Fjórar þýddar ævintýrabækur

Góða nótt, sofðu rótt eftir David Melling. Sigrún Á. Eiríksdóttir þýddi.
Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson. Sigþrúður Gunnarsdóttir þýddi.
Sjóræningjar skipta ekki um bleiur eftir Melindu Long. Guðni Kolbeinsson þýddi. David Shannon myndskreytti. Sylvía og drekinn eftir Lawrence Schimel. Kristín Birgisdóttir þýddi. Sara Rojo Pérez myndskreytti.

“Ekki koma kóngsbörnin enn...”

Ég er alin upp við linnulaus ævintýri. Afi og amma ýmist sögðu mér sögur eða lásu fyrir mig og mamma sömuleiðis bæði las fyrir mig og spann upp ævintýri. Stundum teiknaði hún eða málaði myndir líka en ekki man ég til að það hafi verið sérlega mikið til af myndskreyttum sögum fyrir börn. Barbapabbi jú, og svo voru myndir með múmínálfunum, en mikið held ég að ég hefði glaðst yfir öllum þeim margvíslegu fallega myndskreyttu sögum fyrir yngstu lesendurna sem nú eru í boði. Ekki svo að ég upplifi neinn skort, ævintýri þeirra þriggja lifa með mér enn og setningar eins og “ekki koma kóngsbörnin enn...” rifja upp heilan hafsjó af ævintýraheimum. Auk þess er ég svo heppin að geta einfaldlega notið þess að lesa þessar myndabækur sem fullorðin, þó vissulega sé sjónarhornið kannski annað.

Samspil mynda og orða er augljóslega lykilatriði í myndlýstum bókum, allt frá því hvernig myndirnar tala við orðin yfir í sjálfan stílinn á myndunum. Þessar fjórar bækur sem hér eru til umfjöllunar nálgast viðfangsefnið á svo gerólíkan hátt að það er næstum hæpið að fella þær allar í sama flokk.

Tvær bókanna, Góða nótt, sofðu rótt eftir David Melling (Æskan, 2007) og Sjóræningjar skipta ekki um bleiur eftir Melindu Long með myndum David Shannon (JPV, 2007), fjalla um hvernig á að svæfa öskrandi krakkaunga. Í þeirri fyrrnefndu tætir konunglegi kötturinn kodda prinsessunnar í sundur með þeim afleiðingum að hún fer að háorga. Riddarinn er sendur í hasti af stað í leit að nýju efni í koddann sem þarf að vera lungamjúkur og hann sinnir hlutverki sínu af kostgæfni, safnar fyrst bjarnarhárum og svo úlfshárum og prófar þetta allt á hesti sínum sem finnst ekkert nógu mjúkt. Myndirnar eru í krúttlegum kómískum stíl án þess þó að fara alveg útí Disney og textinn er látinn flögra til á síðunum þegar það á við. Sagan er einskonar öfugsnúið Þyrnirósarævintýri, því allt gengur útá að svæfa barnið svo allir aðrir nái að festa blund líka. Allt voða sætt en kannski ekki beint átakamikið.

Bókin um sjóræningjana gerir líka útá húmorinn, og sækir efnivið sinn í hinar endurnýjuðu vinsældir sjóræningjasagna, en þar koma sjóræningjar í heimsókn til félaga síns sem geymir fjársjóðskortið. En eitthvað gengur þeim illa að komast af stað til að grafa sjóðinn upp því félaginn er að passa litlu systur sína og hún er einstaklega lítið rólegt barn. Þannig gengur mikið á þegar sjóræningjarnir takast á við barnapössunarhlutverkið og húmorinn blómstrar í myndunum sem eru frekar í gróteskari kantinum, með ýktum svipbrigðum og stórum nefjum, allt í stíl við þennan samslátt hins bernska og hins groddalega sem sagan lýsir. Allt voða fyndið en kannski ekki beint átakamikið.

Færeyska bókin um Hundinn, köttinn og músina, eftir Bárð Oskarsson (Mál og menning, 2007), er hinsvegar dæmi um örsmáa sögu sem er mun meiri að umfangi en virðist í fyrstu. Músin er á vappi og rekst á ostbita, nema hvað hún er ekki svöng og henni leiðist síðan kötturinn hætti að elta hana. Kötturinn nennir ekki að leika sér við hnykil síðan þau urðu vinir, músin, kötturinn og hundurinn og hundinum leiðist því hann má hvorki hlaupa né gelta. Hér hefur eitthvað voðalegt gerst sem lesandi verður að gera sér í hugarlund, líklegt má þykja að einhverskonar pólitísk rétthugsun hafi fyrirskipað að ekki megi lengur koma til átaka milli þessara þriggja dýra. En, svo geltir hundurinn... Þetta er dálítið dularfull bók, sem verður að lesa allavega tvisvar yfir í einu og verður bara dularfyllri við það. Myndir Bárðar eru dásamlega einmanalegar og ég gat tekið heilshugar undir með kettinum þegar hann segir: “Núna er gaman.”

Ekki minnkar gleðin í hetju-ævintýrinu Sylvía og drekinn eftir Lawrence Schimel (Salka, 2007) með myndum eftir Söru Rojo Pérez. Þar er á ferðinni heilmikil áróðurssaga um hetjur og prinsessur og dreka, en Sylvíu dreymir um að sjá dreka. En hún er hvorki prinsessa né gæsastúlka og því er lítil von til að dreki taki hana til fanga, niðurstaðan er sú að leita drekann uppi sjálf. Þegar hún finnur hann hefur hann tekið stúlku til fanga og nú eru góð ráð dýr. Ef ég ætti einhverntíma að sýna fram á gildi femínismans þá væri nóg að veifa þessari bók sem tekur á kostulegan hátt á kynhlutverkum ævintýra, en nær jafnframt að skapa fallega hefðbundið ævintýri. Myndirnar eru ótrúlega fallegar og bæta heilmiklu við söguna, allt frá því að skapa einskonar austurlenskt ævintýraandrúmsloft yfir í að hreinlega segja meira en textinn, alveg eins og á að vera í góðum myndabókum.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2007


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Skáldið á daginn | 26.05.2010
Snemma í ljóðabók Jóhamars, Skáldið á daginn, er ‘viðtal’ við höfund. Þar leggur hann áherslu á mikilvægi súrrealismans fyrir verk sín, og nefnir líka Dag Sigurðarson, Alfreð Flóka, James Joyce og Jeff Noon. ...
Hegravarpið | 25.05.2010
Átökin milli sveitar og borgar eru ekki lengur sérlega heitt viðfangsefni í íslenskum bókmenntum, þó fyrirbærið sem slíkt sé lifandi sem aldrei fyrr. ...
Hjartaborg | 25.05.2010
Í einu prósaljóðanna í ljóðabókinni Hjartaborg eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson birtist ljóðið eiginlega sem einskonar draugur, eða reimleikar. ...
Hvernig konurnar stöðvuðu blásturinn eftir Bruce McMillan, málverk eftir Gunnellu, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar; Vel trúi ég þessu! Tólf munnmælasögur með myndum eftir tólf teiknara, Rósa Þorsteinsdóttir valdi sögurnar ...
Það var þónokkuð forvitnilegt að fá í hendur nýja skáldsögu nýs höfundar sem sker sig nokkuð úr því sem kalla mætti (eða alhæfa sem) íslenska skáldsagnahefð ...
Nonni og Selma | 25.05.2010
Það er athyglisvert að sjá hvernig bókmenntaleg viðmið og gildi virðast hafa ólíkt vægi eftir því hvort um er að ræða barnabók eða fullorðinsbók. ...
Það er víst óhætt að segja að myndasagan hafi löngum verið fyrirferðalítil í íslenskri bókaútgáfu. Þar ber hæst þýðingar á evrópskum og bandarískum myndasögum, aðlaganir á Njálu og Laxdælu, að ógleymdum Pétri og vélmenninu. ...
Kossar og ólífur er önnur unglingabók Jónínu Leósdóttur en sú fyrri, Sundur og saman, kom út fyrir fjórtán árum, 1993. Í Kossum og ólífum segir frá Önnu sem býr austur í Vík og er að ljúka 10. bekk. ...
Góða nótt, sofðu rótt eftir David Melling, í þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur; Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson, í þýðingu Sigþrúðar Gunnarsdóttur; Sjóræningjar skipta ekki um bleiur eftir Melindu Long, með myndum eftir David Shannon, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar; Sylvía og drekinn eftir Lawrence Schimel, með myndum eftir Söru Rojo Pérez, í þýðingu Kristínar Birgisdóttir ...
Þótt algengt sé (bæði á bókasöfnum og meðal almennra lesenda) að flokka afþreyingarbókmenntir í tilteknar tegundir, fantasíu, hrollvekju, spennusögu og svo framvegis, þá eru mörkin milli bókmenntagreina alls ekki alltaf skýr. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál