Tvisvar á ævinni

Ágúst Borgþór Sverrisson.

Skrudda, 2004

Úr sambandi

Ágúst Borgþór er einn af fáum íslenskum samtímahöfundum sem hefur einbeitt sér að smásagnaforminu, en Tvisvar á ævinni er fimmta safnið sem hann sendir frá sér. Í safninu eru níu ótengdar sögur, en þær eiga það þó flestar sameiginlegt að þar er fjallað um karla sem eru allir heldur illa á vegi staddir í sálarlífinu. Ástæðan fyrir vanlíðan þeirra er af ýmsum toga: atvinnumissir, óvissa um samband við eiginkonur eða kærustur, eða hvert stefna skuli í lífinu, einn er reiður og að því er virðist ofbeldishneigður heimilisfaðir sem hefur allt á hornum sínum en það sem margir þeirra eiga sameiginlegt er að þeir geta ekki eða eru á einhvern hátt vanhæfir til að setja sig í samband við fólkið í kringum sig, konurnar sínar, kærustur, börnin sín. Ef þeir hafa náð slíku sambandi missa þeir það útúr höndunum á sér án þess að sporna við á nokkurn þann hátt sem gæti sýnst bera árangur, þeir fljóta áfram hálf sofandi og gera fæstir nokkuð afdrifarikt í sínum málum. Þetta eru einmana sálir og margir brjóstumkennanlegir, en flestir hálfgerðar dulur sem lesandann langar stundum til að hrista ærlega til. Í tveimur sögum eru stúlkur hins vegar í aðalhlutverki, "Sú sem er ekki hér" segir frá ungri stúlku sem fær póstkort sem hún kannast ekki við og leit hennar að viðtakandanum og í "Afmælisgjöfinni" er barnung stelpa í aðalhlutverki en upphafið á þeirri sögu, sem er nokkurs konar formáli sögunnar, er sérstaklega áhrifamikið. Líkt og karlarnir eru stúlkurnar einmana og utangátta en í síðarnefndu sögunni birtir þó yfir í lokin. Börn og samband þeirra við fullorðna, eða sambandsleysi í flestum tilfellum, er annað þema sem finna má í mörgum sögunum; margar söguhetjurnar hafa misst feður sína í eiginlegum eða óeiginlegum skilningi og endurlit til æskunnar kemur fyrir í mörgum þeirra.

Í sögunum sem ramma bókina inn, "Mjólk til spillis" og "Sjoppa í Vesturbænum", er slíkt endurlit í forgrunni, en í báðum er rifjaður upp liðinn tími sem kristallast í annars vegar horfinni mjólkurbúð (sem hefur verið breytt í íbúð) og kjörbúð sem nú er orðin sjoppa og vídeóleiga. Það eru þó ekki búðirnar eða húsin í sjálfu sér eða hinn horfni heimur, sem sögurnar snúast um, heldur tilteknir atburðir í fortíð og nútíð persónanna sem tengjast þessum stöðum og þau tengsl fortíðar og nútíðar sem eru til umfjöllunar í flestum sögunum í safninu eins og titill bókarinnar getur vísað til.

Í sögunni "Sú sem er ekki hér" veltir stúlkan þessum tengslum fyrir sér "[…] inn í hugann þrengdi sér hugsun um framtíðina, óljós í fyrstu en síðan merkilega skýr. Það voru ekki vangaveltur um hennar eigin framtíð, um það sem var framundan, ekki snefill af slíku, heldur það hvernig framtíðin væri í eðli sínu, alltaf ófyrirsjáanleg en samt svo rökrétt þegar hún var orðin að nútíð og manni fannst að allir hlytu að hafa séð hana fyrir." (47)

Slík "orsakatengsl" liggja í loftinu í mörgum sögunum, fortíðin vitjar sögupersónanna, stundum á óræðan og dularfullan, eða allt að því yfirnáttúrulegan hátt, líkt og í fyrstu sögunni eða á írónískan og kaldhæðinn eins og sögunni um bræðurna tvo, "Sektarskipti" þar sem hlutverkum eða hlutskipti bræðranna er snúið við á skondinn hátt.

Það eru margir athyglisverðir þræðir í þessum sögum, hér er skyggnst inn í líf fólks án þess að mál séu endilega leidd til lykta, þetta eru svipmyndir af fólki og aðstæðum þess. Sögurnar náðu þó ekki nógu góðu sambandi við þennan lesanda, ég verð að lýsa mig sammála Steinunni Ingu Óttarsdóttur sem segir í ritdómi í Morgunblaðinu að það vanti í þær neista – en þetta er raunar tilvitnun í eina þeirra. Það er þó ekki svo að textarnir nái hvergi að hreyfa við lesandanum, en það er of mikið af ofskýringum og að mínu mati er söguhöfundur oft of plássfrekur og útskýringaglaður. Of oft er hnykkt á því sem þegar er búið að gefa í skyn með því beinlínis að orða hugsunina eða tilfinninguna sem búið að skapa hjá lesandanum en þetta fletur textann út og gerir hann óþarflega bragðdaufan.

Kristín Viðarsdóttir, desember 2004


Til baka



Senda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Söguna um manninn sem segir svo kraftmiklar sögur að lamaðir fá mátt en hlýtur ekkert nema vanþakklæti að launum mætti alveg túlka sem lykilsögu eða jafnvel táknsögu. Það verður þó ekki gert hér. ...
Það er oft talað um að mannkynssagan sé saga karla - ‘his-story’ á ástkæru ylhýru enskunni - og um leið og sagan er karla er hún saga yfirvalda og yfirráða. ...
Hugsjónadruslan | 06.05.2010
Gömul laglína úr Bubbalagi hljómaði í hausnum á mér þegar ég lagði frá mér skáldsögu Eiríks Arnars Norðdahls, Hugsjónadruslan. ...
Flóttinn | 06.05.2010
Það er áhugavert að bera sögulegu skáldsöguna Flóttann, eftir Sindra Freysson saman við glæpasögu Arnaldar Indriðasonar, Kleifarvatn. ...
Eftir skjálftann | 06.05.2010
Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami segist vera skáldsagnahöfundur. Hann segir að ef skáldsögurnar hans yrðu dregnar frá honum þá væri ekkert eftir. ...
Bókmenntalegar spennusögur ku vera ægilega vinsælar um þessar mundir. ...
Umrætt skáld er Edgar Allan Poe. Morðinginn í glæpasögunni Skáldið (Mál og menning, 2004) eftir Michael Connelly lætur fórnarlömb sín skrifa tilvitnanir úr ljóðum hans sem kveðjubréf, en morðin eru dulbúin sem sjálfsmorð. ...
Það er þetta með myndir og orð. Hvort er merkilegra og hvort skiptir meira máli? Er fallega myndskreytt bók, með slarkfærum texta endilega síðri en flottur texti með flötum myndum? ...
dýra líf | 06.05.2010
Það var ekki laust við það að ég kæmist í jólaskap við að lesa ljóðabók Geirlaugs Magnússonar, dýra líf. ...
Tvisvar á ævinni | 06.05.2010
Ágúst Borgþór er einn af fáum íslenskum samtímahöfundum sem hefur einbeitt sér að smásagnaforminu, en Tvisvar á ævinni er fimmta safnið sem hann sendir frá sér. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál