Sigurður Pálsson fæddist 30. júlí 1948 á Skinnastað í N-Þingeyjarsýslu. Hann lauk landsprófi frá Hagaskóla 1963 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1967. Hann lagði stund á frönskunám í Toulouse og París 1967-68 og nam leikhúsfræði og bókmenntir í Sorbonne, fyrst á árunum 1968-73, og hlaut D.U.E.L.-gráðu og fyrri hluta maîtrise-gráðu í leikhúsfræðum. Hann sneri svo aftur til náms við sömu stofnun á árunum 1978-82 og lauk Maîtrise-gráðu og D.E.A. (fyrri hluti doktorsgráðu). Á sama tíma stundaði hann nám í kvikmyndaleikstjórn við Conservatoire Libre du Cinéma Français sem hann lauk með lokaprófi.

Sigurður hefur fengist við ýmis störf í gegnum tíðina. Hann kenndi við Leiklistarskóla Íslands í þrjú ár frá stofnun hans 1975-1978. Hann hefur einnig starfað sem fréttaritari, leiðsögumaður, háskólakennari og unnið við sjónvarp og kvikmyndir. Hann hefur þó einkum fengist við ritstörf og þýðingar um langt skeið. Hann var forseti Alliance Française á árunum 1976-78 og formaður Rithöfundasambands Íslands 1984-88.

Sigurður var einn af Listaskáldunum vondu 1976. Fjölmargar ljóðabækur hafa birst á prenti eftir Sigurð, sú fyrsta kom út 1975 undir heitinu Ljóð vega salt. Ljóðabókin Ljóð námu völd var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1993, Sigurður hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Minnisbók árið 2007 og hafði þá áður verið tilnefndur fyrir ljóðabækurnar Ljóðlínuskip (1995) og Ljóðtímaleit (2001). Minnisbók var fyrsta endurminningabók Sigurðar en í kjölfarið fylgdu Bernskubók (2011) og Táningabók (2014). Hann hefur skrifað þrjár skáldsögur, Parísarhjól (1998), Bláa þríhyrninginn (2000) og Næturstað (2002). Hann hefur einnig fengist við leikritasmíð, skrifað sjónvarps- og útvarpshandrit og óperutexta. Ljóðabækur hans hafa verið þýddar á fjölmörg erlend tungumál, m.a. búlgörsku og kínversku. Árið 1994 kom út tvítyngd útgáfa ljóða hans hjá Editions de la Différence í París í þýðingu Régis Boyer, deildarforseta Skandínavísku deildar Sorbonne-háskóla. Stórt úrval ljóða Sigurðar í enskri þýðingu árið 2014 undir titlinum Inside Voices, Outside Light.

Sigurður var valinn borgarlistamaður Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1987-1990, var veittur riddarakross Orðu lista og bókmennta (Chevalier de l'Ordre des Arts et des Lettres) af menningarmálaráðherra Frakklands árið 1990, og Frakklandsforseti sæmdi hann riddarakrossi Frönsku heiðursorðunnar (Chevalier l'Ordre National du Mérite) árið 2007.

Sigurður er kvæntur og á einn son. Hann er búsettur í Reykjavík.

Forlag: JPV útgáfa.

Mynd af höfundi: Jóhann Páll Valdimarsson.


Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál