Fiskar hafa enga rödd

Vilborg Dagbjartsdóttir.

JPV útgáfa, 2004

Æpandi fiskar

Það þarf ekki að hafa mörg orð um Vilborgu Dagbjartsdóttur og stöðu hennar í íslensku bókmennta- og menningarlífi. Fyrir utan að sinna skáldskap og börnum, þá hefur Vilborg verið virk í íslenskri jafnréttisbaráttu og sér þess víða merki í ljóðum hennar. Svo er enn hér í þessari nýju ljóðabók, Fiskar hafa enga rödd. Vilborg hefur aldrei verið kona magnsins, en bætir það upp með gæðum, sem fyrr eru ljóðin fá – en ekki endilega fáorð eða fámál, ekki frekar en fiskarnir eru raddlausir. Mér finnst því næstum helgispjöll að ætla að fara að skrifa einhverja heillanga romsu um þessi ljóð, en brenn þó í skinni – því líkt og Vilborgu liggur mikið á hjarta í ljóðum sínum, liggur mér mikið á hjarta um ljóð hennar.

Ég nefndi jafnréttisbaráttu: byrjum á því ljóði, "Morgunsöngur útivinnandi húsmóður" sem ber undirtitilinn "(Gömul tugga)". Strax í titlinum er tónninn settur, þetta er hið daglega líf húsmóðurinnar, hennar veruleiki, en óttalega er hann samt orðinn gömul tugga, bæði því hún hefur tuggið hann svo oft, og svo vegna þess að hlutskipti húsmóðurinnar í jafnréttisbaráttu er orðin svo gömul tugga. Og hvernig er svo ljóðið? Tugga að sjálfsögðu, endurtekningar á hinu smæsta, klukkan fimm kemur hún honum á fætur, því "Hann þarf að vera kominn á flugvöll" og "réttir honum skyrtu / réttir honum sokka / réttir honum / réttir", endurtekningin feidar út og það sama á við klukkan sjö þegar sonurinn er vakinn í skólann og klukkan átta þegar barninu er komið í leikskólann, og við finnum þreytuna heltaka okkur. Klukkan níu á hún sjálf að vera komin í vinnuna, en "missir af strætó / missir af / missir" og yfirmaðurinn er hneykslaður: "Þetta kvenfólk / það hefur ekkert tímaskyn / það hefur ekkert / EKKERT". Og skyndilega erum við ekki lengur þreytt heldur reið! Bölvað kvabb alltaf í þessum köllum.

Þó þessi pólitíski tónn sé alls ekki allsráðandi birtist jafnréttisbaráttan líka í bernsku(minninga)ljóðunum, en slík hafa sett mark sitt á skáldskap Vilborgar frá upphafi, allt frá fyrstu ljóðabókinni 1960. Í þessum ljóðum er það konan sem er fyrir miðju, barnið fylgist með konunum í kringum sig, ömmu í ljóðinu "Klædd og komin á ról" sem hneigir sig í sólarátt, signir sig og sækir sér þannig "góðan daginn". Mömmu í ljóðinu "Nafngift" sem skýrir spánnýja gullna kusuna Sóleyju, og búðarstúlkunni og ástarævintýri hennar í ljóðinu "Te og brauð". Hið kvenlega birtist einnig í ljóðinu sem titill bókarinnar er sóttur í, "Reynsla", en það er prósaljóð sem lýsir því hvernig börnin veiddu síli og geymdu í bala. Nema balinn er líka notaður fyrir þvotta og einu sinni sleppir ljóðmælandi óavitandi litlu síli í sjóðheitt vatn; "silungurinn rak upp skerandi vein og flaut dauður með hvítann kviðinn upp úr vatninu." Lýsingin er svo sterk að skelfingin hríslast um mig þegar leikur barnsins breytist í þessa sorg yfir hinu örsmáa lífi.

Ekki er hægt að skiljast við ljóðabók Vilborgar án þess að nefna trúarlegu ljóðin, en þar er "Viðbótarsálmur (ónúmeraður)" í miklu uppáhaldi. Það fjallar um 51. Passíusálm Steins Steinars, sem hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér og hef ég leikið mér svo mikið með texta hans að ég hélt að ég gæti nú varla fengið á hann nýja sýn. En Vilborg, hún rúllar þessu upp: "Ég er ljóskan úr 51. Passíusálmi. / Þessi með sægrænu augun." Hún hafði verið að flækjast með vini sínum á einhverri samkomu, en löggan kom og "tók aðalmanninn fastan". Vinurinn fer að blanda sér í málið en er strípaður og þorir ekki út og því er það stúlkan sem fer "á staðinn", veit ekki hvað hún á að gera: "Spurði bara eins og asni!" Hér er bæði verið að stríða Steinari svoldið – einfeldningslega ljóskan, er hún ekki klisja? og svo gefa þessu kunnuga ljóði alveg nýja vídd. Þetta minnti mig svolítið á átök Vilborgar við Óðinn í ljóðinu "Draumur", en þar tókust einmitt á karlleg og kvenleg hefð í skáldskap.

En nú læt ég staðar numið. Mig langar voðalega til að halda áfram, bera bók Vilborgar saman við bók Baldurs Óskarssonar og velta fyrir mér þeirra ólíku nálgunarleiðum, hún með sín fáu og fægðu ljóð, hann allur í magninu, og báðar aðferðir virka svo vel – hvernig hefðu bækurnar orðið ef þetta hefði snúist við? Og skoða líka hvernig þau taka á ólíkan hátt á svipuðum temum og á svipaðan hátt á ólíkum temum. Bæði enda bækur sínar á þýðingum, og í báðum tilfellum þarf að varast að lesa þýðingarnar strax á eftir frumsömdu ljóðunum. Í lok raddlausu fiskanna birtast þrjú ljóð eftir Sylvíu Plath í afbragðsþýðingu Vilborgar, en þau eru svo ólík í stíl og efni að ég get ekki annað en varað lesendur við að lesa þau í beinu framhaldi. Lesið bókina því í tveimur hlutum, njótið kyrrlátra ljóða Vilborgar í rólegheitum, takið góða pásu, og rennið ykkur svo í ískrandi orðgnótt Sylvíu.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2004


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál