The Iron Wagon

Jason. Kim Thompson þýddi á ensku.

Fantagraphics, 2003

Rithöfundurinn og járnvagninn

Norski myndasöguhöfundurinn Jason (duln.) heldur áfram sigurgöngu sinni utan Norðurlanda, en nú hefur þriðja bók hans, The Iron Wagon (Jernvognen) verið þýdd á ensku. Það verður reyndar að geta þess að þýðingar á bókum Jasons eru fremur einfalt mál, því textinn er ekki mikill, og því mætti kannski frekar tala um útgáfu á ensku. Það er fyrirtækið Fantagraphic Books sem gefur norðmanninn út, en það fyrirtæki er eitt af þeim fjölmörgu óháðu útgáfufyrirtækjum sem varð til í kjölfar vinsælda neðanjarðarmyndasögunnar í lok sjöunda áratugarins og upphafi þess áttunda. Áður hafa tvær bóka Jasons, Hey Wait! og Shhh... verið gefnar út af sama fyrirtæki, en um þá síðarnefndu hef ég fjallað um hér á síðunni.

Að þessu sinni velur Jason sér að skrifa myndasögu uppúr, eða aðlaga, stutta skáldsögu eftir Stein Riverton sem reyndar skrifaði einnig undir dulnefni, en hans rétta nafn mun vera Sven Elvestað. Stein nafnið notaði Sven þegar hann skrifaði glæpasögur, en Járnvagninn er einmitt stutt glæpasaga.
Sagan hefst á inngangi; kofi sést í fjarska, í glugganum er ljós. Við nálgumst kofann ramma fyrir ramma og horfum inn um gluggann, þar situr einhver og les. Þegar sá verður var við 'okkur' sem stöndum við gluggan stekkur hann upp og ber fyrir sig höndina (að hætti persóna í glæpasögum) og segir: "Hvað viltu mér?!" Hann þrífur byssu úr skúffu og skýtur að okkur, en engin skot eru í byssunni og það líður yfir hann. Næsta sjónarhorn er út um gluggann þarsem skuggavera horfir inn og gengur svo á brott. Kofinn fjarlægist.

Næst erum við komin á sveitahótel í litlu þorpi, Hvalen, árið 1909. Þar sitja þrír kunningjar og ræða fríið sitt í sveitinni. Einn þekkjum við aftur sem náungann úr innganginum, í ljós kemur að hann er rithöfundur, því annar er að lesa bók eftir hann. Þeir njóta sumarsins og fylgjast með stelpum, rithöfundurinn reynist hafa einhverja sérstaka í huga og leggur af stað að heimsækja hana, en hún býr með bróður sínum á setri rétt hjá og er mjög vinsæl meðal karlmanna. Þegar hann bankar uppá er honum vísað nokkuð harkalega á brott, en hann gefst ekki upp og fer bakvið húsið þarsem hann sér sína heittelskuðu kveðja annan mann. Þegar hann gengur í burtu, nokkuð miður sín, heyrir hann undarlegt hljóð. Hann mætir gömlum manni sem segir honum sögu af járnvagninum, uppfinningu furðufugls sem áður byggði setrið og hafði sá dáið voveiflega. Síðan þá boðaði hljóð járnvagnsins alltaf voveiflega atburði, eins og þann að faðir núverandi setursbúa hvarf sporlaust fyrir nokkrum árum. Morgunninn eftir finnst lík á göngustígnum, þar er kominn maðurinn sem sást kveðja hina eftirsóttu stúlku og er ljóst að hann hefur verið myrtur. Og nú taka ýmsir atburðir að gerast sem ekki verður lýst frekar, enda um glæpasögu að ræða.

Sem fyrr er stíll Jasons einfaldur og áhrifamikill, og alger andstæða við til dæmis flúrlegan og fínlegan stíl Kevin O'Neill í League of Extraordinary Gentlemen, sem á að gerast á svipuðum tíma. Stíll Jasons virkar næstum grófur í samanburðinum, en allar línur eru þykkar og skýrar og allur bakgrunnur mjög einfaldaður. Hér er gerð undantekning á svart/hvíta stílnum og rauður litur hefur bæst við, allar nætursenur eru rauðar, utan þær sem eru sagðar í bakliti, auk þess sem rauði liturinn er notaður á ýmis smáatriði. Á einhvern undarlegan hátt gefur þetta bókinni það gamaldags yfirbragð sem hún krefst, en hér er klárlega vísað til gotneskra draugasagna. Tungutakið er líka fremur gamaldags, og virðist mér það hafa skilað sér vel í þýðingu, og spilar svo á skemmtilegan hátt við búninga persónanna sem eru einnig mjög, eh, gamaldags. Þannig er nær yfirbragð bókarinnar í heild að skapa andrúmsloft þess tíma sem hún á að gerast á. Þetta er sérstaklega áhrifamikið með tilliti til þess að persónur bókanna eru sem fyrr í bókum Jasons, dýr: hundar og fuglar (mér finnst reyndar sumir hundarnir alltaf dálítið kanínu eða héralegir...), og álíka persónur þekkir lesandi Jasons úr mun nútímalegri kringumstæðum.

Það eina sem mér fannst athugavert við þessa annars afskaplega fallegu bók og grípandi sögu var að sjálf glæpasagan væri ekki aðeins fyllri, mikil áhersla er lögð á andrúmsloft – sem stíll Jasons dregur fram á einstaklega áhrifamikinn, en þó umfram allt einfaldan hátt – meðan eftirgrennslanir rannsóknarlögreglumannsins eru helst til óljósar, og lausnin því ekki alveg nægilega undirbyggð. En þarsem ég hef ekki lesið skáldsögu Stein Riverton (en langar mikið til þess) get ég ekki dæmt um hvort vandinn liggur þar eða í útfærslu Jasons. Lausnin er sömuleiðis nokkuð fyrirsjáanleg, en ég fæ ekki betur séð en að það sé með vilja gert, sbr. þetta með að áherslan er á andrúmsloft glæpsins og sektina sjálfa fremur en rannsókina. Í heildina er saga Jasons því góð viðbót í bókahilluna, og skyldulesning fyrir aðdáendur góðra glæpasagna.

Úlfhildur Dagsdóttir, febrúar 2004


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

"Þú sagðir vonandi ekkert slæmt" segir amma í hvert sinn sem ég nefni að ég hafi fjallað um bók. Neinei, svara ég, ég sagði ekkert slæmt. Stundum krosslegg ég fingurna, það verður að hlífa gamla fólkinu. ...
Nafn norsku blaðakonunnar Åsne Seierstad ætti að vera íslenskum lesendum í fersku minni eftir að þýðing á bók hennar um Bóksalann í Kabúl kom út hér á landi fyrir síðustu jól. Þar sagði frá dvöl höfundar meðal afganskrar fjölskyldu eftir fall talíbanastjórnarinnar þar í landi. ...
Buddha | 07.04.2010
Japanska myndasagan á sér heilmikla og merkilega sögu sem ástæða er til að gefa gaum nú þegar þetta sérstæða myndmálsform hefur náð mikilli útbreiðslu á vesturlöndum. ...
Það er einhver skemmtilega ævintýraleg stemning yfir sögu Nicolu Barker, Fimm mílur frá Ytri-Von. Reyndar minnir andrúmsloftið dálítið á aðrar Neon bækur bókaútgáfunnar Bjarts, eins og söguna af kínversku saumastúlkunni og belgíska ritaranum í Japan ...
Undanfarið hefur hér á Borgarbókasafninu borið mikið á evrópskum myndasögum sem gefnar eru undir merkjum SAF Comics (SAF stendur fyrir Strip Art Features). ...
Fyrir dálitlu síðan tapaði ég mér gersamlega í myndasögunni Cinderalla (Viz, 2002) eftir japanska höfundinn Junko Mizuno. Sagan er einskonar hrollvekju-erótísk útgáfa af öskubuskuævintýrinu ...
Don Kíkóti | 07.04.2010
Gjarnan er sagt að með Kíkóta hafi nútímaskáldsagan fæðst. Hún fjallaði allavega fyrst um skáldskapinn sjálfan og ímyndunaraflið þarna. ...
Superman: Red Son | 07.04.2010
Ofurhetjur myndasagnanna hafa löngum verið vinsælar og eru ofurhetjusögurnar sú tegund formsins sem er hvað sýnilegust og almennust. Ofurhetjan er al-amerísk framleiðsla, sprottin upp úr amerísku samfélagi og hugsunarhætti og er erfitt að ímynda sér að hún hefði fæðst annarsstaðar. ...
The Iron Wagon | 07.04.2010
Norski myndasöguhöfundurinn Jason (duln.) heldur áfram sigurgöngu sinni utan Norðurlanda, en nú hefur þriðja bók hans, The Iron Wagon (Jernvognen) verið þýdd á ensku. ...
Sagan hefst á Mars. Þar búa nokkrir þjóðflokkar, og meðal þeirra tveir jarðarbúar, annar þeirra heitir Gullivar... Stríð er yfirvofandi og svo virðist sem flestar þjóðirnar hafi bundist samtökum gegn einni sem þykir sérlega varhugaverð. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál