Ljóð af ættarmóti

Anton Helgi Jónsson

Mál og menning, 2010.

Tilvistarlegt ættarmót

„Hver erum við? / Hvar erum við? / Erum við / við?” Svona hefst eitt ljóðanna í Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson. Þetta er afskaplega kunnugleg tilvistarleg spurning sem öðlast nýtt líf í þessu samhengi, því þótt ættarmótið sjálft komi aldrei til tals utan titlisins, þá er óhjákvæmilegt að lesa ljóðin í ljósi þess. Þannig verða spurningarnar áhugaverðar á nýjan hátt, því ættarmótið sem vísað er til má skoða í stærra samhengi - nei ekki mennskunnar allrar heldur örsamfélagsins Íslands: „Ég get ekkert sagt. / Ég er sonur mömmu. / Ég er frændi. Ég er mágur. Ég er vanhæf.” Bókin endar svo á því að elsti Íslendingurinn deyr, aftur: „Elsti Íslendingurinn er látinn. Lifi elsti Íslendingurinn.”

Anton Helgi Jónsson kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1974 með ljóðabókinni Undir regnboga, þá aðeins nítján ára gamall. Síðan hefur hann sent frá sér tvær ljóðabækur og birt ljóð í tímaritum og safnritum, auk þess að gefa út skáldsöguna Vinir vors og blóma 1982. Nú síðast gaf hann út bókina Hálfgerðir englar og allur fjandinn (2006), en hún er í smáu broti og innheldur myndljóð af ýmsu tagi, sem höfundur kallar tilbrigði við limrur. Á heimasíðu hans, www.anton.is, má finna fleiri myndljóð sem hægt er að nota sem skjámyndir á tölvum. Þar er einnig hægt að heyra skáldið lesa upp. Þrátt fyrir ýmsa útgáfu hefur lengi vel ekki borið mikið á höfundi, en þessi nýja bók, Ljóð á ættarmóti, hefur þó vakið verðskuldaða athygli.

Annað einkenni bókarinnar sem ein tilvitnanana hér að ofan leiðir í ljós er kynjaflöktið, sem í þessu tilfelli kemur til af því að raddirnar eru margar og af öllum kynjum. Stundum er jafnvel skipt um kyn í miðju ljóði, eins og hér að ofan. Þannig skapast furðulega skemmtileg tilfinning fyrir margröddun (afsakið), einskonar mennsku fuglabjargi þar sem hver talar upp í annan, segir sögur af sér (eða ekki), sumar raddir láta mikið fyrir sér fara, aðrar - flestar - eru hljóðlátar og íhugular. Hver er ég í þessu samhengi á þessum stað?

Og það er svo sannarlega ýmislegt sem kemur upp. Fyrsta röddin svarar spurningunni um „hvað hafi orðið úr mér” og segist hafa „gert ágætis mistök”. Önnur man hvernig var þegar hún fæddist: „Svartþröstur hoppaði um garðinn. / Þrífættur köttur gægðist fyrir horn.” Tvö ljóð lýsa landinu og landsbyggðaflóttanum. Landið er svona: „Grjót. Mosi. Vatn.” í sex mismunandi útgáfum. Og þegar gamli bóndinn, sá sem hélt út hvað lengst á jörðinni dreymir að Lykla-Pétur leiði hann inn í himnaríki, sér hann engan sem hann þekkir: „Þitt fólk er ekki hér, svaraði Pétur. / Þitt fólk er allt farið suður.”

Hér birtist húmorinn sem einkennir mörg ljóðanna, þó kannski sé ekki beint um hefðbundna íslenska fyndni að ræða. Ekki er þetta heldur beint írónía, heldur frekar einhverskonar íhugul kímni með grátbroslegum undirtónum eins og í ljóðinu um ellilífeyrisþegann sem er hættur störfum en þó ekki gagnslaus: „Ekki batnar mér samt af ellinni.”

Nokkuð er um innihaldslausar samræður, einn biður um saltið en enginn heyrir í honum og svo má ekki gleyma hinu klassíska: „Við verðum að fara að hittast.” Morðinginn er þarna líka, „Heldur hann að allt sé gleymt?”, „Hvað er maður lengi morðingi? / Hvað er maður lengi maður?” Enn halda tilvistarlegu spurningarnar áfram. Einum finnst leiðinlegt fólk skemmtilegast, því það tekur ekki athyglina af honum og svo er það sagan um aðalskutluna, sem eignaðist börn og gerir síðan ekkert annað en skutla þeim.

Það sem er kannski mest áberandi er þó einmanaleikinn, sem er vissulega annað kunnuglegt ljóðstef, en lifnar í þessu samhengi ættarmótsins. Ein vaknar alltaf ein, og önnur hefur ekki fengið boðskort. Í þá þriðju er aldrei hringt, hvorki sölumenn né skoðanakannanir ónáða hana yfir matnum. Einn hittir þarna fyrir kvíðann og er feginn að þekkja þó einhvern, en svo eru það líka ljóðin sem fjalla um þörfina fyrir að sleppa undan sjálfum sér, en hvorki barinn né það að flytjast til annarra landa dugir. Enn einn er fullur af óljósri löngun í eitthvað, en það er ekkert sem freistar í ísskápnum.

Kannski eru það einmitt örlög Íslendingsins, að vera alltaf einn og alltaf að bíða eftir einhverjum öðrum, eins og segir í einu ljóðinu:

Íslendingur er maður
sem leitar að öðrum.

Á krá erlendis
líta fæstir upp úr kollunni
þótt einhver síðbúinn komi inn.

Bara einn lítur til dyra.
Hann væntir þess alltaf að hitta annan.

Á þennan hátt byggist upp dálítið mögnuð tilfinning fyrir óþoli í ljóðunum, allir eru á einhvern hátt að leita að einhverju, óska eftir einhverju, sambandi, friði, tengslum, því að láta ljós sitt skína eða bara að segja sögu sína. Raddirnar tala hver upp í aðra og það er ljóst að þarna á sér ekki stað neitt samtal milli þeirra, heldur hljóma þær allar hver úr sínu horni. Þó er ljóst að margar þeirra eiga ýmislegt sameiginlegt, eins og til dæmis þessa leit, eða þörf fyrir leit.

Er þetta niðjatalið?

Já, þetta er niðjatalið.
Svona tala niðjarnir.


Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Húfulaus her
Húfulaus her | 22.12.2010
Húfulaus her jólasveina barst mér í umslagi um daginn. Umslagið er partur af „ritröð um menningu og mannlíf með ritgerðum, greinum, sögum, ljóðum og myndverkum”, segir aftan á umslaginu. Fyrsta umslagið var ljóðaumslagið Sjöund, með ljóðum eftir Gunnar Hersvein, hannað af Sóleyju Stefánsdóttur, sem hafði veg og vanda af þessari einstöku og fersku útgáfu á bókarformið. Umslagið er nefnilega ekki aðeins umbúðir heldur hluti af ritverkinu sem heftað er inn í það. Allt er þetta ákaflega skemmtilegt og sniðugt og býður höfundum upp á ýmsa leiki í máli og myndum, auk þess að gleðja lesandann voðalega því það er svo spennandi að sjá hvað kemur upp úr umslaginu hverju sinni. ...
Morð fyrir luktum dyrum
Morð fyrir luktum dyrum barst mér í umslagi um daginn. Umslagið er partur af „ritröð um menningu og mannlíf með ritgerðum, greinum, sögum, ljóðum og myndverkum”, segir aftan á umslaginu. Fyrsta verkið var ljóðaumslagið Sjöund, með ljóðum eftir Gunnar Hersvein, hannað af Sóleyju Stefánsdóttur, sem hafði veg og vanda að þessari einstöku og fersku útgáfu á bókarformið. Umslagið er nefnilega ekki aðeins umbúðir heldur hluti af ritverkinu sem heftað er inn í það. Allt er þetta ákaflega skemmtilegt og sniðugt og býður höfundum upp á ýmsa leiki í máli og myndum, auk þess að gleðja lesandann, því það er svo spennandi að sjá hvað kemur upp úr umslaginu hverju sinni. ...
Martröð millanna
Martröð millanna | 20.12.2010
Síðan íslenskar glæpasögur fóru að ryðja sér til rúms hér á landi á hafa reglulega komið upp raddir sem fordæma þessa tegund bókmennta og harma ágang hennar á góðan smekk og gengi fagurbókmennta. Í slíkri umræðu er sjaldnast gerður greinarmunur á glæpasögum, þeim er skipað saman í einn flokk, án nokkurrar meðvitundar um að reyfarar eru fjölskrúðug skepna sem gefur stundum vel af sér, stundum ekki. ...
Sjáðu svarta rassinn minn
Ég var ekki há í loftinu þegar ég byrjaði að drekka í mig íslenskar þjóðsögur og ævintýri (er það reyndar ekki enn), en þetta menningaruppeldi æskunnar er án vafa mitt mikilvægasta. Þjóðsagnaarfurinn er óþrjótandi uppspretta þekkingar og hugleiðinga og hefur nýst rithöfundum sem innblástur, nú síðast má sjá ummerki draugasagnahefðarinnar í skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig. Sú bók hefur einmitt notið mikilla vinsælda, sem segir sitt um þorsta lesenda eftir almennilegum útgáfum á þessum oft afskipta menningararfi (sem að mínu mati er margfalt merkilegri en þetta Íslendingasagnadót sem allir eru alltaf að mæra). Nokkrar myndabækur sem byggja á þjóðsagnagnægtinni hafa komið út á undanförnum árum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum gaf árið 2007 út sagnasafnið Vel trúi ég þessu ...
Eyru Busters
Eyru Busters | 17.12.2010
Eva er kona á sextugsaldri sem lifir friðsælu lífi í gömlu sumarhúsi á vesturströnd Svíþjóðar ásamt sambýlismanni sínum. Hún heldur lauslegu sambandi við vini sína til margra áratuga og reynir að rækta sambandið við börnin sín og barnabörn. Allt er því í föstum skorðum. Svo virðist alla vega vera, séð utan frá. Þegar hún fær fallega dagbók í afmælisgjöf frá barnabarni sínu byrjar hún nefnilega að ljúka upp Pandóruboxi fortíðarinnar ...
Ljóð af ættarmóti
„Hver erum við? / Hvar erum við? / Erum við / við?” Svona hefst eitt ljóðanna í Ljóð af ættarmóti eftir Anton Helga Jónsson. Þetta er afskaplega kunnugleg tilvistarleg spurning sem öðlast nýtt líf í þessu samhengi, því þótt ættarmótið sjálft komi aldrei til tals utan titlisins, þá er óhjákvæmilegt að lesa ljóðin í ljósi þess. Þannig verða spurningarnar áhugaverðar á nýjan hátt, því ættarmótið sem vísað er til má skoða í stærra samhengi - nei ekki mennskunnar allrar heldur örsamfélagsins Íslands: „Ég get ekkert sagt. / Ég er sonur mömmu. / Ég er frændi. Ég er mágur. Ég er vanhæf.” Bókin endar svo á því að elsti Íslendingurinn deyr, aftur: „Elsti Íslendingurinn er látinn. Lifi elsti Íslendingurinn.” ...
Stolnar raddir
Stolnar raddir | 14.12.2010
Stolnar raddir er fyrsta skáldsaga Hugrúnar Kristjánsdóttur og samkvæmt Gegni, samskrá bókasafna, hefur ekkert annað komið út eftir hana. Ég vissi því ekkert á hverju ég átti von þegar ég hóf lesturinn. Eins og nær allar aðrar nýjar bækur sem ég hef lesið fyrir þessi jól hefst sagan á dagsetningu sem er þægileg leið til að ramma inn sögutímann. Söguhetjan, Sóllilja, fylgist með ömmu sinni koma heim og fer í framhaldi af því að rifja upp atburði sem áttu sér stað nokkrum mánuðum áður. ...
Vísnafýsn | 13.12.2010
Að mörgu leyti virkar ljóðabók Þórarins Eldjárns, Vísnafýsn, eins og barnabók fyrir fullorðna. Þetta segi ég ekki ljóðunum til minnkunnar, enda hafa barnaljóð Þórarins notið fádæma vinsælda auk þess sem verk hann fyrir fullorðna njóta mikillar virðingar. Það sem ég á við er að þeir sem hafa alist upp við barnakvæði Þórarins ættu að finna ákveðin samhljóm í vísum Vísnafýsnar, en þar ríkir sami léttleikinn og einkennir barnakvæðin, þrátt fyrir að viðfangsefnin séu nokkuð önnur. Vísnafýsn inniheldur ferskeytlur og aðrar stuttar vísur ortar undir hefðbundnum háttum, í þeim afslappaða tón sem einkennir slíkan skáldskap Þórarins allt frá því að hann sló í gegn með Disneyrímum (1978). ...
Missir
Missir | 13.12.2010
Setningin, „Vatnið suðar í katlinum”, segir ansi mikið um söguna Missi eftir Guðberg Bergsson. Setningin birtist á fyrstu síðu þessarar stuttu skáldsögu sem ber undirtitilinn „Stuttsaga” og fjallar um aldraðan mann sem hefur nýlega misst konu sína. Hann saknar hennar, og þó ekki, því hjónabandið hefur greinilega verið nokkuð stormasamt og veikindi konunnar erfið og langvarandi. Því er söknuður kannski ekki rétta orðið, missinum fylgir ekki endilega - eða einungis - söknuður heldur skilur hann eftir sig tómarúm, gat í lífið sem gamla manninum reynist erfitt að fylla upp í. ...
Þokan
Þokan | 10.12.2010
Ég efast um að ég hafi lesið meiri texta eftir nokkurn mann annan en Þorgrím Þráinsson í barnæsku minni. Ekki bara var ég sammála flestum jafnöldrum mínum um það að Tár, bros og takkaskór væri líklega besta bók í heimi, Þorgrímur ritstýrði nefnilega líka og skrifaði mestallt efni í Íþróttablaðið, uppáhaldsblað okkar bræðranna sem foreldrar okkar voru svo góðir að leyfa okkur að vera áskrifendur að. Þau blöð lúslas maður samviskusamlega frá upphafi til enda, síendurtekið þangað til að þau voru við það að detta í sundur. Maður kunni því næstum því vel við Þorgrím Þráinsson, ekki meira en það þó. Allir hans kostir náðu nefnilega ekki alveg að vega upp á móti hans stóru synd í augum ungra Vesturbæinga. Hann var jú auðvitað bölvaður Valsari. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál