Hundra och en dag: En reportageresa

Åsne Seierstad. Jan Stolpe þýddi á sænsku.

Norstedts Förlag, Stockholm 2003

Nafn norsku blaðakonunnar Åsne Seierstad ætti að vera íslenskum lesendum í fersku minni eftir að þýðing á bók hennar um Bóksalann í Kabúl kom út hér á landi fyrir síðustu jól. Þar sagði frá dvöl höfundar meðal afganskrar fjölskyldu eftir fall talíbanastjórnarinnar þar í landi. Bókinni var hampað um heim allan, þýdd á fjölda tungumála og gerði höfundinn frægan langt út fyrir heimaland sitt.

Åsne Seierstad hefur lagt sig nokkuð eftir því undanfarin ár að sækja heim þau stríðshrjáðu svæði sem athygli umheimsins beinist helst að í hvert skipti fyrir sig. Með það fyrir augum skal því engan undra að í byrjun árs 2003 hafi hún verið búin að koma sér fyrir í Bagdad, höfuðborg Íraks, til þess að fylgjast með yfirvofandi innrás Bandaríkjamanna og Breta í landið.

Hún dvaldist í borginni í 101 dag og náði dvölin yfir tímann frá aðdraganda innrásarinnar til eftirmála hennar. Afrakstur dvalarinnar var fjöldi blaðagreina og beinna útsendinga fyrir ýmsa fjölmiðla, einkum á Norðurlöndum, og svo bókin Hundrað og einn dagur. Bókin kom út á norsku aðeins nokkrum mánuðum eftir dvöl hennar í Írak og skömmu síðar einnig á dönsku og sænsku. Lesendur brugðust spenntir við og bókin var þaulsetin á metsölulistum allra landanna þriggja á upphafsmánuðum þessa árs.

Sjálfur var ég ekki síður spenntur en hinir fjölmörgu skandinavísku lesendur sem tryggt höfðu bókinni sess á metsölulistunum. Ég tók mér því sænska þýðingu bókarinnar í hönd og ól þá von í brjósti að höfundur myndi í þessari nýju bók sinni fylgja eftir þeim ágætu vonum sem Bóksalinn í Kabúl gaf. Einkum er þar átt við um hæfni hans til þess að varpa nýstárlegu en jafnframt skýru ljósi á samfélagsgerð og viðhorf á stað sem öll spjót heimsins standa á en fáir leggja sig fram við að reyna að skilja.

Það verður að segjast eins og er að við lestur Hundrað og eins dags urðu þessar vonir mínar að vonbrigðum. Í Hundrað og einum degi er Åsne langt frá sínu besta. Í stað snjallrar og frumlegrar nálgunar og lifandi frásagnarinnar í Bóksalanum frá Kabúl er hér komin fremur flöt og langdregin frásögn. Bókin fjallar fremur um blaðamann í árangurslausri leit að stríði en stríðið sjálft.

Hún gefur vissulega raunsæja mynd af aðstæðum sem sú öfugsnúnu staðreynd leiðir af sér að fréttaritarar á átakasvæðum vita oft minna um framvindu mála en þeir sem heima sitja og fylgjast með, heyra kannski bara sprengjudrunur fyrir utan herbergisgluggann sinn meðan áhorfendur fá allar loftmyndir, líkön, viðtöl og útskýringar sendar beint heim í stofu. Hins vegar er slík árangurslaus leit stríðsfréttaritara að stórfréttum, eðli málsins samkvæmt, ekki sérlega áhugaverð uppistaða í heila bók.

Vitanlega tekst Åsne Seierstad við og við að varpa skýru ljósi á ástandið í Írak fyrir, á meðan og eftir innrás Bandaríkjamanna og Breta. Lýsingar hennar á örlögum hinna almennu borgara sem verða stríðinu að bráð eru til að mynda oft æði átakanlegar. Nefna má sem dæmi heimsókn hennar í eitt líkhúsa borgarinnar í kjölfar loftárásar þar sem foreldrar standa yfir sundursprengdum líkömum barna sinna, frá sér numdir af sorg.

Þar er brugðið upp hryllilegum birtingarmyndum af afleiðingum stríðs. Afleiðingum sem verða jafnvel enn skelfilegri þegar í ljós kemur að þessum verstu atburðum er haldið frá sjónvarpsáhorfendum og lesendum dagblaða - og vitanlega líka frá stjórnmálamönnunum og hershöfðingjunum. Þær þykja of hroðalegar fyrir þá að horfa upp og gangast við.

En niðurstaðan er engu að síður að Åsne hefði fremur átt að láta við blaðaskrifin og beinu útsendingarnar sitja í þetta skiptið. Bókin bætir sáralitlu við það sem þegar var á allra vitorði og gefur alltof sjaldan nýstárlega og áhugaverða innsýn inn í baksvið átakanna. Bóksalinn í Kabúl sýndi þó, svo að ekki varð um villst, að það býr mikið í Åsne Seierstad.

Og þó að vonir manns standi ávallt til þess að það verði ekki fleiri átök og styrjaldir fyrir hana að skrifa um þá sýnir reynslan því miður annað. Þá verður Åsne vafalaust mætt á staðinn, ef lesendur hennar þekkja hana rétt, og þá hefur hún tækifæri til að bæta sig - til dæmis með því að liggja örlítið lengur en fáeinar vikur yfir ferðasögunni áður en hún er send til útgefanda, jafnvel þó að vænn tékki og visst sæti á metsölulistum bíði ef hún skilar inn strax.

Sigurður Ólafsson, nóvember 2004.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

"Þú sagðir vonandi ekkert slæmt" segir amma í hvert sinn sem ég nefni að ég hafi fjallað um bók. Neinei, svara ég, ég sagði ekkert slæmt. Stundum krosslegg ég fingurna, það verður að hlífa gamla fólkinu. ...
Nafn norsku blaðakonunnar Åsne Seierstad ætti að vera íslenskum lesendum í fersku minni eftir að þýðing á bók hennar um Bóksalann í Kabúl kom út hér á landi fyrir síðustu jól. Þar sagði frá dvöl höfundar meðal afganskrar fjölskyldu eftir fall talíbanastjórnarinnar þar í landi. ...
Buddha | 07.04.2010
Japanska myndasagan á sér heilmikla og merkilega sögu sem ástæða er til að gefa gaum nú þegar þetta sérstæða myndmálsform hefur náð mikilli útbreiðslu á vesturlöndum. ...
Það er einhver skemmtilega ævintýraleg stemning yfir sögu Nicolu Barker, Fimm mílur frá Ytri-Von. Reyndar minnir andrúmsloftið dálítið á aðrar Neon bækur bókaútgáfunnar Bjarts, eins og söguna af kínversku saumastúlkunni og belgíska ritaranum í Japan ...
Undanfarið hefur hér á Borgarbókasafninu borið mikið á evrópskum myndasögum sem gefnar eru undir merkjum SAF Comics (SAF stendur fyrir Strip Art Features). ...
Fyrir dálitlu síðan tapaði ég mér gersamlega í myndasögunni Cinderalla (Viz, 2002) eftir japanska höfundinn Junko Mizuno. Sagan er einskonar hrollvekju-erótísk útgáfa af öskubuskuævintýrinu ...
Don Kíkóti | 07.04.2010
Gjarnan er sagt að með Kíkóta hafi nútímaskáldsagan fæðst. Hún fjallaði allavega fyrst um skáldskapinn sjálfan og ímyndunaraflið þarna. ...
Superman: Red Son | 07.04.2010
Ofurhetjur myndasagnanna hafa löngum verið vinsælar og eru ofurhetjusögurnar sú tegund formsins sem er hvað sýnilegust og almennust. Ofurhetjan er al-amerísk framleiðsla, sprottin upp úr amerísku samfélagi og hugsunarhætti og er erfitt að ímynda sér að hún hefði fæðst annarsstaðar. ...
The Iron Wagon | 07.04.2010
Norski myndasöguhöfundurinn Jason (duln.) heldur áfram sigurgöngu sinni utan Norðurlanda, en nú hefur þriðja bók hans, The Iron Wagon (Jernvognen) verið þýdd á ensku. ...
Sagan hefst á Mars. Þar búa nokkrir þjóðflokkar, og meðal þeirra tveir jarðarbúar, annar þeirra heitir Gullivar... Stríð er yfirvofandi og svo virðist sem flestar þjóðirnar hafi bundist samtökum gegn einni sem þykir sérlega varhugaverð. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál