Fréttir

Guðni hlýtur Sögustein

Guðni Kolbeinsson, þýðandi og rithöfundur, hlaut í gær, á degi barnabókarinnar fimmtudag 9. apríl, bókmenntaverðlaun IBBY á Íslandi, Sögustein. Verðlaunin voru afhent við athöfn í sal Ljósmyndasafns Reykjavíkur í Grófarhúsi. Verðlaunin eru 500.000 krónur, auk verðlaunagrips til eignar, en þau eru veitt rithöfundi, myndlistarmanni eða þýðanda sem með höfundarverki sínu hefur auðgað íslenskar barnabókmenntir.

Var það einróma álit valnefndar, sem skipuð er Brynju Baldursdóttur, íslenskufræðingi og kennara, Dagnýju Kristjánsdóttur, prófessor og Ragnheiði Gestsdóttur, rithöfundi og myndlistarmanni, að Guðni skyldi hljóta verðlaunin í ár.

Guðni er íslenskufræðingur að mennt og hefur starfað sem kennari, málfarsráðunautur, þáttagerðarmaður, þýðandi sjónvarpsefnis, fræðimaður og rithöfundur og einhver afkastamesti og besti þýðandi barna- og unglingabóka hér á landi. Verk hans má finna á næstum hverju einasta heimili, en hann hefur kynnt nokkrar ástsælustu persónur barnabókmenntanna fyrir íslenskum ungmennum. Má þar nefna Skúla skelfi, Artemis Fowl, Herramennina og Eragon, en í raun er það ógerningur að varpa ljósi á höfundarverk Guðna í stuttu máli, svo umfangsmikið er það. Í greinargerð valnefndar segir meðal annars:

„Í meira en fjóra áratugi hefur Guðni Kolbeinsson unnið að þýðingum á erlendum barna- og unglingabókum sem auðgað hafa og víkkað bókmenntaheim íslenskra ungmenna.  Hann hefur lagt sig fram við að þýða bækur sem eru vel skrifaðar, eiga erindi við íslensk börn og hafa leitt þau inn í gleði og sorgir barna í öðrum löndum eða nýja ævintýraheima þar sem drekar og aðrar furðuverur birtast lesendum, þeim til mikillar ánægju. … Guðni Kolbeinsson er vel að þessum verðlaunum kominn. Þakka ber enn fyrir þá alúð sem hann hefur sýnt störfum sínum og framlagi hans til bókmenntalesturs íslenskra barna og ungmenna.“

Sögusteinn var fyrst afhentur á degi barnabókarinnar árið 2007. Sjá verðlaunahafa fyrri ára hér á vefnum.

Guðni Kolbeinsson, handhafi Sögusteins 2015, ásamt Gunnari Helgasyni

Á mynd er Guðni með verðlaunagripinn, sögusteininn sjálfan, ásamt Gunnari Helgasyni.

Ný smásaga Gunnars, Lakkrís – eða Glæpur og refsing, var frumflutt þennan sama dag í öllum grunnskólum landsins í flutningi Gunnars sjálfs, í tilefni af degi barnabókarinnar. Guðni og Gunnar stóðu nýlega á verðlaunapalli báðir tveir, þar sem þeir hlutu Bókaverðlaun barnanna á síðasta ári: Gunnar fyrir bókina Rangstæður í Reykjavík og Guðni fyrir þýðingu sína á Amma glæpon eftir David Walliams.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál