Fréttir

Þýðingakvöld í Gunnarshúsi

Nú styttist í afhendingu Íslensku þýðingaverðlaunanna og í tilefni af því heldur Bandalag þýðenda og túlka þýðingakvöld í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, fimmtudagskvöldið 10. apríl kl. 20. Þýðendur tilnefndra bóka lesa upp úr þýðingum sínum, kynna bækurnar og spjalla við gesti:

Ingunn Ásdísardóttir kynnir Ó-Sögur um djöfulskap eftir Carl Jóhan Jensen, útg. Uppheimar.

María Rán Guðjónsdóttir kynnir Rödd í dvala eftir Dulce Chacón, útg. Sögur.

Njörður P. Njarðvík kynnir Ljóð 1954-2004 eftir Thomas Tranströmer, útg. Uppheimar.

Rúnar Helgi Vignisson kynnir Sem ég lá fyrir dauðanum eftir William Faulkner, útg. Uppheimar.

Stefán Steinsson kynnir Rannsóknir Heródótusar, útg. Forlagið.

Þýðingar af öllu tagi hafa löngum verið ein helsta lífæð íslenskrar tungu og vandaðar bókmenntaþýðingar auðga íslenska menningu, veita innsýn í aðra menningarheima og gleðja margar kynslóðir lesenda. Íslensku þýðingaverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2005 og voru sett á stofn til að heiðra þá þýðendur sem sinna því vandasama verki að færa okkur erlendar bókmenntir á móðurmáli okkar. Fjölmargar bókmenntaperlur hafa verið tilnefndar til verðlaunanna og hlotið þau og varla þarf að segja neinum hvílíkur fengur er að þeim fjölbreyttu úrvalsritum sem nú bætast í þann hóp. Bandalag þýðenda og túlka er þakklátt þýðendunum fimm sem nú taka sér tíma frá önnum dagsins til að eiga með okkur skemmtilega kvöldstund í Gunnarshúsi og veita okkur innsýn í verkin.

Allir eru hjartanlega velkomnir meðan húsrúm leyfir.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál