Gátt hrafnsins og Skelmir Gottskálks

Gátt hrafnsins eftir Anthony Horowitz. Þorvaldur Kristjánsson þýddi.
Skelmir Gottskálks eftir Derek Landy. Þórdís Bachmann þýddi.

Skálkar og skjól

Þótt algengt sé (bæði á bókasöfnum og meðal almennra lesenda) að flokka afþreyingarbókmenntir í tilteknar tegundir, fantasíu, hrollvekju, spennusögu og svo framvegis, þá eru mörkin milli bókmenntagreina alls ekki alltaf skýr. Fantasía og hrollvekja renna til dæmis iðulega saman og sömuleiðis er ekki alltaf langt á milli hrollvekju og spennusögu.

Bækurnar sem hér eru til umfjöllunar eru báðar dæmi um þessa tegundablöndun, en þó Gátt hrafnsins (Uppheimar, 2007)og Skelmir Gottskálks (Skrudda, 2007) flokkist líklegast sem fantasíur fyrir yngri lesendur af Harry Potter kynslóðinni, þá er ljóst að báðar sögurnar sækja þónokkuð til hrollvekjunnar, auk þess sem finna má í þeim þætti úr spennusögum.

Gátt hrafnsins eftir breska rithöfundinn Anthony Horowitz segir frá unglingsstráknum Matt, sem er munaðarlaus og alinn upp hjá frænku sinni, en hún vill lítið með hann hafa. Hann hefur leiðst út á braut vandræðaunglinga og bókin hefst á því að hann er handtekinn í miðju ráni og er í kjölfarið sendur í sveit í von um að þar verði hann að betri manni. Sveitasælan reynist þó ekki skjól sem skyldi og fyrr en varir er Matt flæktur í dularfulla atburðarás sem virðist yfirnáttúruleg á einhvern hátt. Hér er fjallað um galdra, nornir og fórnir, sumt minnir á sögur bandaríska hrollvekjuhöfundarins H.P. Lovecraft og annað á skáldsögur / kvikmyndir eins og Rosemary’s Baby. Sagan er nokkuð spennandi og vel læsileg en líður dálítið fyrir skort á húmor. Matt er bara einum of mikið fórnarlamb og einum of leiðinlegur unglingur til að vekja virkilegan áhuga eða samúð lesenda en hinsvegar eru aðrar persónur, til dæmis blaðamaðurinn Richard sem aðstoðar Matt, og nornin frú Deverill, höfuðóvinur hans, betur unnar og vega upp á móti þróttleysi aðalsöguhetjunnar. Sömuleiðis er andrúmslofti og hinu dularfulla umhverfi nokkuð vel lýst. Sagan er sú fyrsta í nýrri ævintýraseríu, en hver saga er þó sjálfstæð.

Húmorinn er öllu fyrirferðarmeiri í Skelmi Gottskálks eftir írska rithöfundinn Derek Landy. Þar er hrollvekjan enda enn meira áberandi, en sagan segir frá því að þegar frændi Stefaníu, rithöfundurinn Gordon, deyr, þá erfir hann hana að eigum sínum og þarmeð nokkrum leyndarmálum. Eitt þeirra er félagsskapur hans við spæjarann Skelmi Gottskálks sem er lifandi beinagrind og sérhæfir sig í því að bæla niður ill öfl sem eitt sinn börðust um yfirráð heimsins en sitja nú sátt - allavega á yfirborðinu. Sagan er því öðrum þræði leynilöggusaga, en hér má greinilega sjá hluti sem minna á Harry Potter, auk þess sem myndasögurnar um Hellboy koma upp í hugann, en þar er einnig fjallað um yfirnáttúrulega spæjara sem berjast við dulræn öfl. Skelmir er bráðfyndinn og vel heppnaður karakter og Stefanía er sömuleiðis skemmtilega ákveðin og þrjósk í ævintýragirni sinni, og eru samskipti þeirra eitt af því sem gera lesturinn ánægjulegan, en hinsvegar vantar svolítið uppá að plottið sé nægilega drífandi, þó vissulega sé nóg af áhugaverðum fantasíu-fyrirbærum. Í ljós kemur að Gordon hafði komist yfir mikilvægan galdragrip sem fulltrúi hinna illu afla ætlar sér að komast yfir og ná þannig völdum á ný.

Báðar sögurnar nýta sér vel sögusvið sín, sem eru innsveitir Englands og umhverfi Dyflinnar, og skapa með því jafnvægi milli hins forna - fantasíunnar og hryllingsins - og nútímans, í formi unglinganna. Sömuleiðis fara báðar sögurnar þá leið að staðsetja sig í raunsæjum kunnuglegum heimi, þarsem heimur fantasíunnar liggur aðeins utan við, líkt og í Harry Potter bókunum. Með þessu er einmitt ítrekað þetta samspil hins gamla og nýja.

Þýðingarnar eru báðar lipurlega unnar, dularfullir undirtónar skila sér vel í Gátt hrafnsins og hin leikandi samtöl í Skelmi Gottskálks eru sannferðug.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Skáldið á daginn | 26.05.2010
Snemma í ljóðabók Jóhamars, Skáldið á daginn, er ‘viðtal’ við höfund. Þar leggur hann áherslu á mikilvægi súrrealismans fyrir verk sín, og nefnir líka Dag Sigurðarson, Alfreð Flóka, James Joyce og Jeff Noon. ...
Hegravarpið | 25.05.2010
Átökin milli sveitar og borgar eru ekki lengur sérlega heitt viðfangsefni í íslenskum bókmenntum, þó fyrirbærið sem slíkt sé lifandi sem aldrei fyrr. ...
Hjartaborg | 25.05.2010
Í einu prósaljóðanna í ljóðabókinni Hjartaborg eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson birtist ljóðið eiginlega sem einskonar draugur, eða reimleikar. ...
Hvernig konurnar stöðvuðu blásturinn eftir Bruce McMillan, málverk eftir Gunnellu, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar; Vel trúi ég þessu! Tólf munnmælasögur með myndum eftir tólf teiknara, Rósa Þorsteinsdóttir valdi sögurnar ...
Það var þónokkuð forvitnilegt að fá í hendur nýja skáldsögu nýs höfundar sem sker sig nokkuð úr því sem kalla mætti (eða alhæfa sem) íslenska skáldsagnahefð ...
Nonni og Selma | 25.05.2010
Það er athyglisvert að sjá hvernig bókmenntaleg viðmið og gildi virðast hafa ólíkt vægi eftir því hvort um er að ræða barnabók eða fullorðinsbók. ...
Það er víst óhætt að segja að myndasagan hafi löngum verið fyrirferðalítil í íslenskri bókaútgáfu. Þar ber hæst þýðingar á evrópskum og bandarískum myndasögum, aðlaganir á Njálu og Laxdælu, að ógleymdum Pétri og vélmenninu. ...
Kossar og ólífur er önnur unglingabók Jónínu Leósdóttur en sú fyrri, Sundur og saman, kom út fyrir fjórtán árum, 1993. Í Kossum og ólífum segir frá Önnu sem býr austur í Vík og er að ljúka 10. bekk. ...
Góða nótt, sofðu rótt eftir David Melling, í þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur; Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson, í þýðingu Sigþrúðar Gunnarsdóttur; Sjóræningjar skipta ekki um bleiur eftir Melindu Long, með myndum eftir David Shannon, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar; Sylvía og drekinn eftir Lawrence Schimel, með myndum eftir Söru Rojo Pérez, í þýðingu Kristínar Birgisdóttir ...
Þótt algengt sé (bæði á bókasöfnum og meðal almennra lesenda) að flokka afþreyingarbókmenntir í tilteknar tegundir, fantasíu, hrollvekju, spennusögu og svo framvegis, þá eru mörkin milli bókmenntagreina alls ekki alltaf skýr. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál