fimmtudags, þann 27. febrúar, verður helguð austfirska alþýðuskáldinu Erlu, en verk hennar hafa nýlega verið gefin út í veglegu safni á vegum Félags ljóðaunnenda á Austurlandi. Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, sem annaðist útgáfuna, er sérstakur gestur dagskrárinnar og segir stuttlega frá Erlu og skáldskap hennar.

Kryddlegin hjörtu bjóða upp á tvennskonar súpu, heimabakað brauð með hummus og hvítlaukssmjöri, og kaffi á eftir, á kr. 1.290.- Aðgangur að dagskránni sjálfri er hins vegar frjáls og öllum opinn, að sjálfsögðu.

Skál af ljóðum verður fimmtudagana 20. febrúar til 10. apríl kl. 12-13 á aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál