Fréttir

Vorvindar IBBY

Vorvindaviðurkenningar IBBY á Íslandi voru afhentar í Gunnarshúsi á sunnudag. Fjórar viðurkenningar voru veittar fyrir störf að barnamenningu.

Viðurkenningar hlutu:

Elsa Nielsen og Jóna Valborg Árnadóttir fyrir Brosbókina. Þessi fyrsta bók höfunda fjallar um hversdagslegt vandamál sem þó varðar okkur öll: að fara í fýlu. Samstarf texta- og myndhöfundar er sérstaklega frjótt og í sögunni felst lausn vandans, því bókin bægir öllum fýlum á brott.

Eva Einarsdóttir og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir. Bók þeirra, Saga um nótt, er hugljúf saga með ævintýralegum myndum, þar sem myrkrið hættir að vekja ótta og nóttin breytist fyrir augum lesenda í undraveröld.

Linda Ólafsdóttir. Myndir Lindu prýða margar bækur sem eru gefnar út beggja vegna Atlantshafsins. Myndir hennar eru unnar af fagmennsku og næmri þekkingu á listforminu, einfaldar og flóknar í senn.

Þorgrímur Þráinsson. Í haust verða liðin 25 ár frá því að fyrsta bók Þorgríms Þráinssonar kom út og hefur hann alla tíð átt tryggan lesendahóp. Samhliða ritstörfunum hefur Þorgrímur unnið ötullega að lestrarhvatningu á ýmsan hátt.

Vorvindaviðurkenningar IBBY hafa verið afhentar árlega frá árinu 1987 og eiga þær að vekja athygli á þeim fersku vindum sem blása í barnamenningunni hverju sinni.

Meðfylgjandi er ljósmynd Áslaugar Jónsdóttur frá verðlaunaafhendingunni. Á myndinni eru Þorgrímur Þráinsson, Eva Einarsdóttir, Linda Ólafsdóttir, Jóna Valborg Árnadóttir og Elsa Nielsen. Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir var ekki viðstödd.

Vorvindaviðurkenningar IBBY 2014


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál