Fréttir

Að renna saman við bók

Er ástæða til að vera hræddur við það þegar maður týnir sér í skáldsagnalestri?

Fimmtudaginn 3. apríl næstkomandi, kl. 12:00, flytur Suzanne Keen, prófessor við Washington og Lee háskóla, fyrirlestur  um samlíðan og bókmenntir í Háskóla Íslands á vegum Hugvísindastofnunar og Bókmennta- og listfræðastofnunar í samstarfi við Reykjavík-Bókmenntaborg.

Keen hefur kannað samlíðan árum saman en bók hennar Empathy and the Novel (Samlíðan og skáldsagan) kom út árið 2007. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 301 í Árnagarði og fluttur á ensku. Hann ber yfirskriftina Lost in a Book: Empathy and Immersion in Fiction (Niðursokkinn í bók: Samlíðan og það að hverfa inn í heim skáldskapar).

Allir sem áhuga hafa á sagnalestri og samlíðan eru hvattir til að mæta. Hér á eftir fer útdráttur úr fyrirlestrinum á íslensku:

Með því að dýpka tengsl sem lesandi finnur til með ímynduðum innbyggjum tiltekins söguheims getur frásagnarsamlíðan ýtt undir þá blekkingu að menn hverfi inn í skáldaðan heim. Hvernig markar slík reynsla lesandann? Í fyrirlestrinum verður kannað hvað gerist þegar lesendur verða „niðursokknir“ í bók og hvað kann að gerast þegar þeir skjóta aftur upp kollinum í veruleikanum. Rannsóknarniðurstöður um efnið verða metnar og þær bornar saman við  viðteknar hugmyndir manna um áhrif skáldskapar. Könnuð verða tengslin milli manngæsku, samlíðunar og þess að hverfa inn í tiltekinn söguheim við lestur. Er það rétt að því dýpra sem menn hverfa inn í söguheiminn, og því sterkari sem samlíðun þeirra með persónum sé, því meiri líkur séu á að þeir hjálpi öðrum í veruleikanum? Nýjar rannsóknir benda til að það hafi meiri áhrif að menn sjái fyrir hugskotssjónum sér en að „þeir setji sig í spor annarra“. Þær renna stoðum undir það sem hefur stundum verið afgreitt sem „flótti frá veruleikanum“.  Er ástæða til að lofa (eða óttast) það þegar menn verða eitt með skálduðum heimi?


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál