Skáld með köldu blóði

Skáldið eftir Michael Connelly. Brynhildur Björnsdóttir þýddi.
Með köldu blóði eftir Ian Rankin. Anna María Hilmarsdóttir.

Skáld með köldu blóði

Umrætt skáld er Edgar Allan Poe. Morðinginn í glæpasögunni Skáldið (Mál og menning, 2004) eftir Michael Connelly lætur fórnarlömb sín skrifa tilvitnanir úr ljóðum hans sem kveðjubréf, en morðin eru dulbúin sem sjálfsmorð. Nokkuð smart og greinilegt að höfundurinn er mjög ánægður með þennan bókmenntalega vínkil sinn, enda bókmenntalegar glæpasögur hott stöff um þessar mundir. Skáldið er þó ekki sérlega hott stöff bók verður að viðurkennast. Þó hún sé ágætlega læsileg, plottið hæfilega flókið og lausnin hæfilega óvænt, þá er eitthvað sem vantar uppá að þetta sé verulegur gæðagripur. Eftir mikla umhugsun hef ég komist að því að vandamálið liggi hjá aðalpersónunni og sögumanni, Jack McEvoy, en hann er blaðamaður og tvíburabróðir eins fórnarlambsins. Sá er lögga og ég gat ekki annað en velt fyrir mér hvort hér væri á ferðinni annað sniðugt bókmenntalegt trikk, að stilla rannsóknarlögreglumanni upp við hlið rannsóknarblaðamanns með tilvísun í að innan glæpasögunnar séu þetta einskonar tvíburastéttir. Gott ef það er ekki vísað til þess á einum stað í bókinni að blaðamaðurinn búi yfir miklum rannsóknarhæfileikum rétt eins og bróðirinn heitinn. Ekki svo að skilja að það hafi þurft að stafa það, því sagan hefst einmitt á því að Jack uppgötvar að bróðir hans framdi ekki sjálfsmorð, heldur var myrtur og í kjölfarið skoðar hann fleiri sjálfsmorð lögreglumanna og finnur út að þeir hafi líka verið myrtir. Allt áður en löggan kemst í spilið, en áður en af veit er Jack flæktur í FBI rannsókn á þessum málum öllum, en álitið er að hér sé raðmorðingi á ferli sem fremji morð til að lokka klárar löggur á staðinn, sem hann síðan drepur og lætur svo líta svo út að þeir hafi fargað sér sökum áhyggna af morðmálinu.

Í rannsóknarliðinu er að sjálfsögðu ein glæsileg blondína, Rachel, og fljótlega verður andrúmslofið milli hennar og Jacks þrungið kynferðislegri spennu. Ég held það hafi verið þar sem ég missti tökin á Skáldinu, tilgerðarlega frjálsleg umræða í bandarískum bókum og kvikmyndum um ''kynferðislega spennu'' skapar ævinlega hjá mér víðtækan kynkulda. Eftir því sem samband þeirra Rachelar og Jacks þróaðist fór ég að átta mig betur á því hvað það væri sem vantaði uppá að þessi persóna gæti haldið uppi heilli bók. Saga hans, erfið samskipti við bróðurinn og foreldrana, dramað með dauða systurinnar og fórn bróðurins, allt fær þetta óttalega eitthvað mikla skemmri skírn, sem er bagalegt þegar kemur að síðasta hlutanum þarsem verulega reynir á persónuleika mannsins.

Það var hinsvegar öllu skemmtilegra að lesa um samskipti þeirra Siobhan og Rebusar í Með köldu blóði (Skrudda, 2004) Ian Rankins. Kannski af því að þarna er á ferðinni kunnuglegur norrænn klaufagangur í samskiptum kynjanna, þarsem enginn er nokkurntíma alveg viss um hvort eitthvað sé í gangi – kynferðisleg spenna er hvergi nefnd á nafn, en þó kraumar hún víða. Í upphafi bókarinnar situr Siobhan yfir Rebusi á sjúkrahúsi. Hann er með brunasár á báðum höndum og hún óttast að það standi í sambandi við dauða manns sem hefur ofsótt hana um nokkurt skeið, en sá brann einmitt inni, sama kvöld og hendur Rebusar brunnu. Samskipti þeirra vinnufélaganna og vinanna, kvennabósans Rebusar og hinnar duglegu og vammlausu Siobhan, taka því hér á sig nokkuð skemmtilegan blæ, þarsem hana grunar að hann hafi gengið of langt við að vernda sig, og hann veit að hún heldur það, en hvorugt segir nokkurntíma neitt – þetta eru jú Skotar! Líklega sú þjóð sem kemst næst Íslendingum í tjáskiptafötlun. Rebus – og Siobhan sem ökumaður hans og honum almennt handalausum til aðstoðar – eru síðan kölluð á vettvang tvöfalds morðs og sjálfsmorðs í skóla í úthverfi Edinborgar, en sá sem skaut skólapiltana og síðan sjálfan sig er fyrrum sérsveitarmaður í hernum. Rebus hafði einmitt eitt sinn sótt um slíkt starf og því er talin þörf á hans sérþekkingu og innsýn.
Núnú, svo hefst rannsóknin með tilheyrandi barferðum og flækjufótum hingað og þangað, og jafnframt kraumar í brunamálinu.
Þeir sem þekkja fyrri skrif Rankins geta glaðst yfir að hitta hér gamla félaga og þeir sem hafa aldrei lesið hann áður geta glaðst yfir að hitta þær fjölmörgu áhugaverðu persónur sem hann teiknar upp í fáum en öruggum dráttum. Ég var orðin óttalega leið á Rebusi sjálf, og þreytt á eilífri baráttu hans við skipulagða glæpi sem mér finnst almennt ekki sérlega skemmtilegt viðfangsefni í spennusögum og myndum, en hér er Rankin aftur kominn í form, með alvöru smart gátu og skipulögðu glæpastarfssemina þarsem hún á heima í heimi skáldskaparins, á hliðarlínunni.

Báðar eru bækurnar ágætlega þýddar af þeim Brynhildi Björnsdóttur og Önnu Maríu Hilmarsdóttur, en þó hefði að ósekju mátt fara eina umferð enn með naglaþjöl, báðir textarnir líða á stundum fyrir stirðlegar samræður, sem er sérlega óheppilegt fyrir spennusögur sem eiga að líða hnökralaust og hratt áfram, án þess að lesandi hrökkvi upp af innlifuninni og sé í huganum farinn að umorða setningar í stað þess að hugsa með sér: aha, hann er eitthvað skuggalegur þessi bryti!
Útgefendum ekki síður en þýðendum ber að vanda jafnmikið til yfirlestra á þýðingum á afþreyingarefni og fagurbókmenntum, texti og tungumál skipta jafnmiklu máli fyrir framvindu hins lága og háa.

Úlfhildur Dagsdóttir, janúar 2005


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Söguna um manninn sem segir svo kraftmiklar sögur að lamaðir fá mátt en hlýtur ekkert nema vanþakklæti að launum mætti alveg túlka sem lykilsögu eða jafnvel táknsögu. Það verður þó ekki gert hér. ...
Það er oft talað um að mannkynssagan sé saga karla - ‘his-story’ á ástkæru ylhýru enskunni - og um leið og sagan er karla er hún saga yfirvalda og yfirráða. ...
Hugsjónadruslan | 06.05.2010
Gömul laglína úr Bubbalagi hljómaði í hausnum á mér þegar ég lagði frá mér skáldsögu Eiríks Arnars Norðdahls, Hugsjónadruslan. ...
Flóttinn | 06.05.2010
Það er áhugavert að bera sögulegu skáldsöguna Flóttann, eftir Sindra Freysson saman við glæpasögu Arnaldar Indriðasonar, Kleifarvatn. ...
Eftir skjálftann | 06.05.2010
Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami segist vera skáldsagnahöfundur. Hann segir að ef skáldsögurnar hans yrðu dregnar frá honum þá væri ekkert eftir. ...
Bókmenntalegar spennusögur ku vera ægilega vinsælar um þessar mundir. ...
Umrætt skáld er Edgar Allan Poe. Morðinginn í glæpasögunni Skáldið (Mál og menning, 2004) eftir Michael Connelly lætur fórnarlömb sín skrifa tilvitnanir úr ljóðum hans sem kveðjubréf, en morðin eru dulbúin sem sjálfsmorð. ...
Það er þetta með myndir og orð. Hvort er merkilegra og hvort skiptir meira máli? Er fallega myndskreytt bók, með slarkfærum texta endilega síðri en flottur texti með flötum myndum? ...
dýra líf | 06.05.2010
Það var ekki laust við það að ég kæmist í jólaskap við að lesa ljóðabók Geirlaugs Magnússonar, dýra líf. ...
Tvisvar á ævinni | 06.05.2010
Ágúst Borgþór er einn af fáum íslenskum samtímahöfundum sem hefur einbeitt sér að smásagnaforminu, en Tvisvar á ævinni er fimmta safnið sem hann sendir frá sér. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál