Boy Vampire: The Resurrection

Carlos Trillo og Eduardo Risso.

SAF, 2003

Myndasögur í stríði og friði

Undanfarið hefur hér á Borgarbókasafninu borið mikið á evrópskum myndasögum sem gefnar eru undir merkjum SAF Comics (SAF stendur fyrir Strip Art Features). Eftir að hafa lesið nokkrar fór ég að forvitnast um fyrirtækið og komst þá að því að það á sér nokkuð merkilega sögu. Í dag er SAF staðsett í Slóveníu, en upphaflega voru höfuðstöðvarnar í Sarajevo. Útgáfan var stofnuð árið 1972 af Ervin Rustemagic, sem þá var aðeins 19 ára. Hann byrjaði smátt en fljótlega var hann kominn með nokkra þekkta höfunda og á níunda áratugnum var fyrirtæki hans orðið eitt af stærstu fyrirtækjunum í þessum bransa og sinnti bæði útgáfu og dreifingu til annarra útgefenda. Svo brast stríðið á og byggingin sem hýsti útgáfu Rustemagic og safn hans af frummyndum teiknara var lögð í rúst. En hann gafst ekki upp og endurbyggði fyrirtækið nokkrum árum síðar, nú með höfuðstöðvar í Slóveníu eins og áður er sagt.
Þess má geta að lokum að myndasaga Joe Kubert, Fax From Sarajevo, fjallar einmitt um Rustemagic.

Sem fyrr leggur SAF áherslu á útgáfu og dreyfingu á evrópskum myndasögum. Ekki þó endilega frá Belgíu og Frakklandi sem eru þekktustu myndasögulöndin, heldur er hér að finna listamenn og rithöfunda frá Ítalíu og Spáni, auk þess sem SAF hefur gefið út verk argentínskra listamanna.

Og þeir eru einmitt frá Argentínu, Carlos Trillo og Eduardo Risso, sem standa að bókinni um vampýrustrákinn nafnlausa, Boy Vampire: The Resurrection (2003). Risso er þónokkuð þekktur í Bandaríkjunum, sérstaklega fyrir samstarf sitt með Brian Azzarello en Trillo er fyrst og fremst þekktur á Evrópumarkaði. Þeir félagar hafa starfað nokkuð saman og er þessi bók einungis eitt dæmi um útkomuna.
Sagan hefst á því að iðnaðarmenn opna leið inn í gömul ræsi, en þar hefur vampýrustrákurinn komið sér fyrir til að hvíla sig í nokkra áratugi. Sólin lífgar hann á ný, sem er fyrsta merkið um að hér er á ferðinni nokkuð óvenuleg vampýrusaga – almennt hefur sólin verið til vandræða fyrir vampýrur meðan tunglið hefur hinsvegar haft þann mátt að hressa uppá þær. Smátt og smátt fáum við sögu vampýrunnar, en drengurinn var upphaflega sonur Faraós. Í óskiljanlegu sólgosi brann faðir hans og fylgdarlið upp til agna, en skildi soninn, nafnlausan, og hjákonuna, sem er illa við strákinn, eftir á lífi og ódauðleg. Síðan þá hafa þau fylgt hvort öðru gegnum aldirnar, og barist upp á líf og dauða, sem er ekki lítið mál, því það er ómögulegt að drepa þau. Vampýrustrákurinn er því dæmi um vampýruna sem hetju, en ekki óvætt, og vampýrubaninn er önnur vampýra. Annar höfundur sem hefur gert mikið út á vampýruna sem hetju er Anne Rice, en hún rakti líka vampýrur sínar til Egypta, enda er það mjög viðeigandi með tilliti til áhuga Egypta á endurholdgun og siðvenjum hverskyns kringum dauða og lífið eftir hann.
Inn á milli þessara minningarbrota gerist svo hin raunverulega saga, sú sem gerist í dag, en þar fylgjumst við með stráksa fóta sig í stórborginni. Hann hittir gamlan indíána sem tekur hann undir sinn verndarvæng, en það reynist dýrkeypt.
Myndirnar eru í svart/hvítu og mikið skyggðar eins og viðeigandi er þegar um hrollvekju er að ræða. Teikningar Risso eru með afbrigðum líflegar og kraftmiklar, yfirleitt teiknaðar þykkum skýrum dráttum í bland við fínlegri línur. Samspil skugga og útlína gæða söguna hreyfingu og óhugnaði, jafnframt því að gefa til kynna einmanaleik stráksa, þegar það á við.

Önnur saga frá SAF er Sleep, Little Girl (2003), eftir spánska höfundinn og teiknarann Sergio Bleda. Sú saga er mun styttri en sagan af vampýrustráknum og allólík henni að yfirbragði. Myndirnar eru í lit og mun raunsærri en teikningar Risso, og hafa yfir sér ákveðið vatnslitayfirbragð. Blaðamaðurinn Juan þarf nauðsynlega að finna sögu til að koma sér á framfæri og honum gengur eitthvað brösuglega þar til hann rekst á dularfullt mál. Hann kemst að því að með stuttu millibili hafa tvö nýgift pör dáið í svefni á óskiljanlegan hátt. Það sem þau eiga sameiginlegt er að hafa ættleitt litla stúlku sem er einhverf. Juan fer og rannsakar málið og kemst að því að blóðforeldrar stúlkunnar voru ákaflega auðugt fólk sem sættu sig illa við fötlun dótturinnar. Inn í söguna blandast svo senur úr sambandi blaðamannsins við unnustu sína – væntanlega til að kynna þau til sögunnar sem verðandi foreldra? – sem á þessa líka fínu Power Puff Girls svuntu!
Sagan er nokkuð áhrifamikil, en líður kannski helst fyrir að vera of stutt, það hefði til dæmis mátt undirbyggja afhjúpunina í lokin betur. Hinsvegar eru teikningarnar fremur sterkar og Bleda dregur vel fram draugalegt andrúmsloft með litabreytingum og sjónarhornum.

Sjálfsagt er misjafn sauður í mörgu fé hjá þeim hjá SAF, en mér sýnist að almennt séu bækurnar hnýsilegar, og í sumum tilfellum, eins og í ofangreindum sögum, vel þess virði að sökkva sér ofaní.

Úlfhildur Dagsdóttir, apríl 2004


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

"Þú sagðir vonandi ekkert slæmt" segir amma í hvert sinn sem ég nefni að ég hafi fjallað um bók. Neinei, svara ég, ég sagði ekkert slæmt. Stundum krosslegg ég fingurna, það verður að hlífa gamla fólkinu. ...
Nafn norsku blaðakonunnar Åsne Seierstad ætti að vera íslenskum lesendum í fersku minni eftir að þýðing á bók hennar um Bóksalann í Kabúl kom út hér á landi fyrir síðustu jól. Þar sagði frá dvöl höfundar meðal afganskrar fjölskyldu eftir fall talíbanastjórnarinnar þar í landi. ...
Buddha | 07.04.2010
Japanska myndasagan á sér heilmikla og merkilega sögu sem ástæða er til að gefa gaum nú þegar þetta sérstæða myndmálsform hefur náð mikilli útbreiðslu á vesturlöndum. ...
Það er einhver skemmtilega ævintýraleg stemning yfir sögu Nicolu Barker, Fimm mílur frá Ytri-Von. Reyndar minnir andrúmsloftið dálítið á aðrar Neon bækur bókaútgáfunnar Bjarts, eins og söguna af kínversku saumastúlkunni og belgíska ritaranum í Japan ...
Undanfarið hefur hér á Borgarbókasafninu borið mikið á evrópskum myndasögum sem gefnar eru undir merkjum SAF Comics (SAF stendur fyrir Strip Art Features). ...
Fyrir dálitlu síðan tapaði ég mér gersamlega í myndasögunni Cinderalla (Viz, 2002) eftir japanska höfundinn Junko Mizuno. Sagan er einskonar hrollvekju-erótísk útgáfa af öskubuskuævintýrinu ...
Don Kíkóti | 07.04.2010
Gjarnan er sagt að með Kíkóta hafi nútímaskáldsagan fæðst. Hún fjallaði allavega fyrst um skáldskapinn sjálfan og ímyndunaraflið þarna. ...
Superman: Red Son | 07.04.2010
Ofurhetjur myndasagnanna hafa löngum verið vinsælar og eru ofurhetjusögurnar sú tegund formsins sem er hvað sýnilegust og almennust. Ofurhetjan er al-amerísk framleiðsla, sprottin upp úr amerísku samfélagi og hugsunarhætti og er erfitt að ímynda sér að hún hefði fæðst annarsstaðar. ...
The Iron Wagon | 07.04.2010
Norski myndasöguhöfundurinn Jason (duln.) heldur áfram sigurgöngu sinni utan Norðurlanda, en nú hefur þriðja bók hans, The Iron Wagon (Jernvognen) verið þýdd á ensku. ...
Sagan hefst á Mars. Þar búa nokkrir þjóðflokkar, og meðal þeirra tveir jarðarbúar, annar þeirra heitir Gullivar... Stríð er yfirvofandi og svo virðist sem flestar þjóðirnar hafi bundist samtökum gegn einni sem þykir sérlega varhugaverð. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál