Fréttir

The Art of Being Icelandic

Föstudaginn 27. júní kl. 16 opnar borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, sýninguna The Art of Being Icelandic í Tjarnarsal Ráðhússins. Sýningin, sem er samstarfsverkefni Ráðhússins og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO, beinir sjónum að íslenskum bókmenntum í þýðingum en umgjörð hennar er íslensk hönnun. Þar gefur að líta stofuhúsgögn frá Syrusson sem gestir geta tyllt sér í á meðan gluggað er í íslenska bók. Einnig verður kvikmyndin Heild eftir Pétur Kristján Guðmundsson sýnd á tjaldi í salnum en hún er afrakstur rúmlega 50.000 km ferðalags hans um Ísland.

Á sumrin kemur mikill fjöldi erlendra ferðamanna í Ráðhúsið, meðal annars til að skoða Íslandskortið sem þar er, og gefst þessum gestum nú einnig kostur á að kynna sér bókmenntir sögueyjunnar í umgjörð íslenskrar hönnunar. Á sýningunni verður skáldskapur af öllum toga í brennidepli, svo og bækur um Ísland sem gefnar eru út hér á landi. Verk íslenskra höfunda koma nú út í þýðingum í vaxandi mæli víða um heim, en mikilvægt skref í því ferli var tekið með útgáfu um 200 íslenskra titla í Þýskalandi í tengslum við heiðurssess Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt árið 2011.

Eins og áður sagði opnar sýningin föstudaginn 27. júní og stendur hún til 27. júlí.

Ráðhúsið er opið frá kl. 8 til 19 virka daga og frá kl. 12 til 18 um helgar.

Sýningarstjóri The Art of Being Icelandic er Ingi Thor Jónsson og hönnuður er Sigrún Gréta Heimisdóttir. Meðal þeirra sem lagt hafa sýningunni lið eru Rithöfundasamband Íslands, Miðstöð íslenskra bókmennta og Félag íslenskra bókaútgefenda.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál