Cinderalla, Hansel and Gretel og Princess Mermaid

Junko Mizuno. Yuji Oniki þýddi á ensku.

Öskubuska, Hans og Gréta og Litla hafmeyjan fá japanska andlitslyftingu

Fyrir dálitlu síðan tapaði ég mér gersamlega í myndasögunni Cinderalla (Viz, 2002) eftir japanska höfundinn Junko Mizuno. Sagan er einskonar hrollvekju-erótísk útgáfa af öskubuskuævintýrinu og segir frá Cinderöllu litlu sem vinnur á veitingahúsi föður síns, gengur þar um beina ákaflega fáklædd innanum aðrar fáklæddar gengilbeinur. Veitingahúsið er mjög vinsælt, því faðirinn gerir sérlega góða teriyaki sósu. En svo dynja þau ósköp yfir að faðirinn deyr og framtíð Cinderöllu er í hættu. Allt virðist falla í ljúfa löð aftur þegar faðirinn rís upp aftur sem zombía (samt ekki heiladauður eins og ameríska hefðin segir til um) og hefur í leiðinni kynnst konu - sem líka er zombía og á tvær (zombíu) dætur. Og alveg eins og í ævintýrinu lendir Cinderalla í því að vera þerna fyrir þær þrjár, daglega þarf hún að elda ókjör af mat handa stjúpmóðurinni því í maga hennar býr lítill álfur sem borðar mikið og heimtar meira, og að auki þarf Cinderalla að hekla brjóstahaldara handa annarri systurinni, en sökum zombismans eru brjóst hennar bæði stór og síbreytileg... Núnú, í öllu þessu gefur Cinderalla sér tíma til að bjarga lítilli ófleygri álfamær sem í þokkabót hefur ekki náð tökum á álfatöfrum, og svo verður hún ástfangin! Af zombíusöngvara sem er stórstjarna. En nú eru góð ráð dýr, því söngvarinn vill bara giftast zombíu og þegar hann lýsir eftir hinni fullkomnu konu (sem að sjálfsögðu er Cinderalla), þá er dömunni sjálfri meinaður aðgangur að stúdíóinu. Cinderalla sér bara eina lausn á sínu máli: að verða zombía sjálf.
Stíllinn er barnalegur eins og algengt er í japönskum myndasögum, en með alveg dásamlega grótesku ívafi. Sagan er í lit og er litanotkunin allsérstæð, blanda ýktra 'kitsch' lita og drungalegs hrollvekjuyfirbragðs. Zombíurnar eru fagurgrænar en að öðru leyti eru bleikir og fjólurauðir og -bláir litir áberandi sem gerir sjónrænu upplifunina dálítið sérstaka. Japanir eru frægir fyrir klám í myndasöguformi og Junko er enginn eftirbátur og stráir söguna skemmtilega kinkí erótísku myndmáli. Bókinni fylgja svo límmiðar sem hámarkaði sæluna.

Það er ljóst að þetta merkisverk vakti mikla athygli á listakonunni og var hún ekki lengi að fylgja bókinni eftir með þremur öðrum, lítilli myndabók, án söguþráðar, og svo tveimur nýjum ævintýraútgáfum, Hansel and Gretel og Princess Mermaid (báðar Viz, 2003).
Sú fyrrnefnda er sú sem er kannski síst heppnuð, en sagan þar er ekki nægilega spennandi. Hans og Gréta eru systkin og foreldrar þeirra eiga matvöruverslun í litlum bæ. Einn daginn er kaupmönnunum neitað um að kaupa vistir hjá birgðafólki sínu (garðyrkjusystrum sem rækta grænmeti og ávexti í hári sínu, námumönnum sem grafa brauð úr brauðfjalli og risasvíni sem sker sneiðar af sjálfu sér) og ljóst er að einhver álög hafa verið lögð á bæjarbúa. Áður en varir eru foreldrarnir fallnir undir sömu álög og Hans og Gréta verða að bjarga. Það gera þau með glæsibrag, sérstaklega reynist Gréta hetjuleg. Í raun fjallar sagan svo eftir allt um einskonar einelti, en eitthvað fannst mér þetta fremur þreytandi, þrátt fyrir hugmyndaauðgi í myndmáli og litum sem fyrr.

Hinsvegar reyndist sagan af prinsessu-hafmeyjunni ekki síðri gleðigjafi en Öskubuskan. Sagan er blanda af H.C. Andersen og goðsögninni um Lóreley og lýsir hópi hafmeyja, systra, sem reka neðansjávargleðikvennahús. Ekki eru þær þó alltaf til gleði því á stundum éta þær viðskiptavinina. Það er þó með nokkrum rétti, því hafmeyjurnar eiga harma að hefna, eftir að illvirkjar höfðu drepið móður þeirra og fjölskyldu alla: en hafmeyjulíkamshlutar ýmsir eru seldir fyrir hátt verð, sérstaklega augun. Nokkur sundrung ríkir þó meðal systranna, en ein þeirra, aðalsöguhetja vor, vill ekki lengur taka þátt í drápunum, meðan önnur hugsar eingöngu um að unga út eggjum með litlum hafmeyjufóstrum í, og hlú að þeim. Sú þriðja er hinsvegar full reiði og haturs. Núnú, þeim sem þekkja söguna kemur ekki beint á óvart að aðaldaman verður ástfangin af mennskum strák, eftir að hafa verið handsömuð af illvirkjum þeim sem drápu móður hennar, og þráir að fá fætur og geta gengið. Sú reiða er enn reið og sú barngóða fitnar. Og svo segi ég ekki meir.

Bækurnar eru allar í sama stíl, bæði hvað varðar myndir og litanotkun og það er hin hreinasta sjónræna nautn að lesa þær (þó sagan af H og G hafi ekki hitt í mark var bókin falleg og gaman að skoða). Af þessum þremur er þó hafmeyjusagan fallegust, neðansjávarmyndmálið og líkamar hafmeyjanna eru teiknuð í ótrúlega fallegum litum og línum, og breytist á stundum í hreinan leik með form, og allt þetta undirstrikar þetta svo erótíska undir- og yfirtóna sögunnar. Og ekki má gleyma límmiðunum og póstkortunum sem undirstrika leikinn og gleðina í þessu öllu saman.

Vefsíða Junko: www.mizouno-junko.com

Úlfhildur Dagsdóttir, mars 2004


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

"Þú sagðir vonandi ekkert slæmt" segir amma í hvert sinn sem ég nefni að ég hafi fjallað um bók. Neinei, svara ég, ég sagði ekkert slæmt. Stundum krosslegg ég fingurna, það verður að hlífa gamla fólkinu. ...
Nafn norsku blaðakonunnar Åsne Seierstad ætti að vera íslenskum lesendum í fersku minni eftir að þýðing á bók hennar um Bóksalann í Kabúl kom út hér á landi fyrir síðustu jól. Þar sagði frá dvöl höfundar meðal afganskrar fjölskyldu eftir fall talíbanastjórnarinnar þar í landi. ...
Buddha | 07.04.2010
Japanska myndasagan á sér heilmikla og merkilega sögu sem ástæða er til að gefa gaum nú þegar þetta sérstæða myndmálsform hefur náð mikilli útbreiðslu á vesturlöndum. ...
Það er einhver skemmtilega ævintýraleg stemning yfir sögu Nicolu Barker, Fimm mílur frá Ytri-Von. Reyndar minnir andrúmsloftið dálítið á aðrar Neon bækur bókaútgáfunnar Bjarts, eins og söguna af kínversku saumastúlkunni og belgíska ritaranum í Japan ...
Undanfarið hefur hér á Borgarbókasafninu borið mikið á evrópskum myndasögum sem gefnar eru undir merkjum SAF Comics (SAF stendur fyrir Strip Art Features). ...
Fyrir dálitlu síðan tapaði ég mér gersamlega í myndasögunni Cinderalla (Viz, 2002) eftir japanska höfundinn Junko Mizuno. Sagan er einskonar hrollvekju-erótísk útgáfa af öskubuskuævintýrinu ...
Don Kíkóti | 07.04.2010
Gjarnan er sagt að með Kíkóta hafi nútímaskáldsagan fæðst. Hún fjallaði allavega fyrst um skáldskapinn sjálfan og ímyndunaraflið þarna. ...
Superman: Red Son | 07.04.2010
Ofurhetjur myndasagnanna hafa löngum verið vinsælar og eru ofurhetjusögurnar sú tegund formsins sem er hvað sýnilegust og almennust. Ofurhetjan er al-amerísk framleiðsla, sprottin upp úr amerísku samfélagi og hugsunarhætti og er erfitt að ímynda sér að hún hefði fæðst annarsstaðar. ...
The Iron Wagon | 07.04.2010
Norski myndasöguhöfundurinn Jason (duln.) heldur áfram sigurgöngu sinni utan Norðurlanda, en nú hefur þriðja bók hans, The Iron Wagon (Jernvognen) verið þýdd á ensku. ...
Sagan hefst á Mars. Þar búa nokkrir þjóðflokkar, og meðal þeirra tveir jarðarbúar, annar þeirra heitir Gullivar... Stríð er yfirvofandi og svo virðist sem flestar þjóðirnar hafi bundist samtökum gegn einni sem þykir sérlega varhugaverð. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál