Fjórir þýddir reyfarar

Dexter í dimmum draumi eftir Jeff Lindsay. Karl Emil Gunnarsson þýddi.
Kjallarinn eftir Fred Vargas. Guðlaugur Bergmundsson þýddi.
Næturvaktin eftir Kirino Natsuo. Jón Hallur Stefánsson þýddi.
Zorró eftir Isabel Allende. Kolbrún Sveinsdóttir þýddi.

Reyfarar allra landa sameinist!

Þó rithöfundar, gagnrýnendur og bókaútgefendur séu orðnir dauðleiðir á fyrirbærinu ‘jólabókaflóð’ virðist ekki hægt að skola þessum óvætti á brott og því halda gallarnir sem fylgja ‘vertíð’ af þessu tagi áfram að gera vart við sig. Einn af þeim er tilhneygingin til að eyrnamerkja tiltekin ár (kannski gamall landbúnaðararfur?) hinum og þessum höfundum, bókum eða bókmenntagreinum. Sjálf er ég dauðsek um þetta í árlegum yfirlitsgreinum sem ég skrifa fyrir tímarit norrænu ráðherranefndarinnar Nordisk Tidskrift, enda óþægilega auðvelt að búa til flokka og leggja línur þegar svo mikið magn bóka er lesið í einum rykk. Það einfaldlega fer ekki hjá því, sérstaklega í hinu smáa íslenska samfélagi, að sjá mynstur myndast og því verður freistandi að leggja áherslur á það sem er sameiginlegt frekar en það sem skilur að.
Og eitt af því sem hefur yfirgnæft umræðuna um bókmenntir þessa vertíðina eru krimmar eða reyfarar, en í þessu flóði telst mér til að einir tíu íslenskir reyfarar hafi litið dagsins ljós - talan er dálítið mismunandi eftir því hver telur og hvernig. Um þetta hafa svo sprottið deilur og umræður, en um þær ætla ég ekki að fjalla hér og nú. Það sem ég ætla hinsvegar að fjalla um hér og nú eru erlendir reyfarar, þýddar bækur, en þær hafa alltaf verið fjölmargar á hverju ári án þess að nokkur álíti ástæðu til að gera mál úr því: í samfélagi sem á greinilega erfitt með að sætta sig við nærveru afþreyingarbókmennta (og nú á ég við bókmenntasamfélagið, ekki hina almennu lesönd), þá er það allt í læ þegar þær koma að utan, bara meðan það er á hreinu að þetta er útlensk afurð, í hæsta lagi nýbúi.
Flóðið flutti með sér mun fleiri en tíu þýdda reyfara, um einn þeirra, Við enda hringsins, hef ég þegar fjallað, en ætla hér að bæta einum fjórum við. Þeir eru Dexter í dimmum draumi (JPV útgáfa, 2005) eftir Jeff Lindsay, Kallarinn (Grámann, 2005) eftir Fred Vargas, Næturvaktin (Bjartur, 2005) eftir Kirino Natsuo og Zorró (Mál og menning, 2005) eftir Isabel Allende. Þessar fjórar sögur koma hver úr sínu heimshorninu, Dexter er hreinræktuð bandarísk afurð, Kallarinn er franskur, Næturvaktin japönsk og Zorró Suður-amerískur.

Dexter í dimmum draumi er við fyrstu sýn nokkuð sérstæð glæpasaga, því fljótlega kemur í ljós að einn af ‘góðu köllunum’, sjálfur blóðmeinafræðingur rannsóknarlögreglunnar, er sjálfur geðsjúkur morðingi. Bókin hefst á því að lesandinn er staddur í kunnuglegum aðdraganda að morði, sem síðan reynist bæði hrottalegt og blóðugt með afbrigðum. Nú mætti gera ráð fyrir að rannsókn hefjist, nema þar snúast síðurnar í höndum hins æfða lesanda, morðinginn er í rannsóknarteyminu og rannsóknin beinist ekki að hans morði, heldur allt öðru. Ójá og stuðið rétt að byrja, því á kreik er kominn morðingi sem greinilega veit of mikið um einkahætti blóðmeinafræðingsins Dexters.
Þannig fer af stað saga sem býður uppá skemmtilega lykkju á kunnuglega formúlu og blöndu af tveimur að auki, en hér er annarsvegar verið að snúa út úr hefðbundinni glæpasöguformúlu og hinsvegar er henni blandað saman við kunnuglega þræði úr gotneskju hrollvekjunni, en þar er landlæg þessi árátta að blanda persónu og æviatriðum rannsóknar-aðilans inní fléttuna. Hinsvegar má segja að þegar nánar er að gáð sé útúrsnúningurinn með að hafa morðingja sem aðal-rannsóknaraðila ekki endilega svo ‘frumlegur’ - sé fólk í leit að slíku - því í raun er hér aðeins verið að fara lengra með kunnuglegar vangaveltur úr raðmorðingjasögum þarsem lögreglumaður eða sálfræðingur setur sig í spor morðingjans og nær honum þannig. Þetta er algengt minni og gengur yfirleitt útá daður við að viðkomandi sé óþægilega skyldur glæpamanninum og nái jafnvel einskonar tengslum við hann.
Útgáfa Lindsay að þessum línum í landslagi bandarískra glæpasagna er bæði sjarmerandi og skemmtilega andstyggileg, hrollvekjublandan gerir einnig mikið fyrir söguna - slík hrollvekja er kunnugleg úr öðrum meinatæknasögum, en birtist hér í nýju formi - og allt er þetta létt og leikandi, höfundur tekur sig hæfilega alvarlega og tekst þannig að skapa sögu sem er allt í senn, skemmtileg og spennandi afþreying sem er bæði kunnugleg og kemur á óvart, auk þess að vera nokkuð umhugsunarverð.

Kallari Fred Vargas er hinsvegar allt önnur Ella, en við fyrstu sýn mætti ætla að hér væri verið að feta í fótspor Da Vinci lykilsins víðfræga. Nema bara, rétt eins og með norsku söguna Við enda hringsins, þá kom þessi út á undan Da Vinci lyklinum. En sumsé, Kallarinn er saga sem fléttar bókmenntatilvísunum og sögulegum leyndardómum inn í nútímalegt glæpaplott með afar góðum árangri. Hér er reyndar þessi flétta fortíðar og nútíma tekin alla leið, því hún hefst með sjálfum kallaranum, eða starfi hans, en það á rætur að rekja til fyrri alda fyrir tíma fjölmiðla þegar fréttamenn ferðuðust milli bæja og fluttu fréttir sínar munnlega á mannamótum, og héldu sér uppi á greiðslu fyrir tilkynningar af ýmsu tagi. Kallarinn okkar, sá sem bókin dregur nafn sitt af, er fyrrum sjómaður sem hefur lent í vandræðum og endar því á að reyna að sjá fyrir sér með því að taka upp starf langalangafa síns, sem einmitt var kallari. Og það er í gegnum kallarann sem fyrstu merki um yfirvofandi morð taka að berast, en meðal tilkynninga sem honum er borgað (nafnlaust) fyrir að flytja eru undarlegar brotakenndar setningar sem í ljós kemur að eru úr latneskum ritum sem lýsa plágunni, svarta dauða. Og svo fer fólk að deyja. Á sama tíma kvartar ung kona yfir sérstæðu veggjakroti við allóvenjulegan yfirrannsóknarlögreglumann, sem síðan leitar til nokkuð sérkennilegs sérfræðings í plágum, en sá sér fyrir sér með því að þrífa annarra manna hús. Auðvitað tengjast málin og óvanalegum persónum fjölgar - reyndar er varla venjulega manneskju að finna í allri bókinni. Það virkar hinsvegar aldrei þvingað, enda er lesandi varlega minntur á, tvisvar til þrisvar sinnum, að stundum einfaldlega hópist þannig fólk saman á afmörkuðum stöðum, til dæmis við torg kallarans.

Þó tónn Vargas sé ekki jafn léttúðugur og Lindsays er sagan þægilega laus við uppskrúfun og tilgerð, persónugalleríið er afar skemmtilegt, lýsingar á kallaranum, starfi hans og staðháttum, torginu hans sérstæða, lögreglumönnunum og rannsókninni sjálfri eru allar skrifaðar af lífi og áhuga og Vargas tekst sérlega vel að gæða þetta allt einhverri dulúð sem samt verður aldrei um of. Lausnin kemur ánægjulega á óvart og þó kallarinn sjálfur hverfi dálítið í skuggann í seinni hlutanum, þá gengur þetta alltsaman vel upp og vakti mikla hrifningu hjá litlum lúnum lesanda.

Næturvakt Kirino Natsuo er einnig eftir kvenhöfund, en bæði nöfnin villa á sér heimildir, Fred Vargas styttir nafn sitt þannig að ekki er ljóst í fyrstu hverskyns er og vanþekking á japönskum nöfnum getur gert kynjun Kirino flókna. Næturvaktin segir frá fjórum konum sem af ólíkum ástæðum vinna á næturvakt verksmiðju sem framleiðir tilbúna rétti. Ein þeirra, falleg ung kona, er óhamingjusamlega gift og eina nóttina myrðir hún eiginmann sinn, langþreytt á ofbeldi hans, framhjáhaldi og linnulausri peningaeyðslu, en hann hefur sóað öllu sparifé þeirra í fjárhættuspil og vændiskonu sem hann er heillaður af. Í skelfingu leitar eiginkonan eftir aðstoð vinkvenna sinna á næturvaktinni, en ein þeirra, Masako, er mikill harðjaxl. Hún ákveður strax að hjálpa ungu konunni, fer með lík eiginmannsins heim til sín og hlutar það í sundur inni á baðherberginu, bútarnir eru síðan settir í ruslapoka sem dreyft er um borgina. Ekki vill þó betur til en svo að einn búturinn finnst og þá hefst æsispennandi atburðarás, eigandi spilavítisins þarsem eiginmaðurinn hélt hvað mest til er ákærður fyrir glæpinn og ákveður að hefna sín á konunum sem komu honum í klípuna. Inní söguna blandast síðan ævisögur kvennanna fjögurra, saga spilavítiseigandans og fleiri skrautlegar persónur. Að auki gefur sagan áhrifamikla innsýn í japanskt samfélag, samskipti fólks, stéttaskiptingu og lífshætti, og þá sérstaklega að því leyti sem snýr að samskiptum kynjanna, en hlutskipti kvenna er augljóslega lykilatriði fyrir framgang sögunnar.

Næturvaktin er saga sem tekur sig grafalvarlega og stendur fyllilega undir því, lesturinn er ekki alltaf fallegur og tekur þó steininn úr í lokin, sem væru hreinleg óásættanleg ef þau væru skrifuð af karlmanni. Hryllingurinn er slíkur að amerískur splatter Dexters fölnar í samanburðinum, og kallast skemmtilega á við það sem er að gerast í kvikmyndaheiminum, en þar eru japanskar hrollvekjur ekki aðeins orðnar mjög vinsælar heldur einnig miklir áhrifavaldar á bandaríska framleiðslu. Að lokum er áhugavert að skoða hvernig klisjan um japansk samfélag - slétt og fágað á yfirborðinu, ólgandi undir niðri - birtist hér í sláandi ýktu formi, án þess þó nokkurntíma að virka klisjukennd, en aftur minnir þetta á leik Lindsay að klisjum í Dexter.

Isabel Allende er augljóslega langþekktasti höfundurinn af þessum fjórum og því mætti kannski vænta mest af henni. Þessar væntingar gera það mögulega að verkum að vonbrigðin með sögu hennar af ‘forsögu’ Zorrós verða enn meiri. Zorró: sagan á bak við goðsögnina, er minnst áhugaverð af þessum fjóru ólíku reyfurum. Það er einhvernveginn aldrei alveg ljóst hvert Allende er að fara með hina bókmenntalegu goðsögn um grímuklæddu hetjuna Zorró og bókin líður mjög fyrir það. Zorró Allende er sonur indíánakonu sem sjálf er hálfur Spánverji og höfundur gerir hvað hún getur til að gera þetta kvenlega afl að lykilatriði í þroskasögu hans. Þetta verður þó aldrei nægilega sterkt, svo mikið lykilatriði er karlmennskan í uppeldi drengsins: faðir hans, skipstjórinn sem flytur hann til náms á Barcelóna, skylmingameistarinn, og svo auðvitað indíánavinurinn Bernardo og siðir ættbálks hans. Þannig togast þessir tveir þættir stöðugt á: rómantíska hetjugoðsögnin um ævintýraljóma í Evrópu, hættuleg ferðalög, sígauna og sjóræningja, og svo móralska sagan um frumbyggja Ameríku og siði þeirra og illa meðferð landnema á þeim. Vissulega er sagan skemmtileg á köflum, við kynnumst foreldrum Zorrós, uppvexti hans, námsferð til Barcelóna og pólitískum deilum þar - en sagan gerist snemma á nítjándu öld, á tímum Napóleons - vonlausri ást unga mannsins til hinnar fögru en óáhugaverðu Juliönu og innvígslu hans í dularfullt leynifélag sem berst fyrir réttlæti; ævintýralegum flótta til Ameríku með tilheyrandi árás sjóræningja... og svo fyrstu afrekum Zorrós í heimalandi sínu. Ekki vantar hasarinn, glamúrinn og siðferðislega boðskapinn, en einhvernveginn verður þetta hreinlega þreytandi og gengur ekki nægilega vel upp.

Þessi lýsing á fjórum reyfurum ætti að nægja til þess að sýna fram á að afþreyingarbókmenntir eru ekki einsleitt fyrirbæri, heldur búa þær yfir fullt eins mikilli fjölbreytni og aðrar skáldsögur. Þessar bækur eru afar ólíkar, allar fylgja þær einhverskonar formúlum og allar vinna þær úr þeim á mismunandi hátt. Dexter og Kallarinn eru sögur sem halda sig vandlega innan sinna glæpasögumarka meðan Næturvaktin og Zorró reyna báðar á þanþol þeirra, Næturvaktin með afar góðum árangri, reyndar svo góðum að hún er saga sem á fullt eins vel heima meðal fagurbókmennta og reyfara, meðan móralíseringar og sagnfræðilegar úttektir á pólítískum átökum í Zorró ná ekki að lyfta sögunni á hærra plan, heldur skemma fyrir því sem hefði getað orðið rokkandi góð rómansa. Einnig standa sögurnar fyrir ólíkar nálganir á afþreyingarskáldskap, Dexter sver sig, eins og áður sagði, í bandaríska raðmorðingjasöguhefð, með tilheyrandi blóðugum lýsingum og innsýn í heim geðveiki - sem ávallt vísar á dulinn eða ljósan hátt til samfélagslegrar geðveiki, þ.e. geðsýki bandarísks risasamfélags. Kallarinn nýtir sér dramatísk atriði mannkynssögunnar og dularfullar bókmenntalegar tilvitnanir, auk sérviskulegra persóna, til að gæða raðmorðingjasögu nýju lífi. Næturvaktin dregur upp óhugnanlega mynd af samfélagi hlöðnu innri spennu sem brýst út í ótrúlega kaldranalegum lýsingum á ofbeldi, auk þess að skapa konum sterka og sérstæða stöðu mitt í heimi nútímaofbeldis og í Zorró er reyfaraformið notað til að koma á framfæri ádeilu á heimsvaldastefnu.

Allar eru sögurnar áhugaverð lesning hver á sinn hátt, allar bjóða þær uppá góða afþreyingu og allar eru jafnframt umhugsunarverðar, allt eftir því hvað lesandinn er tilbúinn til slíks. Það er helst Næturvaktin sem krefur lesandann til umhugsunar, ekki síst kvenlesanda, enda er hún eins og áður sagði, ekki aðeins langbesta skáldverkið af þessum fjórum heldur með betri nýjum skáldverkum sem þessi lesandi hefur komist yfir.

Að lokum: nokkur orð um þýðingar. Það hefur löngum verið vandamál að þýðingar og frágangur á afþreyingarbókmenntum hefur verið slakur, en bíómyndir og sjónvarpsefni erfðu síðan vandamálið. Í þessum fjórum tilfellum er þessi vandi þó ekki til staðar, sögurnar eru allar ágætlega þýddar og frágangur almennt góður. Þó get ég ekki orða bundist yfir því hvernig gengið er frá bókfræðilegum upplýsingum um Næturvaktina, þar er sagt að bókin heiti á frummálinu Out, en Out er enskt heiti sögunnar sem að sjálfsögðu heitir eitthvað allt annað á sínu japanska frummáli (þetta gerir það líka að verkum að rangt ár er á frumútgáfu, en það er gefið sem 2002, en er í raun 1997, auk þess sem eftir því sem ég kemst næst var bókin fyrst þýdd á ensku 2003). Þannig er einsog reynt sé að fela þá staðreynd að bókin er þýdd úr ensku, en ekki frummáli, en slíkt er engin skömm, skömmin felst aðeins í þessum blekkingarleik með frummál.

p.s. Eftir að þessi dómur birtist hefur útgefandi Næturvaktarinnar tjáð undirritaðri að bókin heiti í raun Out á frummálinu. Eftir stendur að hún kom upphaflega út á japönsku árið 1997.

Úlfhildur Dagsdóttir, janúar 2006


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Höfðaborg eftir Garðar Baldvinsson
Höfðaborg | 18.05.2010
Þrátt fyrir linnulaust tal um veika stöðu ljóðsins, lélega sölu á ljóðabókum og allt það, þá er alltaf heilmikill kraftur í íslenskri ljóðagerð. ...
Ljóðabálkur Pablo Neruda, Hæðir Machu Picchu, birtist fyrst árið 1950 og er löngu orðinn klassískur. Ljóðin hafa verið útgefin á ýmsum málum í fallegum myndskreyttum útgáfum og varla er sú vefsíða um Inka-borgina Machu Picchu sem ekki státar af ljóðlínum Neruda. ...
Heimsins besti tangóari er stutt smásaga (um 15 síður) eftir Kristínu Bjarnadóttur. Sagan er sögð í 1. persónu af „norðurevrópskri og tangóþyrstri” konu og gerist á tangóballi, eða milongu, síðla nætur í apríl í Buenos Aires. ...
Sagnfræðingurinn | 18.05.2010
Titillinn Sagnfræðingurinn hefur margar tilvísanir í skáldsögu Elizabeth Kostova (The Historian á frummálinu) um hinn (bókmennta)sögufræga Vlad Tepes, eða Drakúla. ...
Ég verð að játa það strax að ég hef verið mikill aðdáandi bóka Akúnins frá upphafi og átt margar góðar stundir með ríkisráðinu Fandorin og var því ekki lítið spennt þegar ég á sínum tíma fékk upp í hendurnar enska þýðingu á Leviatan. ...
Um þessar mundir velti ég mikið fyrir mér flokkunum og flokkum menningar, en í námskeiðum sem ég kenni í Listaháskóla Íslands um menningarfræði og sjónmenningu er slík umræða mjög viðvarandi. ...
Steinhjartað | 18.05.2010
Steinhjartað er þriðja bók Sigrúnar Eldjárn um systkinin Stínu og Jonna og vini þeirra. Í fyrstu bókinni, Týndu augunum, voru þau stödd í sveit, en þangað voru þau send eftir að móðir þeirra dó. ...
Dexter í dimmum draumi eftir Jeff Lindsay, í þýðingu Karls Emils Gunnarssonar; Kjallarinn eftir Fred Vargas, í þýðingu Guðlaugs Bergmundssonar; Næturvaktin eftir Kirino Natsuo, í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar; Zorró eftir Isabel Allende, í þýðingu Kolbrúnar Sveinsdóttur. ...
Gamall þrjótur, nýjir tímar eftir Örvar Þóreyjarson Smárason; Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason; Gleði og glötun eftir Óttar Martin Norðfjörð; Blandarabrandarar (die Mixerwitze) eftir Eirík Örn Norðdahl. ...
Steintré | 18.05.2010
Nýjasta smásagnasafn Gyrðis Elíassonar, Steintré, hefur ekki beinlínis vakið uppþot á misvitrum jólabókamarkaðnum, en hefði gjarnan mátt gera það, umræðan hefði eflaust orðið skemmtilegri fyrir vikið. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál