Iðunn Steinsdóttir fæddist þann 5. janúar 1940 á Seyðisfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1960 og kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1981. Iðunn vann hjá Skipaútgerð ríkisins frá 1960 til 1962 og starfaði síðan við grunnskólakennslu um nokkurra ára skeið og kenndi m.a. á Húsavík og við Laugarnesskóla. Frá 1987 hefur hún að mestu fengist við ritstörf.

Iðunn sat í stjórn Leikfélags Húsavíkur 1968 - 1972 og í stjórn Soroptimistaklúbbs Reykjavíkur 1989 - 1991. Hún var í ritstjórn blaðsins Börn og bækur 1985 - 1989 og í átti þátt í að ritstýra bókinni Dagamunur sem gefin var út í tilefni 70 ára afmælis Kvenfélagssambands Suður-Þingeyinga 1975. Iðunn er formaður Barna og bóka, Íslandsdeildar IBBY samtakanna.

Fyrsta verk Iðunnar er barnabókin Knáir krakkar sem kom út árið 1982 og síðan hefur hún sent frá sér fjölda barnabóka, meðal annars bækurnar um prakkarana Snuðru og Tuðru sem notið hafa mikilla vinsælda. Margar smásögur Iðunnar hafa birst í barnablaðinu Æskunni og hefur hún einnig samið sögur fyrir barnatíma útvarps og sjónvarps. Iðunn hefur samið handrit að sjónvarpsmyndum og þáttaröðum fyrir börn auk handrits að fræðslumyndinni Ég veðja á Ísland sem hún samdi fyrir Námsgagnastofnun. Hún hefur skrifað fjölda námsbóka fyrir grunnskóla og einnig samdi hún barnaefni fyrir Umferðaráð. Þá á hún fjölda söngtexta á hljómplötum. Hún hefur skrifað leikrit í samvinnu við systur sína, Kristínu Steinsdóttur rithöfund. Iðunn hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín.

Iðunn er gift og á þrjú uppkomin börn. Hún býr í Reykjavík.

Forlag: Salka.


Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:

Upplestur

Þokugaldur (6,16 MB) – BrotSkipta um leturstærð


Tungumál