Hegravarpið

Lise Tremblay. Ásdís R. Magnúsdóttir, Davíð Steinn Davíðsson og Linda Rós Arnarsdóttir þýddu. Erla Erlendsdóttir ritstýrði.

Háskólaútgáfan og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, 2007

Örvæntingarfullar eiginkonur

Átökin milli sveitar og borgar eru ekki lengur sérlega heitt viðfangsefni í íslenskum bókmenntum, þó fyrirbærið sem slíkt sé lifandi sem aldrei fyrr. Hér á landi á náði þessi umræða einskonar hámarki í raunsæum eftirstríðsbókmenntum sem upphófu heilnæmi sveitarinnar en fordæmdu spillingu borgarinnar. Þetta hefur allavega lengi vel verið hin viðtekna sýn á bækur þessa tímabils, en margir hafa bent á að línurnar voru ekki endilega svo skýrar. Strax þarna var einnig komin fram nokkur gagnrýni á hina rómantísku sýn á landið, gagnrýni sem auðvitað má rekja aftur til fyrri hluta aldarinnar og verka Laxness. Þó er ljóst að sveitarómantíkin hefur gengið í endurnýjun lífdaga í náttúruverndarumræðunni, þó með nokkuð öðrum formerkjum sé.

Átök milli sveitar og borgar eru auðvitað ekki neitt einkamál íslenskra bókmennta, þetta viðfangsefni er klassískt og birtist í fjölmörgum myndum. Ein þeirra er nýlegt smásagnasafn kanadísku skáldkonunnar Lise Tremblay, La Héronnière (2003), sem kom út í íslenskri þýðingu sem Hegravarpið á síðasta ári.

Bókin samanstendur af fimm tengdum smásögum sem saman mynda einskonar skáldsögu, verkið spilar reyndar á skemmtilegan hátt á þessi mörk. Sögurnar standa allar sem sjálfstæð verk, en þó er greinilegur skáldsögulegur svipur á bókinni. Þessi línudans forma er nokkuð sem Gyrðir Elíasson hefur gert sér mat úr í gegnum tíðina, en einnig má nefna Steinunni Sigurðardóttur og Sigfús Bjartmarsson í þessu sambandi.

Það er þó Gyrðir sem helst kemur upp í hugann, því stíll Tremblay er afar fágaður og agaður með sterkum undirtónum. Gyrðir er einmitt einn af nútímafulltrúum landsbyggðabókmennta sem á stundum, eins og til dæmis í nýjustu skáldsögu hans Sandárbókinni, bera með sér keim af borg/sveit togstreitunni.

Nálgun Tremblay er þó allólík Gyrðis, en í bók hennar er að finna meira af harkalegri gagnrýni á einangruð og fámenn samfélög landsbyggðarinnar en rómantík. Þetta byrjar alltsaman frekar rólega, fyrstu söguna “Hjólhýsið” segir karlmaður sem rifjar upp sambúð sína með eiginkonunni allt fram að því að hún yfirgefur hann fyrir annan mann. Hann er veiðivörður og líkar fábreytt líf sitt í þorpinu bara dável og er alveg undrandi þegar konan hverfur á brott. Þarna er strax gefinn tónninn fyrir önnur átök sem spegla borg/sveit togstreituna, en það er andstæðan milli kynjanna, sem löngum hefur fylgt þemanu, konan stendur þá iðulega fyrir borgina meðan karlinn er fulltrúi landsins. Þessari hefð er viðhaldið hjá Tremblay, án þess þó að virka sem kunnugleg klisja. Þvert á móti, þá er það einkenni þessa verks hversu vel skáldkonunni tekst að halda sögum sínum utan við klisjur, þó viðfangsefnið og átakalínurnar bjóði auðveldlega uppá slíkt. Þar kemur ekki síst til af því hversu skemmtilega hún dregur fram ólíkar raddir og smáatriði sem gefa sögunum lit og gera þær eftirminnilegar. Dæmi um það er samkeppnin um fuglahljóða-eftirhermur sem rædd er í næstu sögu, titilsögunni “Hegravarpið”, en í henni er framið morð sem einmitt snýst um fyrrnefnd átök borgar og sveitar og sem afhjúpar hið algera sinnuleysi landsbyggðarmenningarinnar sem Trembley er að gagnrýna. Sagan lýsir því hvernig fuglafræðingar uppgötva að í grennd við þorpið er auðugt hegravarp, en slíkt er sjaldgæft. Þeir flykkjast því reglulega til þorpsins og standa þar fyrir ýmsum viðburðum, meðal annars fyrrnefndri samkeppni um fuglahljóð. En svo finnst aðalmaðurinn myrtur, eftir að veiðivörðurinn, kunningi okkar úr fyrri sögunni, finnur fjölda skotinna hegra í griðlandinu. Í ljós kemur að hann veit vel hver skaut fuglana og manninn en til að vernda orðstýr þorpsins og trufla ekki stöðugleikann lætur hann sem hann viti ekkert, alveg eins og aðrir þorpsbúar, sem allir vita hver á sökina.

Í kjölfar þessarar sögu koma svo þrjár sem allar lýsa frekari hnignun og niðurlægingu, hégómlegum konum og körlum, fávisku og fordómum, með áhersluna á ‘reglur’ þorpssamfélagsins sem verður að vernda gegn utanaðkomandi áhrifum.

Bygging verksins er sérlega áhrifamikil, en eins og áður segir þá er fyrsta sagan látlaus og dálítið kómísk. Lesandi upplifir ákveðna hlýju í garð veiðivarðarins sem er svo hrekklaus og nýtur svo hins einfalda lífs sveitarómantíkurinnar að hann sér ekki óhamingju konu sinnar. Það er næstum svo að gagnrýnin beinist að konunni fyrir að láta sér ekki þetta þægilega líf nægja. Í sögunni af morðinu breytist hrekkleysi veiðivarðarins í óhugnað, þegar í ljós kemur að gildi þorpsins eru sett ofar lögum og reglu; einfaldleiki sveitarómantíkurinnar verður að þrúgandi ógn, sem aðkomufólk næstu tveggja sagna upplifir svo í einhverjum mæli. Síðasta sagan, “Síðasta krýningin”, er áhrifamikil saga um mann sem snýr aftur til þorpsins eftir langa fjarveru, með honum er kona hans sem er ekki með öllu sátt við flutninginn og veikist af krabbameini og deyr. Í sögunni er lýst áhugamáli mannsins við að taka til ljósmyndabók um þorpið, jafnframt því að hnignunin virðis vera orðin alger. Ljósmyndabókin verður því að einskonar minnisvarða, sem lýsir horfnum heimi og er jafnframt sönnunargagn um gildi hans. Samhliða þessu er krabbamein konunnar augljóst tákn um það hvernig þessi gildi, sem kannski einhverntíma voru ‘góð’, hafa úrkynjast.

Í næstsíðustu sögunni er sagt frá rithöfundi í þorpinu sem nýtur mikillar virðingar þar fyrir skrif sín sem eru ‘sannar sögur’ úr sveitinni. Það má gera ráð fyrir að þær séu allar frekar ólíkar þeim sem Lise Trembley segir, en í formála er því lýst hvernig bók hennar er einnig einskonar safn ‘sannra sagna’ úr smáþorpi í Québec-fylki, og vakti ekki lukku þar. Formáli þessi er sérlega góður og setur verk Trembley í samhengi við kanadískar bókmenntir auk þess að ræða önnur verk hennar - sem vonandi finnast á íslenskum bókasöfnum, því ef þau eru jafngóð og Hegravarpið þá hugsa ég mér gott til glóðarinnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, mars 2008


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Skáldið á daginn | 26.05.2010
Snemma í ljóðabók Jóhamars, Skáldið á daginn, er ‘viðtal’ við höfund. Þar leggur hann áherslu á mikilvægi súrrealismans fyrir verk sín, og nefnir líka Dag Sigurðarson, Alfreð Flóka, James Joyce og Jeff Noon. ...
Hegravarpið | 25.05.2010
Átökin milli sveitar og borgar eru ekki lengur sérlega heitt viðfangsefni í íslenskum bókmenntum, þó fyrirbærið sem slíkt sé lifandi sem aldrei fyrr. ...
Hjartaborg | 25.05.2010
Í einu prósaljóðanna í ljóðabókinni Hjartaborg eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson birtist ljóðið eiginlega sem einskonar draugur, eða reimleikar. ...
Hvernig konurnar stöðvuðu blásturinn eftir Bruce McMillan, málverk eftir Gunnellu, í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar; Vel trúi ég þessu! Tólf munnmælasögur með myndum eftir tólf teiknara, Rósa Þorsteinsdóttir valdi sögurnar ...
Það var þónokkuð forvitnilegt að fá í hendur nýja skáldsögu nýs höfundar sem sker sig nokkuð úr því sem kalla mætti (eða alhæfa sem) íslenska skáldsagnahefð ...
Nonni og Selma | 25.05.2010
Það er athyglisvert að sjá hvernig bókmenntaleg viðmið og gildi virðast hafa ólíkt vægi eftir því hvort um er að ræða barnabók eða fullorðinsbók. ...
Það er víst óhætt að segja að myndasagan hafi löngum verið fyrirferðalítil í íslenskri bókaútgáfu. Þar ber hæst þýðingar á evrópskum og bandarískum myndasögum, aðlaganir á Njálu og Laxdælu, að ógleymdum Pétri og vélmenninu. ...
Kossar og ólífur er önnur unglingabók Jónínu Leósdóttur en sú fyrri, Sundur og saman, kom út fyrir fjórtán árum, 1993. Í Kossum og ólífum segir frá Önnu sem býr austur í Vík og er að ljúka 10. bekk. ...
Góða nótt, sofðu rótt eftir David Melling, í þýðingu Sigrúnar Á. Eiríksdóttur; Hundurinn, kötturinn og músin eftir Bárð Oskarsson, í þýðingu Sigþrúðar Gunnarsdóttur; Sjóræningjar skipta ekki um bleiur eftir Melindu Long, með myndum eftir David Shannon, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar; Sylvía og drekinn eftir Lawrence Schimel, með myndum eftir Söru Rojo Pérez, í þýðingu Kristínar Birgisdóttir ...
Þótt algengt sé (bæði á bókasöfnum og meðal almennra lesenda) að flokka afþreyingarbókmenntir í tilteknar tegundir, fantasíu, hrollvekju, spennusögu og svo framvegis, þá eru mörkin milli bókmenntagreina alls ekki alltaf skýr. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál