Karítas: án titils

Kristín Marja Baldursdóttir.

Mál og menning, 2004

Það er oft talað um að mannkynssagan sé saga karla - ‘his-story’ á ástkæru ylhýru enskunni - og um leið og sagan er karla er hún saga yfirvalda og yfirráða. Þannig birtir mannkynssagan einungis brot af sögunni, ákveðið sjónarhorn eða sýn á hana. Sem kemur þá væntanlega að ofan: ef ekki, þá er það í mesta lagi sýn hermannsins, ferðalangsins eða réttara sagt, landkönnuðarins og ævintýramannsins, sem fær að njóta sýn. Sem betur fer er langt síðan heimikill skurkur var gerður í að leiðrétta þessa sýn. ‘Minnihlutahópar’ eins og konur, fólk sem er ekki af hinum hvíta kynþætti, samkynhneigðir, og almennt þeir valdaminni, hafa gagnrýnt þessa tegund mannkynssögu og söguskoðunar. Dæmi um áhugaverð sagnfræðileg fyrirbæri sem hafa sprottið uppúr slíkri gagnrýni er einsagan, önnur dæmi, minna sagnfræðileg, en sem mér finnst ekki síður skemmtileg, er meðferð sögunnar í skáldskap og kvikmyndum, þarsem fært er í stílinn, logið og svikið - alveg eins og sagan var login og svikin fram að gagnrýni femínista.

Nú er ég búin að tala í mig hita um meðferð sögunnar í skáldskap og er því loks komin að efninu, sem er er söguleg skáldsaga Kristínar Marju Baldursdóttur, Karítas: án titils. Saga Kristínar er einmitt dæmi um sögu frá öðru sjónarhorni, þetta er kvennasaga sem segir í stuttu máli frá ekkju sem flytur til Akureyrar með sex börn, markmiðið er að mennta þau öll. Það tekst, eldri synirnir og eldri dæturnar komast öll í skóla, dæturnar þó sýnu síðar, en yngsta dóttirin, Karítas, verður eitthvað á eftir, enda hefur hún sýnt fádæma útsjónarsemi í því að sjá fjölskyldunni farborða á erfiðum tímum, en fyrri hluti sögunnar gerist um og uppúr fyrri heimsstyrjöld. (Seinna kemur í ljós að yngsti sonurinn fór líka í skóla.)
En Karítas er ekki öll þarsem hún er séð, hún býr yfir listakonuhæfileikum sem faðir hennar fóstraði með henni og er tekin í læri hjá listakonu - og frú - í bænum. Sú sendir hana til Kaupmannahafnar í nám, en þegar Karítas snýr aftur verður fljótlega ljóst að það að vera listakona á Íslandi á millistríðsárunum er ekkert spaug. Og viti menn, áður en af veit er hún orðin ástfangin af manni og ólétt eftir hann, og þau stofna heimili og til fleiri barna. Síðan hverfur maðurinn á brott, en hann er stórhugi mikill og ætlar sér mikla hluti.
Í þriðja hluta sögunnar er Karítas komin í vinnu á heimili í Öræfasveit með börn sín, þegar eiginmaðurinn snýr til baka eftir þrettán ára fjarveru.

Það er margt ágætlega gert í sögu Kristínar Marju, þetta er heilmikil söguleg rómansa, með svipmiklum og fríðum persónum, átökum og ástum. Hér eru það konurnar sem horfa yfir sviðið - nánar tiltekið þegar Karítas gengur með húsmóður sinni á jökulinn - og ævintýraferðir karlanna fá ekkert pláss, eiginmaður Karítas fær aldrei að segja sína sögu.
Þó er eins og eitthvað vanti til að sagan lifni verulega við, persónurnar eru einhvernveginn aðeins of svipmiklar og fríðar, ástin og átökin um of - því þó ég kalli söguna sögulega rómönsu er engann veginn ljóst hvort hún er hugsuð þannig, reyndar var ekki gott að átta sig á hvert þessi saga ætlaði sér eiginlega. Þetta kemur fram í stílnum sem er mestmegnis algerlega hefðbundinn stíll sögulegra skáldsagna, utan að reglulega birtast kaflar í öðrum, ljóðrænni stíl, sem eiga líklegast að vera teikningar Karítasar, því þeir bera yfirskriftina: Karítas: án titils, og svo blýantsteikning eða kolateikning eftir því hvað á við. Með þessu virðist þáttur listarinnar ítrekaður, en einhvernveginn myndast ekki nægilegt samspil eða flæði í söguna, og eins og áður sagði, þá er ekki alveg ljóst hverskonar stemningu þetta á að skapa, og því missa kaflar þessir marks.

Úlfhildur Dagsdóttir, maí 2005


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Söguna um manninn sem segir svo kraftmiklar sögur að lamaðir fá mátt en hlýtur ekkert nema vanþakklæti að launum mætti alveg túlka sem lykilsögu eða jafnvel táknsögu. Það verður þó ekki gert hér. ...
Það er oft talað um að mannkynssagan sé saga karla - ‘his-story’ á ástkæru ylhýru enskunni - og um leið og sagan er karla er hún saga yfirvalda og yfirráða. ...
Hugsjónadruslan | 06.05.2010
Gömul laglína úr Bubbalagi hljómaði í hausnum á mér þegar ég lagði frá mér skáldsögu Eiríks Arnars Norðdahls, Hugsjónadruslan. ...
Flóttinn | 06.05.2010
Það er áhugavert að bera sögulegu skáldsöguna Flóttann, eftir Sindra Freysson saman við glæpasögu Arnaldar Indriðasonar, Kleifarvatn. ...
Eftir skjálftann | 06.05.2010
Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami segist vera skáldsagnahöfundur. Hann segir að ef skáldsögurnar hans yrðu dregnar frá honum þá væri ekkert eftir. ...
Bókmenntalegar spennusögur ku vera ægilega vinsælar um þessar mundir. ...
Umrætt skáld er Edgar Allan Poe. Morðinginn í glæpasögunni Skáldið (Mál og menning, 2004) eftir Michael Connelly lætur fórnarlömb sín skrifa tilvitnanir úr ljóðum hans sem kveðjubréf, en morðin eru dulbúin sem sjálfsmorð. ...
Það er þetta með myndir og orð. Hvort er merkilegra og hvort skiptir meira máli? Er fallega myndskreytt bók, með slarkfærum texta endilega síðri en flottur texti með flötum myndum? ...
dýra líf | 06.05.2010
Það var ekki laust við það að ég kæmist í jólaskap við að lesa ljóðabók Geirlaugs Magnússonar, dýra líf. ...
Tvisvar á ævinni | 06.05.2010
Ágúst Borgþór er einn af fáum íslenskum samtímahöfundum sem hefur einbeitt sér að smásagnaforminu, en Tvisvar á ævinni er fimmta safnið sem hann sendir frá sér. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál