Leviatan: Morðingi um borð

Boris Akúnin. Árni Bergmann þýddi.

Mál og menning, 2005

Rússarnir koma!

Ég verð að játa það strax að ég hef verið mikill aðdáandi bóka Akúnins frá upphafi og átt margar góðar stundir með ríkisráðinu Fandorin og var því ekki lítið spennt þegar ég á sínum tíma fékk upp í hendurnar enska þýðingu á Leviatan. Í stuttu máli sagt olli Rússinn mér ekki vonbrigðum: Leviatan er að mínu mati besta og skemmtilegasta ríkisráðsbókin til þessa. Bókin kom svo út íslenskri þýðingu Árna Bergmanns nú fyrir jólin.

Það þarf svosem ekki mikið hugmyndaflug til að tengja glæpasögu sem gerist um borð í skipi, og einbeitir sér að þröngum hópi fólks sem situr við sama borðið, við Agöthu Christie, en það að lesa bókina á ensku undirstrikaði þessi hugrenningatengsl enn frekar. Hér fer Akúnin þá leið að láta sinn mann standa sem næst utan við frásögnina, því sagan er sögð af hinum persónunum, þeim grunuðu. Þau sitja öll við sama borð í hinu glæsilega risa-farþegaskipi Leviatan (sem minnir ekki svo lítið á annað afar frægt risa-glæsiskip, þannig leikur Akúnin sér með að setja á flot hinar og aðrar vísanir). Árið er 1878 og umræddur glæpur er ekki framinn um borð í skipinu heldur í París stuttu áður en skipið leggur af stað. Glæpurinn er hroðalegur, ekki færri en tíu liggja í valnum eftir það sem virðist vera innbrot, en indversk guðastytta úr gulli er horfin, auk slæðu sem ætla má að hafi verið tekin til að vefja utanum styttuna.
Einn hinna myrtu, herra hússins, finnst með lítinn gullhval í greip sinni en gullhvalur þessi er tákn um að eigandinn eigi miða á fyrsta farrými Leviatans. Lögregluforinginn Gauche sér framá auðvelda lausn á málinu og kemur sér fyrir á skipinu í leit að þeim sem ekki skartar hval. Þeir reynast hins vegar vera nokkrir og því er fyrrnefnd staða komin upp, lítill hópur grunaðra situr við sama borð í einum af fjölmörgum ríkulega skreyttum matsölum fyrsta farrýmis og spjallar saman. Og Fandorin er þar á meðal. Fljótlega kemur í ljós að allir hafa einhverju að leyna - auðvitað - og Gauche berst í bökkum.

Sagan er listilega vel samansett, bæði er dregin upp ljóslifandi mynd af hinu sérstæða lífi um borð í svona skipi (reyndar minnti margt mig skemmtilega á Argóarflís Sjóns og matmálstíma þar, en þar leynast líka ýmsir fiskar undir steinum), og persónunum. Skrautlegur hópurinn samanstendur af nokkuð ringluðum Skota, Japana í tilvistarkreppu, barnshafandi ungri konu sem er afar umhugað að borin sé virðing fyrir ástandi hennar og nokkuð eldri og afar vel lesinni konu, sem að sjálfsögðu virðist nokkuð dularfull. Og það er þetta fólk, og lögregluforinginn, sem segir söguna og gefur okkur hvert sína sýnina á Fandorin.
Glæpamálið sjálft er síðan bæði skemmtilega óvænt og snjallt og að sjálfsögðu með agötsku ívafi.

Íslensk þýðing Árna Bergmanns er vel unnin eins og búast mátti við, og hann nær akkúrat rétta tóninum, hæfilega gamaldags og dálítið formlegum, án þess þó að vera tyrfinn.

Úlfhildur Dagsdóttir, febrúar 2006


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Höfðaborg eftir Garðar Baldvinsson
Höfðaborg | 18.05.2010
Þrátt fyrir linnulaust tal um veika stöðu ljóðsins, lélega sölu á ljóðabókum og allt það, þá er alltaf heilmikill kraftur í íslenskri ljóðagerð. ...
Ljóðabálkur Pablo Neruda, Hæðir Machu Picchu, birtist fyrst árið 1950 og er löngu orðinn klassískur. Ljóðin hafa verið útgefin á ýmsum málum í fallegum myndskreyttum útgáfum og varla er sú vefsíða um Inka-borgina Machu Picchu sem ekki státar af ljóðlínum Neruda. ...
Heimsins besti tangóari er stutt smásaga (um 15 síður) eftir Kristínu Bjarnadóttur. Sagan er sögð í 1. persónu af „norðurevrópskri og tangóþyrstri” konu og gerist á tangóballi, eða milongu, síðla nætur í apríl í Buenos Aires. ...
Sagnfræðingurinn | 18.05.2010
Titillinn Sagnfræðingurinn hefur margar tilvísanir í skáldsögu Elizabeth Kostova (The Historian á frummálinu) um hinn (bókmennta)sögufræga Vlad Tepes, eða Drakúla. ...
Ég verð að játa það strax að ég hef verið mikill aðdáandi bóka Akúnins frá upphafi og átt margar góðar stundir með ríkisráðinu Fandorin og var því ekki lítið spennt þegar ég á sínum tíma fékk upp í hendurnar enska þýðingu á Leviatan. ...
Um þessar mundir velti ég mikið fyrir mér flokkunum og flokkum menningar, en í námskeiðum sem ég kenni í Listaháskóla Íslands um menningarfræði og sjónmenningu er slík umræða mjög viðvarandi. ...
Steinhjartað | 18.05.2010
Steinhjartað er þriðja bók Sigrúnar Eldjárn um systkinin Stínu og Jonna og vini þeirra. Í fyrstu bókinni, Týndu augunum, voru þau stödd í sveit, en þangað voru þau send eftir að móðir þeirra dó. ...
Dexter í dimmum draumi eftir Jeff Lindsay, í þýðingu Karls Emils Gunnarssonar; Kjallarinn eftir Fred Vargas, í þýðingu Guðlaugs Bergmundssonar; Næturvaktin eftir Kirino Natsuo, í þýðingu Jóns Halls Stefánssonar; Zorró eftir Isabel Allende, í þýðingu Kolbrúnar Sveinsdóttur. ...
Gamall þrjótur, nýjir tímar eftir Örvar Þóreyjarson Smárason; Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason; Gleði og glötun eftir Óttar Martin Norðfjörð; Blandarabrandarar (die Mixerwitze) eftir Eirík Örn Norðdahl. ...
Steintré | 18.05.2010
Nýjasta smásagnasafn Gyrðis Elíassonar, Steintré, hefur ekki beinlínis vakið uppþot á misvitrum jólabókamarkaðnum, en hefði gjarnan mátt gera það, umræðan hefði eflaust orðið skemmtilegri fyrir vikið. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál