Kjartan Ragnarsson er fæddur 18. september 1945 í Reykjavík. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur árið 1966 og var síðan í framhaldsnámi í leiklist í Póllandi 1969 til 1970. Kjartan var leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur frá 1966 og hefur verið fastráðinn hjá sömu stofnun frá 1974. hann hefur einnig leikstýrt mikið hjá Þjóðleikhúsinu og Nemendaleikhúsinu.

Kjartan fór fljótlega að skrifa leikrit og hefur hann leikstýrt flestum verkum sínum sjálfur. Meðal leikrita eftir Kjartan má nefna Saumastofuna, Blessað barnalán, Týndu teskeiðina og Nönnu systur sem hann samdi í samvinnu við Einar Kárason. Kjartan samdi einnig leikritin Peysufatadaginn og Dampskipið Ísland fyrir Nemendaleikhúsið. Kjartan hefur gert fjölmargar leikgerðir eftir bókum, s.s. Ofvitann eftir Þórberg Þórðarson, Ljós heimsins og Höll Sumarlandsins eftir Halldór Laxness, Djöflaeyjuna eftir Einar Kárason og Evu Lunu eftir chileönsku skáldkonuna Isabel Allende. Í samvinnu við Sigríði Margréti Guðmundsdóttir gerði Kjartan einnig leikgerðirnar að Grandavegi 7 eftir Vigdísi Grímsdóttur og Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness en sú leikgerð var sýnd í tveimur hlutum undir heitunum Bjartur og Ásta Sóllilja.

Kjartan hefur unnið mikið á Norðurlöndunum og leikstýrði m.a. Kirsuberjagarðinum, Stræti, Mávinum og Þremur systrum hjá nemendaleikhúsi Leiklistarskólans í Malmö, Platonov hjá Borgaleikhúsinu í Malmö og Grandavegi 7 við Borgarleikhúsið í Gautaborg. Ennfremur leikstýrði hann leikritinu Ég er meistarinn eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur í Gdansk í Póllandi.

Kjartan Ragnarsson er búsettur í Reykjavík.


Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál