Fréttir

Ljóstrað upp um höfunda Styttri ferða

Sunnudagskvöldið 5. október verður afhjúpað hverjir sömdu og þýddu sögurnar í þáttasafninu Styttri ferðum, sem út kom í vor í tímaritröðinni 1005. Listi yfir höfunda og þýðendur var raunar birtur í heftinu, en vísvitandi í rangri röð, og efnt til samkeppni um það hvaða texti tilheyrði hvaða höfundi.

Samkeppnin stendur enn, skilafrestur er til 1. október. Hægt er að senda svör til ritnefndar í tölvupóstfangið 1005.timaritrod@gmail.com.

Verðlaun í bókmenntagátunni verða afhent í nafnaveislu í Djúpinu (í kjallara Hornsins, Hafnarstræti) á sunnudagskvöld kl. 20. Þar koma ennfremur fram fimm af höfundum Styttri ferða, þau Kristín Ómarsdóttir, Haukur Ingvarsson, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Ármann Jakobsson og Kristín Guðrún Jónsdóttir, og flytja nýja texta í svokölluðum runulestri, sem er nýtt upplestrarform. Jón Hallur Stefánsson frumflytur lag af þessu tilefni og réttu efnisyfirliti verður dreift til lesenda 1005.

Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis á þessa litlu textahátíð, sem er einn af viðburðum Lestrarhátíðar í Reykjavík í október. 

Í ritnefnd 1005 sitja Bragi Ólafsson, Eiríkur Guðmundsson, Hermann Stefánsson, Jón Hallur Stefánsson, Jón Karl Helgason, Oddný Eir Ævarsdóttir, Ragnar Helgi Ólafsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sveinn Yngvi Egilsson og Þröstur Helgason. Annar árgangur 1005 kom út í maí sl. og þriðji árgangur er væntanlegur þann 10.05. 2015.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál