Sónata fyrir svefninn

Þórdís Björnsdóttir.

Bjartur, 2009

Ævintýri

Veruleikinn er verulega óstöðugur í skáldsögu Þórdísar Björnsdóttur, Sónata fyrir svefninn. Sagan er önnur skáldsaga Þórdísar, en áður hefur hún einnig skrifað ljóð og prósabók í félagi við skáldið Jesse Ball. Í verkum sínum leiðir hún lesandann inní nýja heima ævintýra, hryllings og dulúðar sem allir eiga það sameiginlegt að minna á drauma. Sónata fyrir svefninn vísar beinlínis til þessa draumaheims en sagan hefst á því að ung kona, Ívana, kemur til bæjar og sest að í íbúð við Möndlugötu og eyðir svo tíma sínum í að fylgjast með manni sem vinnur í bakaríi og hún telur sig þekkja. Hún sendir honum bréf um drauma sína og bregður sér svo í hringekju annað slagið. Á háalofti hússins finnur hún teikningu eftir barn sem gæti verið af henni sjálfri og í kjallaranum eru göng sem leiða inní annan heim, drauma og óveruleika.

Göngin minna á Lísu í Undralandi og að auki hittir Ívana litla stelpu sem virðist mjög dularfull, og dvelur meðal annars í draumaheimi undirgangsins. Annað táknhlaðið stef er hringekjan, en hringekjur hafa löngum verið ímynd einskonar ævintýraferðar sem á sér hvorki upphaf né endi. Í fantasíunni Konungur þjófanna eftir Corneliu Funke (íslensk þýðing Hafliða Arngrímssonar 2004) segir einmitt frá hringekju sem býr yfir þeim mætti að ferðast í tíma.

Hringekjan er líka eitt af því sem tengir saman fortíð Ívönu og framtíð, sagan segir einnig frá sambandi hennar við mann sem hún kallar Arvo, en hann hvarf skyndilega eftir að hún sagði honum frá undarlegum draumi. Þar á hún upptrekkta hringekju: „„Ég hef alltaf verið mjög hrifin af spiladósum,” sagði hún. „Og uptrekkjanlegum klukkum líka. Gangverkið í þeim virðist svo einfalt en samt svo flókið. Mér hefur alltaf þótt það mjög heillandi.”” (25) Þegar hún svo sefur hjá Arno heyrir hún dularfull tikk úr líkama hans sem heldur fyrir henni vöku.

Ýmsar aðrar persónur koma við sögu, til dæmis nágranni Ívönu, sem er tónskáld, en fortíð hans tengist stelpunni dularfullu. Þannig liggja allskonar þræðir þvers og kruss um söguna og snertast hér og þar án þess þó að bjóða nokkurntíma uppá lausn.

Enda er lausn kannski ekki endilega það sem leitað er eftir, markmið verka á borð við þetta er að bjóða lesandanum uppá ofurlitla ferð inní annan veruleika, sem jafnframt felur í sér snertingu við þann draumaheim sem allir búa í á nóttunni. Að þessu leyti minnir saga Þórdísar dálítið á kvikmyndir bandaríska leikstjórans David Lynch, en einnig má sjá líkindi með verkum íslensku rithöfundanna Kristínar Ómarsdóttur og Gyrðis Elíassonar (aðallega í íkorna-bókum þess síðarnefnda).

Þrátt fyrir að vera fimlega unnin og áhugaverð nær Sónata fyrir svefninn ekki sömu áhrifum og fyrri skáldsaga Þórdísar, Saga af bláu sumri. Til þess er sagan á einhvern hátt of máttlítil og nær ekki að koma nægilega mikið á óvart. Fantasíuminnin eru óþarflega kunnugleg og úrvinnsla þeirra ekki nægilega öflug og því virkar sagan á stundum næstum eins og einhver millivegur milli ljóðrænnar dulúðar og róttækrar fantasíu. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þessi litla fallega bók er virkilega þess virði að vera lesin og svo lesin aftur.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2009


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Rennur upp um nótt
Rennur upp um nótt | 29.03.2011
Þessi ljóðabók Ísaks Harðarsonar frá 2009 er tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, en tilkynnt verður um verðlaunahafann þann 12. apríl næstkomandi. Hér er umfjöllun Úlfhildar Dagsdóttur um bókina. ...
Votlendi
Votlendi | 03.11.2010
En bókin fjallar bara um einmanaleika, sagði frænka mín þegar ég hringdi í hana. Ég var nokkuð áhyggjufull, því ég hafði nýlega sent henni skáldsöguna Votlendi, eftir þýsku skáldkonuna Charlotte Roche, en hafði láðst að athuga um hvað bleika bókin með avókadómyndinni á kápunni fjallaði. Frænka mín er rúmlega áttræð. . ...
Hjá brúnni
Hjá brúnni | 04.10.2010
Skáldsaga Kristínar Ómarsdóttur, Hjá brúnni, er svo hlaðin táknum að það er ákaflega freistandi að reyna að lesa hana sem lykilsögu og þá sérstaklega útfrá þeim hluta hennar sem fjallar um kúgun stjórnvalda og óttan við listina. ...
Þegar kóngur kom | 19.03.2010
Rithöfundurinn og sögukennarinn Helgi Ingólfsson hefur sent frá sér skáldverkið Þegar kóngur kom. Þetta er vissulega athyglisverð bók fyrir ýmissa hluta sakir. Þannig er gengið frá málum að látið er sem sú persóna sem lætur okkur söguna í té sé höfundur bókarinnar en svo er þó ekki og raunar er sú persóna hin eina í bókinni sem er skálduð. ...
Vormenn Íslands | 19.03.2010
Birgir Thorlacius var moldrík senditík útrásarvíkinga, hann fékk á sig dóm fyrir að stela fé af Barnaspítalanum og sinnir nú samfélagsþjónustu á elliheimili. Hann er að deyja úr lungnakrabba. ...
Svörtuloft | 19.03.2010
Kona er barin til ólífis á heimili sínu á Kleppsvegi, maður hverfur á gönguferð við Svörtuloft í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi, drykkjumaður heldur eldri manni föngnum og ráðgerir að koma honum fyrir kattarnef með óvenjulegri aðferð. ...
Svuntustrengur | 19.03.2010
Það ríkja undarleg litabrigði í bók Sigurlínar Bjarneyar Gísladóttur, Svuntustrengur. Bókin er safn smáprósa, örsagna og smásagna og þar skiptast á bjartar stundir og myrkraverk með ákaflega skemmtilega andstyggilegum perralegum undirtónum, og svo er nokkuð um gráa tóna í bland. ...
Spor | 19.03.2010
Raðmorðingi gengur laus í Reykjavík. Áhugi hann virðist beinast að óvirkum alkóhólistum en þeim kemur hann fyrir kattarnef með ýmsu móti. Hugsanlega tengjast þessi morð reynslusporunum tólf sem óvirkir fíklar hafa sér til leiðbeininga á lífsins vegi. ...
Veruleikinn er verulega óstöðugur í skáldsögu Þórdísar Björnsdóttur, Sónata fyrir svefninn. Sagan er önnur skáldsaga Þórdísar, en áður hefur hún einnig skrifað ljóð og prósabók í félagi við skáldið Jesse Ball. ...
Sólstjakar | 19.03.2010
Eitt af því sem gerir bækur Viktors Arnars Ingólfssonar alltaf svo ánægjulegar aflestrar er hversu vel hann hugar að smáatriðum. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál