Vormenn Íslands

Mikael Torfason.

Sögur, 2009

Birgir Thorlacius var moldrík senditík útrásarvíkinga, hann fékk á sig dóm fyrir að stela fé af Barnaspítalanum og sinnir nú samfélagsþjónustu á elliheimili. Hann er að deyja úr lungnakrabba. Hann flýr konu sína og stjúpdætur og flytur inn á afa sinn í Torfufellinu. Arnar sonur hans flytur inn á eftir honum, en hann er goth-ari sem var rekinn úr skóla þegar kynlífsmyndband með honum lak á netið. Síðastur kemur Júlli, faðir Bigga, hann flytur inn þegar hann missir íbúðina sína. Júlli hefur verið meira og minna fullur allt sitt líf en er nú genginn í AA, vinnur í sporunum 12 og er heilagri en flestir aðrir. Geiri gamli, afinn sem á íbúðina, er útjaskaður ekkill og dagdrykkjumaður. Þessir menn, segir sögumaður, eru vormenn Íslands.

Vormaður er einhver sem ræður sig til vinnu yfir vorið. Auk þess, segir orðabókin, getur orðið átt við framfaramann eða ,,mann sem starfar í byrjun góðs tímabils í þjóðarsögu.” Það er ekki hátt upplitið á feðgunum í Fellunum og alls ekki ljóst hvers vegna sögumaður kýs að líkja þeim við framfaramenn eða vinnukraft að vori. Maður spyr sig hvað felist í fyrri skilgreiningunni: er vormaðurinn sá atorku- og hugsjónamaður sem gerir uppgang vorsins mögulegan, eða tækifærissinni og fyllibytta sem vinnur á hnefanum þegar gott er í ári og dettur svo í það fram yfir vetur?

Sjálfsagt fer merkingin eftir því við hvern er rætt og hvenær, og nafngiftin írónísk að því leyti að eldri þrír ættliðirnir hafa þegar lifað sína vormánuði og frekar en ekki unnið til ills eða einskis. Þetta á einkum og sér í lagi við Birgi, sem er birtingarmynd alls þess sem var svo æðislegt við Ísland árið 2007 og allt í einu svo ömurlegt árið 2009. Það er freistandi að líta á fjórmenningana sem uppdrátt af þjóðinni í heild, en út úr sorgarsögu Thorlacius-fjölskyldunnar má í raun lesa stilltan og sannfærandi reiðilestur um þrælslund, eigingirni og græðgi íslensku þjóðarinnar.

Ekkert virðist þó rista jafn djúpt og höfuðmeinið, enda er sögumaðurinn óvirkur alki. Samkvæmt honum er alkóhólismi faraldur á Íslandi sem stendur þjóðinni fyrir þrifum, og eru nær allar ef ekki allar persónur bókarinnar alkóhólistar eða meðvirk börn alkóhólista. Thorlacius-fjölskyldan er sannarlega þar á meðal. Orðasambönd eins og að vera á hnefanum, að kóa, að ná botninum eða að sleppa og leyfa Guði eru sögumanni töm og persónum og aðstæðum gjarnan lýst með hjálp AA-tungutaksins. En fjarri því að gera frásögnina kreddufasta þá gefur þetta sögumanni sjónarhorn sem hæfir bókinni ágætlega. Hér er verið að lýsa ástandi þjóðfélags eftir peningafyllerí, hausti á leið inn í vetur, og þótt sumir lofi bót og betrun vilja fáir viðurkenna að við eigum við vandamál að stríða. Þetta mynstur þekkir 12 spora-maðurinn og enda þótt hann lýsi þessari tengingu ekki í beinum orðum þá liggur hún til grundvallar, og á þar vel við.

Sjálfur söguþráðurinn segir frá leit Birgis að sannleikanum um dauða móður sinnar. Hún dó þegar hann var sex ára og var talin hafa framið sjálfsmorð, en Birgir grunar föður sinn um að hafa átt hlut að máli. Hann rannsakar málið ásamt Arnari og Nonna félaga sínum og kaflarnir þar sem þeir ,,safna sönnunargögnum" og ,,taka viðtöl" eru kostulega blátt áfram, hvort sem er í kurteisi eða grimmd. Þess á milli fer hann á Al-anon fundi, drekkur og dópar og forðast konuna sína. Sagan er í snöggum og beinskeyttum stíl sem fer úr einu tímabili í annað og rokkar úr hrakförum Birgis yfir í ævisöguatriði sögumanns án þess að hiksta.

Manni verður tíðrætt um sögumanninn enda er hann mjög fyrirferðamikill, jafnvel þótt hann komi fjölskylduharmleiknum nánast ekkert við. Lífshlaup hans er að einhverju leyti byggt á ævi Mikaels sjálfs: Hann var ritstjóri Dagblaðsins og Séð og heyrt, hefur skrifað nokkrar skáldsögur, fór til Danmerkur til að undirbúa kaup Jóns Ásgeirs á Berlingske Tidende o.s.frv. En um leið lætur hann á því bera, án þess að það trufli beint frásögnina, að sagan sem hann segir, og læst hafa tekið þátt í, sé skáldskapur. Kjörið dæmi er þessi útúrdúr á 156. síðu:

"(Smá innskot. Ég hef ekki hugmynd um hvar Kobbi er í dag og hef leitað mikið. Ekki bara á Facebook. Ef þú lest þessa bók Kobbi eða einhver sem þekkir þig þá er ég á Facebook og í símaskránni.)"

En Mikael Torfason er hvorki skráður í símaskrána né Facebook, og ónefndur sögumaður hans varla heldur. Þetta er allt hluti af því að byggja upp persónu sögumannsins, sem aftur er samtvinnaður persónu Mikaels sjálfs í huga lesandans. Sagan af Thorlacius-körlunum og konum þeirra er spennandi og áhugaverð út af fyrir sig, en það eru þessi leikandi rödd sögumanns, afslappaður og hrár frásagnarmáti og óljós mörk milli skáldskapar og veruleika, sem gera bókina að þrælskemmtilegri lesningu.

Björn Unnar Valsson, nóvember 2009


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál