Rúnar Helgi Vignisson er fæddur 2. júní 1959 á Ísafirði. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1978 hóf hann nám í ensku og íslensku við Háskóla Íslands og lauk B.A. prófi þaðan 1981. Hann stundaði nám í frönsku við Université de Grenoble veturinn 1981-82 og þýskunám við Goethe Institut í Murnau og Freiburg veturinn þar á eftir. Veturinn 1985-86 dvaldi hann við ritstörf í Kaupmannahöfn. Rúnar Helgi lauk M.A. prófi í bókmenntafræði frá University of Iowa í Bandaríkjunum árið 1987 og stundaði síðan frekara nám og kennslu við sama skóla næstu tvö árin. Hann dvaldi í Chicago í Bandaríkjunum veturna 1989-90 og 1992-93 og í Perth í Ástralíu árið 1991 við ritstörf og rannsóknir. Hann var stundakennari við Háskóla Íslands frá 1992 til 2008 en hefur síðan verið lektor í ritlist við sama skóla. Rúnar hefur skrifað fjölda greina í blöð og tímarit og unnið fyrir útvarp. Þá hefur hann gegnt trúnaðarstörfum fyrir rithöfunda, hefur m.a. setið í stjórn Rithöfundasambands Íslands og gegnt formennsku í Bandalagi þýðenda og túlka.

Fyrsta skáldsaga Rúnars Helga, Ekkert slor, kom út 1984. Hann hefur auk skáldsagna sent frá sér smásögur og þýtt fjölda erlendra bókmenntaverka, m.a. verk eftir bandaríska, ástralska og suður-afríska höfunda. Skáldsaga hans, Nautnastuldur, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1990. Rúnar Helgi hlaut Íslensku þýðingarverðlaunin 2005 fyrir þýðingu sína á Barndómi (Boyhood) eftir J.M. Coetze og Barnabókaverðlaun menntaráðs Reykjavíkurborgar 2006 fyrir þýðingu á Sólvæng (Sunwing) eftir kanadíska rithöfundinn Kenneth Oppel. Tvær þýðinga hans, Silfurvængur (Silverwing) eftir Oppel og Göngin (Tunnels) eftir Roderick Gordon og Brian Williams, hafa verið á heiðurslista IBBY, sú fyrri 2008 og hin síðari 2010.

Forlag: Græna húsið.


Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál