Ingunn Snædal er fædd á Egilsstöðum 10. ágúst 1971 og ólst upp á Jökuldal. Hún lauk B.ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands 1996 og lagði stund á írskunám við háskólann í Galway á Írlandi 1996-97. Árið 2006 hóf hún nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands. Ingunn bjó í Írlandi frá 1996-98, á Costa Rica og í Mexíkó 1998-99, á Spáni 2001-02 og sumarlangt í Danmörku 1998. Á Íslandi hefur hún kennt í grunnskólum auk þess að vera prófarkalesari, ráðskona í vegavinnu, bensínafgreiðslumaður, þjónustustúlka, sendisveinn, keyra út póst, vinna á síldarvertíð, semja auglýsingar og vera einkakennari.

Fyrsta ljóðabók Ingunnar, Á heitu malbiki, kom út hjá höfundi 1995. Önnur bók hennar, Guðlausir menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást, kom út 2006 hjá bókaforlaginu Bjarti. Bókin fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þriðja ljóðabók Ingunnar, Í fjarveru trjáa – vegaljóð, kom út sumarið 2008. Ljóð eftir hana hafa einnig birst í nokkrum ljóðasöfnum, m.a. Ljóð Austfirðinga 1999, Skáldaval IV 2007, tímaritinu Andblæ 1996, Nema ljóð og sögur 1996, Huldumál – hugverk austfirskra kvenna 2001, Wortlaut Island: Isländische Gegenwartsliteratur 2000, Pilot: Debutantologi í Noregi  og víðar. Ingunn hefur ennfremur aðeins gripið í þýðingar hjá Bjarti.

Ingunn er gift og á tvö börn. Hún býr austur á Fljótsdalshéraði.
Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál