Fréttir

Sjálfstætt fólk í kjallaranum

Kjallaraspjall um Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness fer fram í Stúdentakjallaranum, Háskólatorgi Háskóla Íslands, miðvikudaginn 19. nóvember frá kl. 17-18:30.

Tilefnið er uppsetning Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar, sem er jólasýning leikhússins í ár.

Framsögumenn verða:

Dagný Kristjánsdóttir prófessor í íslenskum bókmenntum,
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor í stjórnmálafræði,
Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður,
Símon Birgisson dramatúrgur,
og Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri.

Stjórnandi umræða verður Brynja Þorgeirsdóttir, sjónvarpskona og framhaldsnemi í bókmenntafræði.

Sjónum verður beint að aðlögun á skáldskap Laxness fyrir leikhús en einnig að bókmenntaverkinu sem slíku og hugmyndinni um sjálfstæði. Átökin á milli einangrunarhyggju og alþjóðahyggju verða tekin fyrir og hvernig persóna Bjarts í Sumarhúsum hefur verið notuð í ýmsum tilgangi í íslenskri rökræðu. Sem dæmi má nefna Bjart sem holdgerving þeirra sem eru á móti Evrópusambandinu. Hvað er þetta frelsi og sjálfstæði sem Bjartur berst svo heitt fyrir?

Umræðurnar eru skipulagðar af Stúdentakjallaranum í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Torfhildi, félag bókmenntafræðinema við HÍ, og Menningarfélagið, nemendafélag framhaldsnema í Íslensku- og menningardeild.

Kjallaraspjall er nýr dagskrárliður Stúdentakjallarans. Fyrsta spjallið fór fram fyrir þremur vikum og fjallaði um vopnaburð lögreglu. Þéttsetið var í Stúdentakjallaranum og sköpuðust skemmtilegar umræður þar sem gestir gátu fengið heildarsýn yfir þetta hitamál.

Tilboðsmiðar frá Þjóðleikhúsinu verða á staðnum sem tryggja gestum tvo miða á verði eins á leiksýninguna Sjálfstætt fólk. Kiljuútgáfa af skáldsögu Laxness verður á 20% afslætti í Bóksölu stúdenta út vikuna.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál