Belladonnaskjalið og Danteklúbburinn

Belladonnaskjalið eftir Ian Caldwell. Magnea J. Matthíasdóttir þýddi.
Danteklúbburinn eftir Matthew Pearl. Árni Óskarsson þýddi.

Dulkóðanir og dýrmæti

Bókmenntalegar spennusögur ku vera ægilega vinsælar um þessar mundir. Hvað nákvæmlega er meint með orðasambandinu bókmenntaleg spennusaga er hinsvegar nokkuð óljóst, en bækur eins og Da Vinci lykillinn og Belladonnaskjalið (JPV útgáfa, 2004), svo dæmi séu tekið fjalla ekkert sérstaklega um bókmenntir, þó vissulega komi einskonar ráðning á texta og textalestur við sögu, né er hægt að líta svo á að þær séu betri öðrum glæpasögum að gæðum og teljist því til fagurbókmennta umfram, til dæmis, sögur Arnaldar Indriðasonar. Danteklúbburinn (Bjartur, 2004) er kannski sú saga sem helst getur gert tilkall til titilsins, en þar er fjallað um bókmenntir, Hinn guðdómlega gleðileik Dantes, og bókmenntamenn.

Belladonnaskjalið fjallar vissulega um bók, Hypnerotomachia, frá fimmtándu öld, sem ekki er vitað hver ritaði né til hvers og útá það gengur gátan. Lausnin felst þó ekki í því að finna hin raunverulegu bókmenntalegu gæði ritsins (enda mun það meingallað hvað varðar byggingu, stíl og efnistök), heldur að finna út hvaða sögu er raunverulega verið að segja, en það er einhver ógurlegur leyndardómur. Hinn söguþráðurinn tengist síðan öllu hversdagslegri atburðum, samkeppni fræðimanna um að ráða gátuna.
Lesandi kynnist fjórum ungum mönnum á lokaári í Princeton háskóla í Bandaríkunum, einn þeirra, bókmenntamaðurinn Paul, vinnur að rannsókn á bókinni, en vinur hans Tom, sem jafnframt er sögumaður, tengist verkinu á þann hátt að faðir hans eyddi ævinni í að reyna að ráða gátuna. Félagar þeirra eru Charlie, sem er læknanemi, og Gil, sem er að læra hagfræði. Tom er auðvitað bókmenntanemi eins og Paul.
Paul er að ljúka BA ritgerð um bókina og kemst að því að einhver virðist fylgjast með rannsókn hans, og í því deyr einn þeirra sem hefur unnið hvað mest með honum að rannsókninni. Inn í þetta morðmál fléttast svo ævisaga Tom og flækjur í einkalífi hans, en hann hefur þurft að velja milli þess að rannsaka bókina með Paul eða eyða tíma með kærustunni.

Í hreinskilni sagt fannst mér þetta afspyrnuvond bók. Lausnin á því hversu illa hún er heppnuð felst í samspili ýmissa þátta, textinn er óþjáll og þreytandi aflestrar, en ég hef ekki getað borið hann saman við frumtextann og veit því ekki hvort hér er um að kenna þýðingu sem ekki er nægilega vel unnin, eða hvort textinn sé til að byrja með slæmur. Í raun skiptir það ekki svo miklu máli, því plottið er svo óspennandi líka. Í fyrsta lagi fer það hægt af stað og í öðru lagi er það mannað svo óáhugaverðum persónum að engin leið er að finna til nokkurrar samkenndar með þeim og áhugamálum þeirra. Sérstaklega var einkalífsflækja sögumannsin Tom pínleg, því það er stöðugt verið að vísa til þess að bókin væri hjákona hans og ógn kærustunnar, þegar það er lýðum ljóst að ógnin er Paul og ''vináttan'' við hann. Í öllu þessu verður síðan sjálf bókin og lausnin útundan. Lausnin felst í könnun á endurreisnarheimspeki, en það fer lítið fyrir umfjöllun um slíka, og því fær lesandi ekki að taka nægilegan þátt í ráðningunni, sem dregur enn úr gleðinni af lestrinum.

Lestrargleðin var hinsvegar öllu meiri þegar kom að Danteklúbbnum. Nú verður að hafa þann fyrirvara á að ég var búin að heyra mikið látið af því hvað Belladonnaskjalið væri skemmtileg en Danteklúbburinn leiðinleg, og án efa mótast viðhorf mín til bókanna tveggja af þeim væntingum sem ég gerði til þeirra. Einnig vil ég taka fram að hér er ég ekki að blanda mér í ''stríð'' milli útgáfufyrirtækjanna um þessar og álíka bækur sem ku hafa farið fram fyrir jólin, og því til áhersluauka er best að hafa á hreinu að mér leiddist Da Vinci lykillinn frekar og dettur ekki til hugar að eyða tíma í Engla og djöfla.
Og vissulega er Danteklúbburinn heldur engin snilld, sem ''bókmenntaleg spennusaga'' er hún gölluð að ýmsu leyti, svona bókmenntalega séð. Til dæmis er lagt upp í byrjun með einhverja ormagátu, sem síðan er ekki unnið nógu markvisst úr, og tengist það annarri slakri úrvinnslu, en það er umræðan um borgarastríðið sem hefði þurft að gera betri skil, miðað við vægi þess innan sögunnar og vegna þessa var lausnin ekki nægilega áhrifamikil. En þrátt fyrir þetta fannst mér í heildina séð gaman að lesa þessa bók.

Sagan gerist árið 1865 í Boston, og yfir hvílir skuggi borgarastríðsins og pólitískra átaka um þrælahald og blökkufólk. Dómari nokkur finnst myrtur á mjög ógeðfelldan hátt, ormétinn mjög og nakinn. Fljótlega er presti stútað, sömuleiðis með sérlega ógeðfelldum hætti. Á sama tíma kynnumst við nokkrum bókmenntajöfrum, skáldunum Longfellow, Lowell og Holmes, útgefandanum Fields og sagnfræðingnum og prestinum Greene, en saman vinna þeir að útgáfu á þýðingu Longfellows á Hinum guðdómlega gleðileik Dantes. Dante vekur ekki lukku í háskólasamfélaginu – ekki nógu amrískur, of mikill splatter – og því eiga þeir félagar í nokkurri baráttu. Og fljótlega kemur í ljós að sú barátta er enn flóknari því morðin tvö og fleiri sem fylgja í kjölfarið eru greinilega framin með lýsingar Dantes á syndurum í helvíti í huga. Skáldin fara því að rannsaka málið í félagi við lögreglumanninn og blökkumanninn Rey, en staða hans innan lögreglunnar er ekki sem skyldi.
Þrátt fyrir ofantalda galla er Danteklúbburinn bara nokkuð skemmtilega samansett, kallarnir eru skemmtilega sjálfbirgingslegir og tónninn í textanum skemmtilegur, með hæfilegri íróníu í garð aðalhetjanna, án þess þó að gera nokkurntíma beint grín að þeim. Lýsingarnar á morðunum eru sömuleiðis flottar og blóðugar, og lesandi fær hæfilega mikla innsýn í heim Dantes til að geta fylgst vel með. Ég fæ ekki betur séð en að þýðing Árna Óskarssonar sé fimleg að vanda, þó fannst mér vanta uppá að tekið væri fram hvort þýðingar á Dante væru hans og þá aðeins um hvernig þær væru unnar.

Þess má geta í lokin að Belladonnaskjalið minnti mig heilmikið á kvikmyndina National Treasure með Nicholas Cage og Sean Bean í aðalhlutverkum, en þar er einnig verið að ráða í dulkóðuð skrif og leita uppi mikinn leyndardóm. Myndin er afar skemmtileg og ég mæli eindregið með henni.

Úlfhildur Dagsdóttir, febrúar 2005


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Söguna um manninn sem segir svo kraftmiklar sögur að lamaðir fá mátt en hlýtur ekkert nema vanþakklæti að launum mætti alveg túlka sem lykilsögu eða jafnvel táknsögu. Það verður þó ekki gert hér. ...
Það er oft talað um að mannkynssagan sé saga karla - ‘his-story’ á ástkæru ylhýru enskunni - og um leið og sagan er karla er hún saga yfirvalda og yfirráða. ...
Hugsjónadruslan | 06.05.2010
Gömul laglína úr Bubbalagi hljómaði í hausnum á mér þegar ég lagði frá mér skáldsögu Eiríks Arnars Norðdahls, Hugsjónadruslan. ...
Flóttinn | 06.05.2010
Það er áhugavert að bera sögulegu skáldsöguna Flóttann, eftir Sindra Freysson saman við glæpasögu Arnaldar Indriðasonar, Kleifarvatn. ...
Eftir skjálftann | 06.05.2010
Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami segist vera skáldsagnahöfundur. Hann segir að ef skáldsögurnar hans yrðu dregnar frá honum þá væri ekkert eftir. ...
Bókmenntalegar spennusögur ku vera ægilega vinsælar um þessar mundir. ...
Umrætt skáld er Edgar Allan Poe. Morðinginn í glæpasögunni Skáldið (Mál og menning, 2004) eftir Michael Connelly lætur fórnarlömb sín skrifa tilvitnanir úr ljóðum hans sem kveðjubréf, en morðin eru dulbúin sem sjálfsmorð. ...
Það er þetta með myndir og orð. Hvort er merkilegra og hvort skiptir meira máli? Er fallega myndskreytt bók, með slarkfærum texta endilega síðri en flottur texti með flötum myndum? ...
dýra líf | 06.05.2010
Það var ekki laust við það að ég kæmist í jólaskap við að lesa ljóðabók Geirlaugs Magnússonar, dýra líf. ...
Tvisvar á ævinni | 06.05.2010
Ágúst Borgþór er einn af fáum íslenskum samtímahöfundum sem hefur einbeitt sér að smásagnaforminu, en Tvisvar á ævinni er fimmta safnið sem hann sendir frá sér. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál