Varúlfurinn

Fred Vargas. Guðlaugur Bergmundsson þýddi.

Grámann, 2006

Hamfarir glæpasögunnar

Ein ánægjulegasta uppgötvun mín á vígvelli afþreyingarbókmennta er franska skáldkonan sem nefnir sig Fred Vargas, en hún mun vera fornleifafræðingur og sagnfræðingur að mennt. Árið 2005 var bók hennar Kallarinn þýdd á íslensku, skemmtilega skrítin glæpasaga sem fellir saman fortíð og nútíð á afskaplega smart hátt, í bland við fjölbreytt og óvenjulegt persónugalleríl. Nú er komin önnur þýðing, Varúlfurinn, sem einkennist af svipaðri nálgun. Þriðja bókin sem ég hef lesið eftir Vargas heitir á ensku The Three Evangelists, og er alveg í ætt við hinar.

Eitt af einkennum verka Vargas er þráhyggja, en persónur hennar eru með eindæmum sérviskar, og þá ekki síst glæpamennirnir sjálfir sem leggja ýmsar lykkjur á leið sína til að flækja glæpina sem mest. Þetta gerir það að verkum að yfir sögunum liggur einhver skondinn blær ævintýralegrar fantasíu, sem dregur úr hefðbundnum ‘trúverðugleika’ að því leyti að hráblautt raunsæi er ekki til staðar, en eykur í staðinn lestraránægjuna og já, jafnvel trúverðugleikann, því allir vita að hinn grái veruleiki er oftar en ekki sérviskulegri en sá sem birtist í félagsraunsæinu. Hér birtist okkur á ný undarlegi yfirlögregluþjónninn Adamsberg sem að þessu sinni er í lífshættu: ung kona ætlar sér að skjóta lítilli sætri byssukúlu í kvið hans. En Adamsberg er þó ekki aðalpersóna bókarinnar frekar en í Kallaranum, aðalpersónurnar eru frekar hið sundurleyta teymi sem tekur að sér að elta uppi varúlfinn sem leggst ýmist á ær eða fólk. Í litlu samfélagi í frönsku Ölpunum gerir dýrbítur skyndilega usla meðal sauðfés, en það er þó ekki fyrr en hann drepur konu nokkra sem hlutirnir fara verulega að hreyfast. Bitförin eftir úlfinn reynast óvenjustór og í þessu landi varúlfsmýtunnar tekur það ekki langan tíma fyrir hjátrúna að blómstra. Vargas leikur sér hér með franska útgáfu þjóðtrúarinnar um varúlfinn, en hún er á þá leið að húð varúlfsins sé ranghverf, hárlaus að utan en loðin að innan. Varði, smali myrtu konunnar, og fóstursonur hennar Soliman, eru vissir um að hafa fundið varúlfinn og leggja upp í eftirför. Með í för er Camille, ung kona sem er fyrrum ástkona Adamsons, en býr nú með Lawrence Donald Johnstone, kanadískum sérfræðingi í grábjörnum, sem er staddur þarna í Ölpunum til að mynda evrópska úlfa. Camille trúir ekki svo mjög á varúlfinn en álítur að morðinginn eigi taminn úlf eða stóran hund, en hún var vinkona myrtu konunnar og lætur því tilleiðast að eltast við hinn meinta varúlf, sem virðist hafa lagt á flótta, eða réttara sagt, vera lagstur í blóðuga drápsferð um Frakkland. Og svo kemur Adamsberg til sögunnar.

Allt er þetta bæði skemmtilegt og fimlega fléttað, leikurinn með varúlfsmýtuna er vel útfærður og persónurnar bráðskemmtilegar, allt frá hinum kanadíska Lawrence, sem er afar fámáll en þeim mun meira miður sín yfir sóðaskap Frakka, til svarta fóstursonarins Solimans sem þylur orðabókaskilgreiningar. Þó kvenhlutverkið sé aðeins eitt þá nær Vargas að kreista úr því aukablóð með því að gera stúlkuna að pípara sem er haldin verkfæra-blæti, en hennar helsta huggun í erfiðleikum og flækjum er að lesa Verkfæralista atvinnumannsins. Þýðingin er að sama skapi afbragðsgóð, tungutakið lifandi og liðlegt og dregur vel fram fjölbreytta undirtóna sögunnar um þráhyggju, hjátrú og margháttaðar ógnir.

Lausnin kemur kannski ekkert svakalega á óvart, enda er það ekki aðalmálið í verkum Vargas, þetta snýst frekar um hugvitssemi og fimi í því að flétta saman ólíka þræði í skrautlegan og skemmtilegan vef verkfæra og varga.

Úlfhildur Dagsdóttir, apríl 2007


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Í nýútkominni myndasögu sinni, Alice in Sunderland, minnir höfundurinn Brian Talbot á það að einu sinni voru gefnar út barnasögur sem voru ekkert að hafa fyrir því að fegra hlutina eða útþynna þá. ...
Varúlfurinn | 25.05.2010
Ein ánægjulegasta uppgötvun mín á vígvelli afþreyingarbókmennta er franska skáldkonan sem nefnir sig Fred Vargas, en hún mun vera fornleifafræðingur og sagnfræðingur að mennt. ...
Tryggðarpantur | 25.05.2010
Í skáldsögunni Tryggðarpanti fæst Auður Jónsdóttir við málefni sem nú um stundir eru ofarlega á baugi í samfélagsumræðu um öll vesturlönd – nefnilega málefni innflytjenda. ...
Undantekningin | 25.05.2010
Höfundur þessarar bókar, Christian Jungersen, er danskur. Hann vakti talsverða athygli fyrir sína fyrstu skáldsögu, Krat, sem kom út árið 1999. Það tók hann átta ár að klára Undantekninguna. ...
Undir himninum | 25.05.2010
Að missa póstkort, eða öllu heldur fleygja því, út um glugga á risíbúð á horninu á Kvisthaga og Hjarðarhaga, póstkort sem maður hefur trúlega skrifað eitthvað á en man ekki hvað, hljómar kannski ekki eins og alvarlegt atvik. ...
Aldingarðurinn | 20.05.2010
Það má segja að í Aldingarðinum sé Ólafur Jóhann Ólafsson kominn aftur til uppruna síns í skáldskapnum þar sem fyrsta bók hans, Níu lyklar, var einmitt smásagnasafn en síðan hefur hann mestmegnis fengist við það að skrifa skáldsögur. ...
Morðið í Rockville er 6. bókin um lögfræðinginn Stellu Blómkvist sem rekur ekki mál sín fyrir dómi, frekar en Þóra í sögum Yrsu Sigurðardóttur, heldur starfar sjálfstætt að rannsókn mála sem virðast vefjast fyrir lögreglunni. ...
Á dýrabaki eftir Brian Pilkington og Þórarin Eldjárn; Amma fer í sumarfrí eftir Björk Bjarkadóttur; Stór skrímsli gráta ekki eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal; Gula sendibréfið eftir Sigrúnu Eldjárn; Nonnikonni og kúlurnar eftir Margréti Þ. Jóelsdóttur og Stephen Fairbairn; Mitt er betra en þitt eftir Þorgerði Jörundsdóttur ...
Barneignir eru ekki lengur einfalt mál (hafi þær einhverntíma verið það). Í dag standa foreldrar frammi fyrir margvíslegu vali (fyrir utan það að velja hvort og hvenær þeir vilji yfirhöfuð eignast barn) ...
Eyja gullormsins | 20.05.2010
Þessi nýjasta bók Sigrúnar Eldjárn er, samkvæmt bókarkápu, fyrsta bókin í þríleik og því ljóst að hún heldur hér áfram með það form sem svo vel tókst til með í þeim síðasta, Týndu augunum, Frosnu tánum og Steinhjartanu. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál