Einar Örn Gunnarsson fæddist í Reykjavík þann 5. október 1961. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð lagði hann stund á laganám við Háskóla Íslands í nokkur ár þar til hann tók til við skriftir. Einar Örn var gestanemi í leiklistarfræðum við Háskólann í Bergen haustið 1999. Hann lauk síðan MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík 2008 og fjallaði lokaritgerð hans um íslenskan myndlistarmarkað. Að því loknu stundaði hann nám við Sotheby's Institute of Art í London og útskrifaðist þaðan með MAAB próf vorið 2010. Einar Örn hefur búið víða erlendis, í Kaupmannahöfn, Bergen, Prag, Schöppingen í Þýskalandi og í London.

Einar Örn stofnaði fiskeldisfyrirtækið Salar Islandica ásamt fleirum árið 2000 og var hann aðstoðarframkvæmdastjóri þess frá 2003 - 2007. Auk þess hefur hann m.a. starfað við greinaskrif fyrir Morgunblaðið og var um tíma fréttaritari blaðsins í Kaupmannahöfn. Hann var ritstjóri bókmenntatímaritsins Andblæs árið 1996 og skrifaði greinar fyrir ritið á árunum 1996 - 1998. Hann hefur tekið þátt í að skipuleggja fjölda upplestrarkvölda í Reykjavík í gegnum tíðina og átti frumkvæði að Listakvöldi við Voginn á Austurlandi árið 2007.

Fyrsta skáldsaga Einars, Næðingur, kom út 1990 en áður höfðu smásögur eftir hann birst á prenti. Síðan hefur Einar Örn sent frá sér þrjár aðrar skáldsögur, fleiri smásögur og leikritið Krákuhöllina, sem var lokaverkefni leiklistarnema í Leiklistarskóla Íslands 1999 í leikstjórn Hilmis Snæs Guðnasonar.

Einar Örn var fulltrúi íslenskra rithöfunda í Bókmenntahraðlest Evrópu árið 2000, en lestarferðalagið tók sex vikur og tóku 104 evrópskir höfundar þátt í því. Gerð var heimildarmynd um ferðina og fjallað um hana í bókum, meðal annars Ein literarisches Reisebuch, auk þess sem hún var til umfjöllunar í sjónvarpsþáttum og ótal blaðagreinum í Evrópu. Skáldsagan Tár Paradísarfuglsins kom út í litháískri þýðingu 2003.

Einar Örn Gunnarsson býr í Kópavogi. Hann er kvæntur og á þrjár dætur.

Forlag: Ormstunga.


Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál