Þrjár myndasögur eftir Hugleik Dagsson

Kaupið okkur, Ókei bæ og Eineygði kötturinn Kisi og leyndarmálið eftir Hugleik Dagsson.

JPV, 2007

Það er víst óhætt að segja að myndasagan hafi löngum verið fyrirferðalítil í íslenskri bókaútgáfu. Þar ber hæst þýðingar á evrópskum og bandarískum myndasögum, aðlaganir á Njálu og Laxdælu, að ógleymdum Pétri og vélmenninu. Þessar bækur eru nær undantekningalaust flokkaðar með barna- og unglingabókmenntum, og einsdæmi þykir að út komi frumsamin íslensk myndasaga sem ætluð er eldri lesendum. Þó hefur einn maður verið sérstaklega ötull við myndasöguskrif á síðari árum. Hugleikur Dagsson, sem hefur notið hylli fyrir Okkur-bækurnar sínar, gaf frá sér myndasöguna Eineygði kötturinn kisi og hnakkarnir á síðasta ári og fylgir henni nú eftir með Eineygða kettinum kisa og leyndarmálinu. Á sama tíma koma út bækurnar Kaupið okkur og Ókei bæ, sem er safn stuttra myndasagna eftir Hugleik.

Á kápu Kaupið okkur má lesa dóm af vefsíðunni gatewaymonthly.com, sem á væntanlega við ensku þýðinguna á Forðist okkur, Avoid Us. Þar fer ritari mikinn í vandlætingu sinni og þykir illa komið fyrir íslensku þjóðinni sé Hugleikur einn af hennar frægustu myndasöguhöfundum. Það er í sjálfu sér ekki ný brella að auglýsa vöru með neikvæðri umfjöllun. Það segir að bókin sé ekki allra og um leið er ýjað að því að það séu ,,þeir" sem hneykslast og skilja ekki um hvað málið snýst, á meðan við hin vitum betur. Í þessu tilviki er það breskur gagnrýnandi sem biður Guð almáttugan að bjarga íslensku menningarlífi. Það fyrsta sem manni dettur í hug er að þar sé maður - nei, heil þjóð, jafnvel umheimurinn allur! - sem skilur ekki húmorinn, fattar ekki íslenskt hugarfar, og að auðvitað kunnum við Íslendingar, með okkar einstaka skopskyn, betur að meta ískalt og andstyggilegt Óla prik-spaug.

Bölvaður tjallinn. Hvað ætli hann viti?

Þó svo að Hugleikur hafi auðvitað líka fengið jákvæða umfjöllun erlendis (m.a. frá breska myndasöguíkoninu Warren Ellis) þá er tilhugsunin skemmtileg, að þarna sé sérhannað ógeðisgrín fyrir upplýsta þjóð. Nú eru bækurnar orðnar það margar og Hugleikur það vel þekktur að lesendur vita við hverju má búast, og þeir sem láta svona lagað fara fyrir brjóstið á sér hljóta að vera löngu búnir að afskrifa Okkur. Og þar sem hér er ekki að finna neinn söguþráð eða breyttar áherslur frá fyrri bókum í flokknum er varla annað hægt að segja en að hér er komin önnur Okkur, alveg jafn Við og hinar Okkar, og ekkert nema gott um það að segja.

Ókei bæ inniheldur myndasögur allt frá árinu 2002, þar á meðal sögur sem áður hafa birst í Reykjavík Grapevine. Það er í sjálfu sér ekki hægt að draga bókina saman, ekki frekar en einhverja Okkar-bókanna. Hugleikur fer um víðan völl í gríninu og virðist standa í þeirri meiningu að besta leiðin - eða í það minnsta sú fyndnasta - til að velta vöngum yfir mannlegum breyskleika og óhroða sé að velta sér upp úr honum. Og það er erfitt að mæla gegn því þegar lesið er um geðsjúka morðingjann og nauðgarann Hróa Hött (sem verður að alþýðuhetju í 700 ára munnlegri geymd) og ,,Stráka”-eftirmyndirnar sem blanda ,,ógeðisdrykk" úr nýfæddum syni kollega síns.

Morð, nauðganir og limlestingar eru eitthvað svo blátt áfram sjálfsagðir hlutir í sögum Hugleiks að lesendur eru löngu hættir að kippa sér upp við þá og búast orðið við þeim. Spýtukarlar í svarthvítri veröld níðast hvor á öðrum bæði andlega og líkamlega, og þó svo sögurnar snerti endrum og eins á því sem er efst á baugi í þessari leiðinda-þriðju vídd okkar, þá er maður í raun og veru bara mættur til að fylgjast með glaðhlakkalegri slátrun á blaðsíðunni. Þetta gæti hins vegar átt við sérhverja af Okkur-bókum Hugleiks. Ókei bæ er sérstök að því leyti að í stað augnablika á stökum ramma, eins og lesendur þekkja úr Drepið okkur, Ríðið okkur o.s.frv., þekur hver saga frá þrem, fjórum römmum og upp í fleiri blaðsíður. Og það verður að segjast eins og er að þegar tiltekinn brandari virkar ekki í Ókei bæ þá er hann meiri dragbítur á bókinni en einn og einn mislukkaður rammi í Kaupið Okkur. Það sama á við um dýralýsingarnar sem dúkka upp hér og þar í Ókei bæ, og gætu verið fyndnar í réttu samhengi, en virka hér eins og tómt uppfyllingarefni og ganga engan veginn upp.

Ókei bæ er einskonar bastarður, þar sem einramma Okkur-húmorinn með sínum spýtukörlum og heimsendasprengjum fær fleiri ramma og blaðsíður til að dreifa úr sér. En þrátt fyrir tvær þrjár sérstaklega góðar sögur og nóg af kvikindislegu gríni getur maður ekki varist þeirri hugsun að hér sé nokkuð um uppsóp sem dugi til að bæta við blaðsíðufjöldann en lítið meira en það. Það verður hins vegar ekki frá Hugleiki tekið að meðalgott safn frá honum er mun betra en flestar aðrar myndasögur sem maður kemst í.

Eineygði kötturinn Kisi og leyndarmálið er hins vegar með því betra sem Hugleikur hefur gefið frá sér. Sagan segir af því þegar Kisi, Kata kanína, Skúli skjaldbaka og Knútur, frændi Kötu, leggja af stað með Herjólfi á þjóðhátíð í Eyjum. Herjólfur lendir á ísjaka og sekkur, Kötu, Skúla og Knút skolar á land í Surtsey en Kisi lendir á Heimaey og er nauðugur gefinn eldfjallaguðinum Gong-Pa. Þau komast öll heim heilu og höldnu, fyrir utan Knút, sem var étinn í Surtsey og ásækir nú Kisa. Kisi þarf því að komast að tilgangi lífsins og útskýra hann fyrir Knúti til að losna við allan draugagang.

Bókin vísar beint í íslenskan samtíma með vísunum m.a. í Leyndarmálið, Magna í Á móti sól, Árna Johnsen og brekkusöng í Eyjum, og þá misjöfnu bandarísku sjónvarpsþætti sem Ríkissjónvarpið býður landsmönnum upp á um þessar mundir. Þessi veruleiki er þó sýndur í brenglaðri mynd, þar sem Magni er hákarlavampíra, Árni er skinnklæddur leiðtogi innfæddra villimanna sem dýrka eldfjallaguðinn og risaeðlur ganga lausar í Vestmannaeyjum, svo eitthvað sé nefnt. Þessi óþvingaði spéspegill myndar fullkominn ramma fyrir grínið, sem sveiflast á milli æpandi aulabrandara (þar sem vofa Knúts rís upp úr klósettinu í formi svífandi skítahrúgu) og lágstemmdari nördahúmors (þar sem Kisi leiðréttir málfar skítahrúgunnar: það er ekki y í ,,eilífu”).

Í Eineygða kettinum kisa og hnökkunum eru það hinir svokölluðu ,,hnakkar” – þessir vel klipptu og sólbrúnu flottræflar sem okkur þykir svo vænt um – sem höfundurinn gerir gys að, en í Kisa og leyndarmálinu eru það allir þeir sem leita að lífshamingju í trúarbrögðum, aktivisma eða sjálfshjálparbókum sem fá að kenna á því. Í leit að tilgangi lífsins komast Kisi og félagar að því að heittrúarsöfnuðum er stýrt af froðufellandi geðsjúklingum sem banna sjálfsögð mannréttindi eins og samkynhneigð og fóstureyðingar; aktivistar á borð við meðlimi Saving Iceland eru bjórþyrstir trúðar sem keppast við að láta handtaka sig; og sjálfshjálparbækur eins og Leyndarmálið eru gamall og þunnur grautur í nýjum dalli. Eins og Kisi orðar það: ,,Þessi bók! [...] Hún er ekki "leyndarmál" fyrir fimmaura! Það stendur bara að maður eigi að smæla framan í heiminn, þá smælar heimurinn framan í þig! Það er ekkert nýtt! Hahaha!"

Já, sannleikann er ekki að finna í bókum, maður á bara að halda áfram að lifa og hætta þessu væli. Það er að sjálfsögðu ekki ný speki heldur, en hér er það meðalið sem helgar tilganginn. Bókin er mun vandaðri en fyrri bækur Hugleiks, bæði hvað varðar handrit og teikningu, rammauppsetningin er leikandi og heilsíðurnar eru listaverk í sjálfu sér. Ólíkt mínimalískum teikningum og síðusmíðum í Kaupið okkur og Ókei bæ þá sýnir Kisi og leyndarmálið hvers Hugleikur er megnugur. Þetta sést hvergi eins vel og í ofskynjunarkaflanum þegar Kisi sér sjálfan sig verða fyrir gróteskum myndbreytingum, á hann vaxa lafandi og æðaber kynfæri sem hann virðir fyrir sér með hryllingi, og hann kastar upp dularfullu, sjúklegu flikki sem er talsvert stærra en hann sjálfur. Yndislegur óhroðinn er því ekki bundinn við söguþráð og mál manna (eða dýra) heldur taka teikningarnar hressilega á honum líka.

Björn Unnar Valsson, desember 2007


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Skáldið á daginn | 26.05.2010
Snemma í ljóðabók Jóhamars, Skáldið á daginn, er ‘viðtal’ við höfund. Þar leggur hann áherslu á mikilvægi súrrealismans fyrir verk sín, og nefnir líka Dag Sigurðarson, Alfreð Flóka, James Joyce og Jeff Noon. ...
Hegravarpið | 25.05.2010
Átökin milli sveitar og borgar eru ekki lengur sérlega heitt viðfangsefni í íslenskum bókmenntum, þó fyrirbærið sem slíkt sé lifandi sem aldrei fyrr. ...
Hjartaborg | 25.05.2010
Í einu prósaljóðanna í ljóðabókinni Hjartaborg eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson birtist ljóðið eiginlega sem einskonar draugur, eða reimleikar. ...
Hvernig konurnar stöðvuðu blásturinn eftir Bruce McMillan, málverk eftir Gunnellu, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar; Vel trúi ég þessu! Tólf munnmælasögur með myndum eftir tólf teiknara, Rósa Þorsteinsdóttir valdi sögurnar ...
Það var þónokkuð forvitnilegt að fá í hendur nýja skáldsögu nýs höfundar sem sker sig nokkuð úr því sem kalla mætti (eða alhæfa sem) íslenska skáldsagnahefð ...
Nonni og Selma | 25.05.2010
Það er athyglisvert að sjá hvernig bókmenntaleg viðmið og gildi virðast hafa ólíkt vægi eftir því hvort um er að ræða barnabók eða fullorðinsbók. ...
Það er víst óhætt að segja að myndasagan hafi löngum verið fyrirferðalítil í íslenskri bókaútgáfu. Þar ber hæst þýðingar á evrópskum og bandarískum myndasögum, aðlaganir á Njálu og Laxdælu, að ógleymdum Pétri og vélmenninu. ...
Kossar og ólífur er önnur unglingabók Jónínu Leósdóttur en sú fyrri, Sundur og saman, kom út fyrir fjórtán árum, 1993. Í Kossum og ólífum segir frá Önnu sem býr austur í Vík og er að ljúka 10. bekk. ...
Góða nótt, sofðu rótt eftir David Melling, í þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur; Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson, í þýðingu Sigþrúðar Gunnarsdóttur; Sjóræningjar skipta ekki um bleiur eftir Melindu Long, með myndum eftir David Shannon, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar; Sylvía og drekinn eftir Lawrence Schimel, með myndum eftir Söru Rojo Pérez, í þýðingu Kristínar Birgisdóttir ...
Þótt algengt sé (bæði á bókasöfnum og meðal almennra lesenda) að flokka afþreyingarbókmenntir í tilteknar tegundir, fantasíu, hrollvekju, spennusögu og svo framvegis, þá eru mörkin milli bókmenntagreina alls ekki alltaf skýr. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál