Morgunengill

Árni Þórarinsson

JPV útgáfa, 2010.

Englar og djöflar fyrir norðan og sunnan

Það er forvitnilegt að bera saman káputexta bókar Ragnars Jónassonar, Snjóblinda, og titil bókar Árna, Morgunengill. Í fyrrnefndu bókinni er talað um að kona líkist snjóengli þar sem hún liggur slösuð í snjónum á Siglufirði. Árna fórnarlamb er búsett í næsta bæ, Akureyri, og þar hlustar morðinginn á lagið Morgunengil. Hvort þessar bækur eiga annað sameiginlegt ætla ég að láta lesendum eftir að komast að.

Morgunengill er sjöunda bók Árna Þórarinssonar sem fjallar um blaðamanninn Einar og glæparannsóknir hans. Einar er blaðamaður á Síðdegisblaðinu og hefur sem slíkur verið starfandi á Akureyri í nokkur ár auk þess sem hann vann um tíma á Ísafirði, en Ísafjörður er  sögusvið Sjöunda sonarins sem út kom 2009.

Í upphafi Morgunengils er Einar kominn aftur til Akureyrar og rannsakar þar óhugnalegt morð á bréfbera í bænum. Dvöl hans á Akureyri er þó stutt, hann er sendur til Reykjavíkur, meðal annars til að taka viðtal við fyrrum útrásarvíking  sem nú er skuldum vafinn og stendur í skilnaði. Skömmu eftir að viðtalið birtist hverfur dóttir auðmannsins og Einar fær annað sakamál til rannsóknar sem, alla vega í fyrstu, virðist ekkert eiga sameiginlegt með myrta bréfberanum fyrir norðan.  Inn í söguna fléttast síðan árás á aldraða nágrannakonu Einars og gamlar vinkonur stinga upp kollinum, önnur er fyrrum ástkona hans og AA félagi, hin lögreglukona að vestan. Samstarfsmenn á blaðinu koma við sögu, sérstaklega Sigurbjörg sem tók við starfi hans fyrir sunnan, auk þess sem segir frá samskiptum  Einars -  og samskiptaleysi  - við aldraða foreldra og dótturina Gunnsu og kærasta hennar.

Sagan er að mestu sögð frá sjónarhóli Einars en er brotin upp með frásögn auðmannsdótturinnar. Hún gerist í nútímanum og kaflarnir bera nöfn eins og mánudagur síðdegis, þriðjudagur o.s.frv. Þetta er þriðja nýja íslenska glæpasagan sem ég les þar sem þessi háttur er hafður á, en í bókum þeirra Ragnars Jónassonar og Ævars Arnar eru kaflar einnig nefndir eftir dögum.

Einar er að mörgu leyti hinn dæmigerði  blaðamaður sem lesendur norrænna krimma kannast við, til dæmis úr sögum Dans Turell. Einar hefur þó einn stóran kost umfram norræna kollega sína, hann er hættur að drekka og ég verð að viðurkenna að ég kann miklu betur við hann eftir það. Edrúmennskuna á hann reyndar sameigninlega með aðalpersónu Lilju Sigurðardóttur, Magna, en ólíkt Magna er Einar ekkert að velta sér uppúr vandamálinu.

Mér finnst alltaf skemmtilegt að skoða íslenska krimma í samanburði hver við aðra, hvar halda menn sig innan hefðarinnar og hvað er nýtt og spennandi. Útrársarvíkingar og glæpir þeim tengdir eru mikið til umfjöllunar þessi árin, enda trúi ég að erfitt sé fyrir rithöfunda annað en að notfæra sér þessa ótæmandi uppsprettu svika og pretta.

Morgunengill er skemmtileg aflestrar og Árni fær fullt hús fyrir plottið. Þetta er fyrsta sagan sem ég les  á þessu ári þar sem ég var ekki búin að sjá endinn fyrir! 

Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, nóvember 2010.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál