Fréttir

Holdið er veikt – málþing á föstudag

Menningarfélagið, félag framhaldsnema við Íslensku og menningardeild boðar til málþings föstudaginn 27. mars undir yfirskriftinni: „ Holdið er veikt – af sambandi líkama, sálar og samfélags“.

Á þinginu munu framhaldsnemar í bókmenntafræðum flytja erindi um ólík viðfangsefni sem þó eiga það sameiginlegt að hverfast um birtingarmyndir líkama og sálar í samfélaginu.

Auk þeirra munu nemar í ritlist flytja eigin verk.

Málþingið fer fram í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, stofu 207 og stendur dagskrá frá klukkan 15:30-17:30.

Aðgangur er ókeypis og öllum velkominn.
 
Dagskrá:
 
Andri Már Kristjánsson, meistaranemi í bókmenntafræði
„Flýttu þér nú fagra vor! finn ég krapta dvína“: Líkamlegir og andlegir bresti í ljóðagerð Jóhanns Gunnars Sigurðssonar

 
Í fyrirlestrinum verður farið yfir stuttan ljóðaferil Jóhanns Gunnars Sigurðssonar og tilraun gerð til þess að greina birtingarmyndir versnandi andlegrar og líkamlegrar heilsu hans. Þær koma að mörgu leyti fram í árstíðunum sumar og vetur. Sálfræðikenningum búlgarska bókmenntafræðingsins Júlíu Kristevu verður beitt á árstíðirnar til að varpa nýju ljósi á andstæðurnar og þær tengdar við þann andlega og heilsufarslega missi sem Jóhann upplifði á ævi sinni.

Kristín María Kristinsdóttir, meistaranemi í bókmenntafræði
Plágufrásagnir og líkami samfélagsins

Plágubókmenntir lýsa gjarnan líkamlegum einkennum hins sýkta líkama þar sem vessar flæða og stjórleysi ríkir. Mannfræðingurinn Mary Douglas setti fram þá kenningu í bókinni Purity and Danger að hinn félagslegi líkami sé táknrænn fyrir heild samfélagsins og með því að hafa eftirlit með líkömum einstaklinga passar samfélagið upp á að engin ógn steðji að þeim mörkum sem samfélagið skilgreinir sig út frá. Í erindinu verður skoðað hvernig plágan setur menningarmæri samfélagsins í uppnám, afnemur stigveldi og ógnar hugmyndum um hinn heilbrigða líkama; bæði líkama einstaklingsins og líkama samfélagsins.

Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir, meistaranemi í bókmenntafræði
Enhedúanna: Konan sem hvarf í glatkistuna

Akkadíska skáldkonan Enhedúanna var uppi í kringum 2250 f.kr en verk hennar komu ekki fram í dagsljósið fyrr en fyrir um það bil 150 árum. Í þessum fyrirlestri verður sjónum beint að viðtökum verka hennar en nútímafræðimenn virðast eiga erfitt með að finna henni stöðu innan bókmenntahefðarinnar. Hin þrískipta jöðrun Enhedúönnu, sem konu af mið-austurlenskum uppruna, frá fornöld eru helstu hindranirnar í meðhöndlun verka hennar.  Ýmist hafa fræðimenn neitað að viðurkenna hana sem höfund eða jafnvel afneitað tilvist hennar almennt. Þessi afstaða virðist undarleg í ljósi þess að tilvist annarra höfunda fornaldar, líkt og Hómers, er jafn óljós. Erfitt er að réttlæta þessa bið eftir því að bein Enhedúönnu verði grafin upp, verk hennar kalla á þau verði tekin upp úr hinni bókmenntalegu glatkistu og færð nútímalesendum til aflestrar.
 
Vera Knútsdóttir, doktorsnemi í bókmenntafræði
Reimleikar og vofufræðilegar rannsóknir í íslenskum glæpasögum

Í erindinu verður vofulestri beitt á Furðustrandir eftir Arnald Indriðason og Horfðu á mig eftir Yrsu Sigurðardóttur. Vofulestur byggir á vofufræði (e. hauntology) Jacques Derrida úr ritinu Specters of Marx, þar sem Derrida smíðar fræðilegar kenningar um vofuna, tvíræðna formgerð hennar og mótsagnakennda verufræði. Vofulestur greinir samspil fræðarammans og verkanna, og athugar hvernig skáldskaparleg orðræða um reimleika svarar hugmyndum Derrida um vofufræði. Að vissu leyti spegla glæpasögurnar hefðbundin viðhorf til reimleika, sem eiga rætur að rekja til þjóðtrúar og draugaminnis íslensks sagnaarfs. Því verður til samanburðar einnig tekin dæmi úr skáldsögu sem er af töluvert öðrum meiði en glæpasögurnar.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál