Hreindýr og níhílismi

Ígull eftir Kristian Guttesen.
Níhil obstat eftir Eirík Örn Norðdahl.

Hreindýr og níhílismi

"Þú sagðir vonandi ekkert slæmt" segir amma í hvert sinn sem ég nefni að ég hafi fjallað um bók.
Neinei, svara ég, ég sagði ekkert slæmt. Stundum krosslegg ég fingurna, það verður að hlífa gamla fólkinu. Í orðum ömmu birtist klárlega ákveðið viðhorf til bókmenntagagnrýni, en það er sú ''hefð'' í íslenskri bókmenntarýni að tala helst alltaf frekar á jákvæðu nótunum. Þessi krafa er undirliggjandi og mótar mjög orðræðu gagnrýni hér á landi – og þetta viðhorf hefur verið gagnrýnt harðlega, bæði af gagnrýnendum, lesendum og rithöfundum, sem kvarta yfir að gagnrýnendur séu alltaf of ákvæðir og að þannig sé stór hluti bókmenntagagnrýni ekki til neins gagns, hvorki fyrir lesendur né höfunda (hér blandast inní málið sú undarlega hugmynd að gagnrýnandinn sé að tala til höfunda, standi jafnvel í einskonar uppalandahlutverki gagnvart þeim, en sú er alls ekki raunin, hlutverk gagnrýnenda er fyrst og fremst að tala til lesenda.) Því er það alltaf erfitt að taka upp bækur eftir unga og/eða nýja höfunda, því vissulega hlýtur gagnrýnandi að fagna því að fram á ritvöllinn geysist nýtt fólk, en á hinn bóginn er óttalega þreytandi fyrir alla aðila þegar umræðan um nýjar bækur er öll á einn veginn: Já, þetta lofar góðu. Svo þegar ég las bækur þeirra Kristians Guttesen og Eiríks Arnar Norðdhal, Ígul og Nihil Obstat þá ákvað ég að reyna að forðast fyrrnefnda hefð og leggja silkihanskana á hilluna.

Í stuttu máli eru þessar bækur báðar ansi misjafnar að gæðum, á stundum bera klisjurnar höfundana ofurliði, en á stundum hefja þeir sig upp yfir þær. Þó ætla ég mér ekki að setja þá Kristian Guttesen og Eirík Örn Norðdhal undir sama hatt, til þess eru ljóð þeirra of ólík, en vissulega deila þeir með sér því sameiginlega einkenni ungra skálda að vera mikið niðri fyrir – enda eins gott, óttalega væri þetta leiðinlegt ef öllum væri sama.

Ígull Kristians Guttesen (Deus, 2003) er á fremur kunnuglegum ljóðslóðum, ljóð hans eru almennt fáorð og kyrrlát og þar skiptast á prósar, leikur með hefðbundin form og svo formleysan, sem nú er auðvitað orðin hefðbundin líka. Það er ákveðinn rómantískur andblær yfir bókinni, sem á stundum verður of upphafinn, en þó stingur sér niður húmor eins og í ljóðstefinu um hreindýrið sem var keyrt niður
og ljóðinu um bókabúðaheimsóknina. Einnig eru þarna minningarstef úr bernsku og raunsæjar hversdagsmyndir úr samtímanum, en þau ljóð eru mörg vel heppnuð og í heildina sterkari en þau ljóð sem sækja meira til einskonar súrrelisma, en þau líða nokkuð fyrir tilgerð.

Bók Eiríks Arnar, Nihil Obstat (Nýhil, 2003), er gerólík í yfirbragði og stíl, en þar birtist okkur offlæðið í öllu sínu veldi, orðaleikir og læti. Nihil Obstat er einfaldlega mun hávaðasamari en Ígull, enda gengur þar á með pólitík og kynlífi. Þó er ekki endilega allt fengið með hávaðanum, því á stundum verður ferðin óttalega þreytandi og gagnrýnandi getur ekki annað en hugleitt hvort ekki hefði verið betra fyrir alla ef einhver hefði komist í þetta með skæri – eins og reyndar höfundurinn gerir í lokin í eigin ljóði sem hann klippir sundur og saman, svona að hætti Jeff Noon í Cobralingus. Líkt og Kristian skrifar
Eiríkur heilmikið um skáldskapinn og nefnir sína áhrifavalda (meðal annars Burroughs og Dag) og leggur mikla áherslu á eigin kaldhæðni. En þrátt fyrir allt, líkt og Kristian nær að fanga athyglina með einföldum myndum nær Eiríkur að grípa með öllum látunum, það er einhver keyrsla þarna sem ekki er annað hægt en að fylgja eftir.

Úlfhildur Dagsdóttir, september 2004


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál