Fréttir

Höfundakvöld í Gunnarshúsi

Næstkomandi fimmtudagskvöld, 12. nóvember, fer fimmta höfundakvöld haustsins fram í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins við Dyngjuveg 8. Þá munu Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, Iðunn Steinsdóttir og Guðmundur Brynjólfsson sitja fyrir svörum hjá Soffíu Auði Birgisdóttur bókmenntafræðingi og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum.

Allir eru velkomnir meðan stólar leyfa, aðgangseyrir er 1000 krónur og veitingar innifaldar.

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir gefur um þessar mundir út hjá JPV skáldævisöguna Stúlka með höfuð. Í henni segir Þórunn frá uppvexti sínum í Reykjavík, stúdentalífi í Lundi og Mexíkó, kommúnum, ástmönnum og litríkum samferðamönnum. Bókin er sjálfstætt framhald bókanna Stúlka með fingur og Stúlka með maga, en fyrir þá síðarnefndu hlaut Þórunn Fjöruverðlaunin 2014. Iðunn Steinsdóttir er ekki síst þekkt fyrir barnabækur sínar og hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, þar á meðal Íslensku barnabókaverðlaunin. Hún er jafnframt heiðursfélagi í Rithöfundasambandi Íslands. Iðunn sendir nú frá sér bókina Hrólfs saga, sem kemur út hjá Sölku, en þar rekur húnsögu langafa síns, Hrólfs Hrólfssonar, sem háði harða lífsbaráttu sem sveitarómagi og síðar vinnumaður í lok 19. aldar. Guðmundur Brynjólfsson gefur út hjá bókaforlaginu Sæmundi á Selfossi skáldsöguna Líkvöku. Hún fjallar um aðalsöguhetjuna Engilbert, sem kynnist ungur ofbeldi og djöfulskap mannlífsins, og er í senn þjóðfélagsádeila og guðfræðileg pæling. Guðmundur hefur áður skrifað leikrit og bækur fyrir börn og fullorðna og árið 2009 hlaut hann Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir bókina Þvílík vika.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál