Arnaldur fæddist í Reykjavík þann 28. janúar árið 1961. Foreldrar hans eru Þórunn Ólöf Friðriksdóttir, húsmóðir, og Indriði G. Þorsteinsson, rithöfundur. Arnaldur varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1981 og lauk B.A. - prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1996. Hann var blaðamaður við Morgunblaðið 1981 - 1982, lausamaður við kvikmyndaskrif frá þeim tíma og kvikmyndagagnrýnandi blaðsins frá 1986 - 2001.

Arnaldur hefur sent frá á annan tug skáldsagna sem allar eru spennusögur. Hann hefur unnið útvarpsleikrit upp úr þremur bóka sinna, sem Leiklistardeild ríkisútvarpsins flutti á árunum 1999 - 2001. Skáldsögur hans hafa verið þýddar á önnur mál og hlotið mjög góðar viðtökur, einkum í Þýskalandi þar sem bækur hans hafa selst í hundruðum þúsunda eintaka. Arnaldur hlaut Glerlykilinn, Norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrina 2002 og aftur ári síðar fyrir Grafarþögn. Hann fékk Gullna rýtinginn 2005, verðlaun samtaka breskra glæpasagnahöfunda, fyrir þýðingu Bernards Scudders á Grafarþögn, Silence of the Grave. Þá hefur Arnaldur hlotið styrki frá Kvikmyndasjóði Íslands til að skrifa kvikmyndahandrit upp úr bókunum Dauðarósum og Napóleonsskjölunum. Kvikmynd byggð á Mýrinni, í leikstjórn Baltasars Kormáks, var frumsýnd 2006. Hann hreppti Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, fyrir Harðskafa (2007) og var þar með tilnefndur í þriðja sinn til Glerlykilsins, Norrænu glæpasagnaverðlaunanna.

Arnaldur býr í Reykjavík. Kona hans er Anna Fjeldsted og eiga þau þrjú börn.

Forlag: Vaka-Helgafell.

Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.


Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál