Síðdegi

Vilborg Dagbjartsdóttir.

JPV útgáfa, 2010

Grimmur vetur og gleði

Það er gleðin sem er mest áberandi í ljóðum Vilborgar Dagbjartsdóttur í nýjustu bók hennar, Síðdegi, þótt vissulega séu myrk ljóð innanum. Hér er lífinu fagnað, ekki síst fyrir það að síðdegið er komið og þótt ótti geri á stundum vart við sig þá er gleðin yfir lífinu meiri. Þetta kemur skýrast fram í ljóðinu „Viðhorf”, þar sem ljóðmælandi hafnar því að dagarnir færi hana nær dauðanum og hún þræðir þá „eins og skínandi perlur / upp á óslitinn / silfurþráðinn”. Þó silfrið sé komið í hárið þá eru dagarnir jafn skínandi. 

Tíminn er Vilborgu nokkuð hugleikinn í þessum ljóðum, en bókin er tileinkuð eiginmanni hennar heitnum, Þorgeiri Þorgeirsyni. Þetta kemur meðal annars fram í ljóðum sem lýsa kvöldum, hauströkkri og viðlíka hreyfingu tímans, auk minninga. Eins og kemur fram í ljóðinu „Viðhorf” er viðhorf ljóðmælanda til tímans ekki óttablandið heldur einkennist af yfirvegun og sigurvissu. Annað dæmi um þetta er í ljóðinu „Næturvakt” en þar situr ljóðmælandi „Á lengsta degi ársins” og saumar „rósir / í ljósadúk”. Dúkinn ætlar hún að eiga þegar „nóttin er lengst / og myrkrið svartast”. Hún stendur stolt næturvaktina þegar rökkvar stundarkorn og bíður þess að sólin sýni sig á ný. Bókinni lýkur á hækum sem fjalla um árstíðirnar, „Árstíðirnar í húsinu”, og eru sumar þeirra með því áhrifamesta sem ég hef lesið eftir Vilborgu. Sumarið birtist í líki býdrottningarinnar, haustvindurinn flettir í bók ljóðmælanda sem skilur nokkur rifsber eftir handa þröstunum. Veturinn er sýnu öflugastur, það er myrkur og stormur og ljóstýrur virðast ógnandi:

Um myrkurhafið
hlykkjast röð götuljósa
sem eldforn ormur.

Á dökkum himni
grillir í örmjóa rönd
af nýjum mána.

Myrkrið ógnar ljóðmælanda og stormurinn skekur húsið. En svo birtir skyndilega og við tekur dásamleg mynd af þöglum og kyrrum heimi þegar húsið breytist í snjókúlu:

Stór dúnlétt snjókorn
svífa í hvítalogni
og aldýpstu þögn.

Stemningin er næstum barnsleg, enda tekur vorið svo við með tilheyrandi döggvotum og hreinum heimi.

Vilborg er ein af hinum upphaflegu rauðsokkum og hefur alla tíð látið málefni kvenna til sín taka. Þetta kemur greinilega fram í ljóðunum í Síðdegi, en segja má að staða konunnar sé annað helsta tema bókarinnar. Fyrsta ljóðið heitir „Fjallkonan”, en þar veltir skáldkonan fyrir sér jarðneskum leifum konu frá víkingaöld sem fundust á Vestdalsheiði árið 2004. Ljóðið var flutt á þjóðhátíðardaginn 2005 og er verulega smart lýsing á því hver konan mögulega var. Hér fannst mér sérstaklega gaman að skoða ljóðið í samanburði við fornsagnaljóð Gerðar Kristnýar, en hún er ein af þeim fjölmörgu skáldkonum sem er undir áhrifum frá öflugum kvennaljóðum Vilborgar. Meðal annars birti Gerður sitt eigið fjallkonuljóð í Höggstað árið 2007 og þessi tvö ljóð tala hvort til annars á ánægjulegan hátt.

Húmorinn er hinsvegar allsráðandi í ljóði um Guðrúnu Ósvífursdóttur sem nefnist „Kjartan og Bolli” en þar er sagan heimfærð uppá nútímann (miðaldra dama sem leigir út herbergi) og í lokin minnir skáldkonan á að „Véfréttarsvar hennar / getur eins verið fleirtala”. Hin kvenlega sýn kemur að auki víða við, eins og í fyrrnefndu ljóði um dúkinn og svo í því ljóði sem af einhverjum ástæðum kitlaði mig allra mest, „Skyggni”. Þetta er prósaljóð sem lýsir sýn, en ljóðmælandi lýsir því hvernig hún „frá barnæsku” hefur “haft þann hæfileika að sjá sýnir, ýmist með opnum augum skýrt og greinilega, svo að ég hélt að um raunveruleika væri að ræða þótt annað kæmi á daginn, ellegar með lokuðum augum, furðulegar sýnir sem síðar reyndust ósjaldan eiga sér stoð í hlutveruleikanum.” Sýnin sem hún lýsir í ljóðinu er svo af borði, en á því stendur stafli af nýbökuðum pönnukökum, „þó aðeins farnar að kólna og sykurbráðin storknuð inn í þær.” Sýnin hverfur þegar hún opnar augun og hún er „mjög undrandi á þessum fyrirburði og mér er spurn: Hvers vegna borð?”

Fyrir utan tengingar við húsmóðurhlutverkið og spádómsgáfu kvenna þá er hér að finna einhvern dásamlega grallaralegan húmor, sem ruglar allar væntingar. Vissulega mætti sjá einhverskonar líkkistutilvísun í borðinu, sem er nákvæmlega lýst, en í verkum Gyrðis Elíassonar er trésmíði og timbur iðulega á einhvern hátt tengt dauðanum. Þó er það þessi hárfíni húmor sem grípur mig fyrst og fremst og felst í raunveruleikatengingu sýnanna: með opnum eða lokuðum augum. Á vissan hátt er hér ljóðinu sjálfu lýst, en það býr einmitt einhverstaðar á þessum margræðu mörkum, vekur upp sýnir og fyrirburði og skapar með lesandanum spurningar og vangaveltur.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2010Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál