Ég & þú

Jónína Leósdóttir.

Vaka-Helgafell, 2009

Ástarborgin Brighton

Í sögunni Ég og þú  rifjum við upp kynnin af vinkonunum Önnu og Kötu ásamt fjölskyldu og vinum, sem sagt er frá í bókum Jónínu Kossar og ólífur (2007) og Svart og hvítt (2008). Í fyrstu bókinni fer Anna að vinna á hóteli hjá frænku sinni í Brighton sumarið eftir 10. bekk. Þar kynnist hún fjölbreytilegu mannlífi þessarar bresku borgar sem er gjörólíkt lífinu heima í Vík. Í lok sögunnar er hún farin að velta fyrir sér sinni eigin kynhneigð, hún hefur kysst stelpu og það vekur hjá henni nýjar tilfinningar. Önnur bókin gerist að mestu sumarið eftir fyrsta bekk í menntaskóla. Nú fara vinkonurnar Kata og Anna saman til Brighton að vinna en Kata hefur eignast þar indverskan kærasta, Deepak, foreldrum hans til lítillar gleði. Sú bók endar á því að Anna eignast kærustu, Silvíu.

Í þessari þriðju og, að sögn höfundar, síðustu bók um Önnu og vini hennar liggur leiðin enn á ný til Brighton. Fjórir mánuðir eru liðnir frá því stúlkurnar fóru heim í lok síðustu bókar, það líður að jólum og fjölskyldu Önnu er boðið að eyða þeim hjá frændfólki sínu í Englandi. Nú er það ekki aðeins Anna sem fer utan heldur einnig foreldrar hennar, litli bróðir og amma. Kata bætist síðan fljótlega í hópinn. Anna hefur verið í tölvusambandi við Silvíu og nú hittast þær aftur. Anna hefur þegar þarna er komið sögu sæst við eigin tilfinningar en þarf nú að koma út úr skápnum gagnvart fjölskyldu sinni og vinum. Jónína lætur sér þó ekki nægja að fjalla um ástarmál Önnu og þau vandamál sem þeim tengjast. Vinkonur hennar eiga líka við vandamál að stríða. Kata á sinn indverska kærasta og fjölskyldur beggja eru ekki par ánægðar með það samband og breska vinkonan Linda á líka í vanda með sinn vin. En ástin og vandamál henni tengd er ekki einskorðuð við unglinga. Eygló amma kynnist ekkjumanni í jólaferðinni og fordómarnir sem gamla parið verður fyrir eru ekkert minni en hjá unglingum. Lýsingin á ástarlífi ömmunnar er skemmtileg viðbót við dramatíkina í lífi unga fólksins.

Fyrri bækurnar tvær lýsa baráttu Önnu og togstreitu við eigin tilfinningar. Í þessari sögu er hún orðin sáttari við sjálfa sig,  hún á kærustu sem hún elskar en þarf nú að gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart foreldrum og vinum. Þegar það tekst er Anna orðin sterkari og tilbúin til að takast á við lífið. Bækurnar þrjár mynda þannig eina heild, þetta er þroskasaga ungrar stúlku sem þarf að takast á við sjálfa sig, tilfinningar sínar og fordóma. Þar sem þær gerast að mestu leyti í Brighton þarf Anna hins vegar ekki að takast á við fordóma samfélagsins að sama skapi og ef að hún hefði orðið ástfangin heima á Íslandi. Þegar ég las þessa síðustu bók saknaði ég þess að vita ekki meira um líf Önnu hér heima og hvernig henni gengi að höndla hvunndaginn.

Bækurnar um Önnu marka tímamót í sögum um íslenskar unglingaástir. Þar er í fyrsta skipti ástarsamband unglinga af sama kyni meginþema sögunnar og ekki spillir að bækurnar eru skemmtilegar aflestrar. Þetta eru öðruvísi ástarsögur þar sem aðalpersónan þarf að sættast við sjálfa sig og sigrast á eigin fordómum. Þá fyrst getur hún tekist á við samfélagið og fordóma þess. Þegar lesendur skilja við Önnu hefur henni lukkast hið fyrrnefnda og er tilbúin að leggja út í lífið sem sjálfstæð kona sem veit hvað hún vill.

Svo er bara að skella sér til Brighton í næsta sumarfríi því eitt af því sem sögurnar skilja eftir hjá þessum lesenda er löngunin til að heimsækja þessa að því er virðist skemmtilegu borg. Og fyrir þá sem leita ástarinnar spillir ekki fyrir að hún gæti beðið á næsta götuhorni...

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2009


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál