Ólafur Haukur Símonarson fæddist 24. ágúst 1947 í Reykjavík. Hann lærði innanhússarkitektúr í Kaupmannahöfn 1965-69 og síðan bókmenntir í Kaupmannahöfn og Strasbourg 1969-72. Hann flutti heim frá Danmörku 1974. Ólafur vann í tvö ár við dagskrárgerð hjá Ríkissjónvarpinu, m.a. við gerð heimildarmynda um íslenskt þjóðlíf. Hann var leikhússtjóri Alþýðuleikhússins 1980-82. Hann hefur fengist við ýmis önnur störf gegnum tíðina, en frá 1976 hefur hann að mestu helgað sig bókmenntaskrifum og þýðingum.

Ólafur Haukur hefur setið í stjórnum og ráðum ýmissa félaga og samtaka. Hann var formaður Leikskáldafélags Íslands frá 1986 - 1999, varaformaður Rithöfundasambands Íslands frá 1994, hefur setið í stjórn STEFs á Íslandi frá 1986, gegnt embætti varaforseta Leikskáldanefndar Alþjóðaleiklistarsambandsins frá 1993 og setið í verkefnavalsnefnd Leiklistarhátíðarinnar í Bonn (Bonner Theater Biennale) árin 1992 og 1994.

Ólafur Haukur hefur samið fjölda leikrita fyrir svið, útvarp og sjónvarp sem notið hafa mikilla vinsælda. Nefna má Blómarósir, Bílaverkstæði Badda, Hafið, Gauragang, Þrek og tár og Kennarar óskast. Kvikmyndin Ryð (1990) var gerð eftir leikritinu Bílaverkstæði Badda og kvikmyndin Hafið (e. Baltasar Kormák), er byggð á samnefndu leikriti Ólafs Hauks.

Fyrir utan ljóð og smásögur hefur Ólafur sent frá sér fjölmargar skáldsögur, svo sem Vatn á myllu kölska, Gauragang og Rigningu með köflum. Árið 1997 fékk sakamálasagan Líkið í rauða bílnum frönsk bókmenntaverðlaun fyrir bestu norrænu glæpasöguna. Ólafur Haukur hefur þýtt fjölda bóka, leikrita og kvikmynda. Hann hefur sent frá sér fræðibækur og skrifað greinar og smásögur í blöð, tímarit og safnrit hérlendis og erlendis. Einnig hefur hann samið og gefið út á hljómplötum fjölda sívinsælla sönglaga og texta.

Ólafur Haukur er kvæntur og þriggja barna faðir. Hann býr í Reykjavík.


Til baka


Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál