Brúður

Sigurbjörg Þrastardóttir

JPV útgáfa, 2010.

Draumur okkar beggja

Titillinn á ljóðabók Sigurbjargar Þrastardóttur, Brúður, er skemmtilega tvíræður í málfræðilegum einfaldleika sínum. Brúður er eintöluorðið yfir konu sem er að fara að gifta sig en í fleirtölu er orðið brúður notað um leikföng í mannslíki, einnig nefnd dúkkur. Fleirtöluorðið brúður vísar ennfremur í leikhúsfyrirbærið leikbrúður eða strengjabrúður og brúðuleikhús. Allt þetta og meira kemur svo fram í bókinni sjálfri, en þar leikur skáldkonan sér með brúðir eins og þær væru brúður eða strengjabrúður, setur í raun upp einskonar brúðuleikhús með brúðum sínum.

Nú er ég auðvitað að ganga of langt og tapa mér í orðaleikjum, en freistingin er bara ómótstæðileg, sérstaklega með tilliti til þeirrar vafasömu sýnar sem margar konur hafa á fyrirbærið brúði (og brúðurnar sem (aðallega) stelpur leika sér með). Brúðurin er í senn (að sögn) draumur hverrar konu um að vera í það minnsta einn dag í lífi sínu einskonar drottning (í það minnsta prinsessa), uppáklædd í hvítt, umkringd þeirri hamingju sem fylgir því að ‘ganga út’. Stærsti dagurinn í lífi hverrar konu, upphafið á hamingjusömu lífi, grundvöllur fjölskyldunnar og allt það. Í ástarsögum er brúðkaupið hámark sögunnar, markmið hennar og viðmið, fyrir kvenpersónuna gengur allt út á að gifta sig - helst vel. Hin femíníska sýn sér brúðina hinsvegar sem leiksopp kynjaímynda hins borgaralega samfélags, uppáklædda (strengja)brúðu sem gengst inná hlutverk sitt í brúðuleikhúsinu. Titillinn á frægu leikriti norska leikskáldsins Henrik Ibsen um konu sem flýr hamingju heimilislífsins því hún upplifir þar ekkert annað en innilokun og lítilsvirðingu endurspeglar þessa sýn; Brúðuheimili.

Allar þessar ímyndir og fleiri koma fyrir í Brúðum Sigurbjargar, en eins og segir á baksíðu bókarinnar inniheldur hún ‚sextíu texta um giftingar (víraða og fagra)‘. Tvö ljóð ramma bókina inn og segja sitt um meginmálið. Fyrsta ljóðið nefnist „glaumur” og er sagt í fyrstu persónu en þar ætlar ljóðmælandi að gifta sig „innan / um ísbirnina”, „einn til austurs” og „annar til norðurs”. Fyrir aftan er „húnn að leik” og brúðurin er „bálhvít / í myrkrinu / við þrjú og húnninn”. Hér þarf að bakka og telja. Yfirleitt eru það tveir sem deila hjónabandi, en hér eru skyndilega þrír. Brúðgumi hefur aldrei verið nefndur og því hlýtur lesanda að gruna að brúðkaupið sé einnar konu gaman, hinir tveir séu ísbirnirnir, einn í austri og annar í norðri. Hefðbundnari túlkun gæti líka verið að hinir tveir séu brúðguminn og presturinn, en þó virkar það ekki sérlega sannfærandi.

Lokaljóðið heitir „draumur” og lýsir, eins og titillinn gefur til kynna, draumi sem merkilegt nokk er um brúðkaup. En það er hinsvegar frekar ókennilegt eins og svo margt í heimi draumanna, salurinn er ekki bara ókunnur, heldur „ekki sérlega snotur” og ljóðmælandi (sem er greinilega brúðurin) þekkir „ekki helminginn af fólkinu, veit ekki einu sinni hver brúðguminn er eða hvers vegna hann er hvergi sjáanlegur” (kannski er hann sár yfir að fá ekki að vera með í fyrsta ljóðinu?). Og hún veltir fyrir sér af hverju hana dreymir þetta, „en í gær var maður í þykkum hosum á línunni frá landi þar sem rigningin er svört”. Hér glittir í orðaleik, en það að gera hosur sínar grænar fyrir einhverjum vísar til þess að biðla til þess aðila.

Að öðru leyti skiptist bókin í þrjá hluta og er hver einskonar ljóðabálkur um brúðkaup og brúðir. Þó er ljóst að bókin er einskonar heild í sjálfu sér, því í fyrsta ljóðinu (eftir inngangsljóðið) kemur Þrúður nokkur við sögu og hún snýr til baka í því síðasta (fyrir eftirmálaljóðið), en þar er hún enn íklædd brúðarkjólnum að sinna heimilisstörfum (bora gat fyrir gardínustöng) þegar eiginmaðurinn segir: „Þrúður mín, farðu úr þessum kjól. Þú ert eins og trúður.” Hvað á lesandi að halda hér? Þetta eru jú lokaorð bókarinnar og má þá gera ráð fyrir að allar hinar brúðirnar séu líka eins og trúðar, uppáklæddar í sína tertukjóla með slörið út um allt?

Slörið kemur reyndar víða við og slær annað slagið saman við slor, sem er óneitanlega dásamlega gróteskt:

stúlkan með slörið

stúlkan með slorið gengur inn eftir
rústrauðum
dreglinum, það er drifhvítt og hún í glansandi
stígvélum, svuntan hvít og taumar í henni,
hárið hrafntinna og flæðir í hvítu netinu, stúlkan
öslar með slorugan hnífinn
eins og liljuvönd undir brjóstinu og syngur sjómannaslagara

Kannski er hér verið að lýsa brúðkaupi hinnar vinnandi konu, eða kannski er hin vinnandi kona, íklædd sínum haldgóðu vinnufötum og umkringd linnulausri skjannahvítri birtu frystihússins og rauðum blóðtaumunum úr öllum dánu fiskunum að ímynda sér að hún sé brúður?

Blóð og annarskonar slor kemur svo fyrir í öðru ljóði í sama hluta, en þar fæðir brúðurin barn í miðri athöfn, „fylgjan / vart gengin fram af móðurinni / þegar hún / er staðin upp og / gengin inn kirkjugólfið öðru sinni // í bleikroðnum kjól”. Þriðja útgáfan af slörinu er þegar það fýkur til í roki og minnir á „útfrymi á miðilsfundi”.

Hér er ekki úr vegi að minnast sagna Svövu Jakobsdóttur um giftingar, „Gefið hvort öðru” og „Krabbadýr, brúðkaup, andlát”, að ekki sé minnst á fleiri af hennar módernísku fantasísku smásögum sem fjalla um stöðu kvenna á heimilinu („Saga handa börnum”, „Þegar skrúfað var frá krananum í ógáti”, „Eldhús eftir máli“). Að einhverju leyti svífur andi hennar yfir vötnum, en þó er tóntegundin önnur hjá Sigurbjörgu, fórnin er til dæmis að mestu horfin og öllu írónískari sýn komin í staðinn. Þó væri rangt að halda því fram að Brúður sé neinskonar háðsádeila á brúðir og brúðkaup (nokkrir brúðgumar koma við sögu, en þeir falla dálítið í skugga brúðanna), til þess eru textarnir allt of margradda, eins og kemur svo fallega fram í slorljóðinu. Hér er lýst bæði þrautsegju (brúðurin sem gengur aftur upp að altarinu eftir fæðinguna) og þreytu, en líka gleði, villtu kynlífi (sem er reyndar ekki beint lýst, bara gefið í skyn), vandræðalegum uppákomum í veislunum og víruðum myndatökum. Eitt ljóðið sýnir fóstbræðralag og í öðru er brúðurin marin eftir kjólinn. Þannig takast á ýmsar hugmyndir um þann samning sem hjónaband felur í sér, allt í bland við fjölbreyttar ímyndir brúðarinnar sjálfrar, væntinga hennar og vona.

Það er merkilega hógvær stemning í þessum ljóðum, þrátt fyrir að þau fjalli um þennan hápunkt í lífi konunnar (og jafnvel mannsins). Það þýðir þó ekki að ljóðin séu máttlaus eða linkuleg á neinn hátt, þvert á móti þá er heimur brúðanna ákaflega heillandi og ánægjulega ófyrirsjáanlegur. Myndir Bjargeyjar Ólafsdóttur eiga svo sinn þátt í því að gefa bókinni heildstætt yfirbragð.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál