Ljósaskipti
Stephanie Meyer. Magnea J. Matthíasardóttir þýddi.

JPV útgáfa, 2008

Kvenhetja í hættu

Skrýmslið hefur löngum verið ákaflega vinsælt viðfangsefni skáldskapar. Það er eitthvað ómótstæðilegt við það hvernig óvættin ræðst á öll viðtekin gildi og leggur samfélagið í rúst - um stund allavega. Þannig er skrýmsið fulltrúi óreiðunnar, upplausnar sem er bæði nauðsynleg og holl. Almennt séð þykir afstyrmið þó ekki sérlega fagurt og iðulega er djúpt á hinni eðlislægu hrifningu sem þó hlýtur að vakna þegar dýrið gengur laust. Því hefur vampýran tekið að sér það hlutverk að vera helsti fulltrúi þessa ógnar-afls skrýmslisins; vampýran er bæði falleg og fín, fáguð og (kyn)þokkafull, auk þess að búa yfir þeim ákaflega vinsæla og eftirsótta eiginleika að vera ódauðleg, jafnvel handhafi eilífrar æsku.

Ljósaskipti eftir Stephenie Meyer er nýjasti smellurinn á löngum lista af vinsælum vampýrum. Bókin kom upphaflega út árið 2005 og varð fljótlega afar vinsæl og hefur nú verið kvikmynduð. Ljósaskipti er sú fyrsta í seríu, en um þessar mundir er víst næsta ómögulegt að senda frá sér fantasíur öðruvísi en sem hluta af bókaflokki. Upphaflega var vampýran auðvitað persóna í hrollvekju, en á undanförnum árum hefur óvættin gengið í endurnýjun lífdaga í bókum sem kenndar eru við fantasíu frekar en hrylling, en slíkar höfða iðulega til yngri lesenda og kvenna (sem reyndar hafa alltaf verið dyggir vampýruaðdáendur). Í þessum sögum er sú rómantík sem löngum hefur sveimað yfir höfði vampýrunnar (en hún er einmitt skáldskaparlegt afkvæmi rómantíkurinnar snemma á nítjándu öld) gerð að aðalatriði og hrollurinn dempaður, þó vissulega sé hann enn til staðar.

Þannig er Ljósaskipti hluti af bylgju og sem slík kannski ekki endilega áhugaverðasti fulltrúi hennar. En sagan er ákaflega einföld og ákaflega dramatísk og mögulega hentar það best - allavega þegar kemur að því að velja verk til kvikmyndaaðlögunar. Meyer segist vera mikill aðdáandi breska höfundarins Jane Austen og það er bráðskemmtilegt að skoða hvernig vampýran, fulltrúi óleyfilegs kynþokka, fellur nákvæmlega inní nítjándu aldar rómantík. Því Ljósaskipti er unglingasaga, um sautján ára unglinga í Ameríku og því hlýtur kynlíf alltaf að vera nálægt - en jafnframt fjarri. Vampýran með alla sína bannhelgi er því fullkomið viðfang ástar í nútíma-rómönsu.

Aðalsöguhetjan er ung stúlka, Bella, sem flytur í kaldan og regnvotan smábæ til föður síns. Henni er lýst sem venjulegri stúlku sem þó sker sig úr fyrir klaufaskap. En það hlýtur að vera eitthvað meira sem heillar, því þegar hún byrjar í skólanum flykkjast strákarnir um hana - utan einn, ákaflega fríður piltur, sem forðast hana. Þó virðist hann ekki alveg laus við aðdáun og bjargar lífi hennar þegar hún verður næstum að klessu undir bíl. Eitthvað er sú björgun ævintýraleg og styrkur stráksa ekki eðlilegur - enda heldur Bella að hann sé ofurhetja úr myndasögubók. En í ljós kemur auðvitað að hann tilheyrir öðrum bókmenntum, vampýrusögum. Þau kolfalla hvort fyrir öðru og svo segir sagan frá sambandi þeirra og því hvernig Bella meðtekur sérstaka lifnaðarhætti kærastans - en svo heppilega vill til að hann er ‘góð’ vampýra, sem lifir á dýrum (meira að segja rándýrum), en ekki mönnum. En það eru ekki allar vampýrur svona góðar og Bella er skyndilega í hættu stödd.

Eins og áður sagði er sagan ákaflega einföld og í raun dálítið um of, því það vantar allmikið uppá uppbyggingu þeirrar hættu sem ógnar Bellu og brýst út með látum rétt undir lok bókarinnar. Þessi galli kemur þó ekki í veg fyrir að bókin sé skemmtileg aflestrar (fyrir utan nokkra dauflega kafla um miðbikið) og ágætis viðbót við vampýruflóruna. Reyndar má geta þess að það er heilmikil hefð fyrir því að vinsæl vampýruverk séu ekki sérlega mikil bókmenntaverk: Drakúla hins írska Abrahams Stokers þótti ekki - og þykir ekki enn - átakanlega mikil snilld (þó hún sé hátíð miðað við aðrar bækur kappans), né hafa bækur Anne Rice notið mikilla vinsælda bókmenntastofnunarinnar. Þó eru þetta bækur sem hafa öðlast gífurlega frægð og njóta linnulausra vinsælda.

Ég var ólýsanlega þakklát þegar ég sá að Magnea J. Matthíasardóttir fór þá leið að nota orðið vampíra í stað blóðsugu, en löngum hefur verið óþarflega vinsælt meðal íslenskra þýðenda að grípa til þess orðs og blanda þannig slímugum lindýrum óvænt inní sögur af fríðleiksfólki. Þýðing hennar er þó almennt dálítið köflótt, á stundum nær hún flottum köflum (sérstaklega þegar kemur að rómantíkinni og spennunni), en annars staðar höktir textinn og hefði alveg mátt við einni umferð með fægilegi. Þannig strandaði ég strax í fyrstu setningu: „Mamma ók mér út á flugvöll með galopna glugga” (11). En svo liðkaðist um og ég hvolfdi mér svikalaust í heillandi heim vampýrunnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2008


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Ljóðasafnið Flautuleikur álengdar markar aldarfjórðungs rithöfundarafmæli þýðandans Gyrðis Elíassonar, en árið 1983 sendi hann frá sér sína fyrstu bók, ljóðabókina Svarthvít axlabönd. Á þessum árum hefur Gyrðir markað varanleg spor í íslenskt bókmenntalandslag og sent frá sér tugi bóka, eigin verk og þýðingar, en þýðingastarf er mikilvægur hluti af höfundarverki Gyrðis. Þær bækur sem hann þýðir eru oft eftir áhrifavalda hans og höfunda sem standa honum nærri á einhvern hátt, og svo er einnig um Flautuleikinn, það er greinilegt að þessir flautuhljómar eiga ýmislegt skylt með tónum Gyrðis sjálfs. ...
Það hefur löngum verið hlutverk bókmennta að fjalla um samtímann eða endurspegla hann á einhvern hátt. Þannig hafa íslenskar bókmenntir undanfarinna ára komið inn á hið svokallaða góðæri (sem reyndar aðeins fáir upplifðu að einhverju ráði), efling íslensku glæpasögunnar hefur verið tengdur auknum glæpum og umfjöllun um umhverfisvernd hefur sömuleiðis verið áberandi. ...
Sólkross | 21.12.2010
Sólkross Óttars M. Norðfjörð kemur fast á hæla Hnífs Abrahams, og hefur verið kölluð sjálfstætt framhald hennar. Böndin milli bókanna eru þó lítil sem engin, nema að báðar eru spennusögur sem byggðar eru á einhverjum fræðilegum grunni sem lesendur eru hvattir til að íhuga. Skyldleiki Hnífs Abrahams við sögur Dan Browns var ljós og nokkuð tíundaður, Sólkross er á sömu línu en að þessu sinni eru leyndarmál fortíðarinnar grafin á Íslandi, nánar tiltekið á Suðurlandsundirlendinu. ...
Sjöundi sonurinn | 21.12.2010
Tíu ár eru nú liðin frá því að fyrsta skáldsaga Árna Þórarinssonar, Nóttin hefur þúsund augu, kom út. Á þessum tíma hefur hann sent frá sér átta bækur. Tvær eru skrifaðar í samvinnu við Pál Pálsson en hinar sex, sem Árni skrifar einn og óstuddur, eru í seríu þar sem Einar blaðamaður á Síðdegisblaðinu flækist í hin aðskiljanlegustu glæpamál og tekst að leysa þau á sinn hátt. Það er alltaf spurning hvernig til tekst með trúverðugleika þegar íslenskar glæpasögur eru annars vegar. Lesendur verða að geta trúað því að þeir atburðir sem bera uppi sögurnar geti í raun gerst í íslensku samfélagi. Árna hefur til þessa gengið bærilega að skrifa sögur sem reyna ekki á þolrif lesenda hvað þetta atriði varðar. Einhverjum kann þó að finnast eilítið undarlegt að einmitt þegar Einar er mættur á staðinn, í þetta sinn til Ísafjarðar, fari óhugnanleg atburðarás af stað. En um leið og maður er búinn að sætta sig við þá einkennilegu tilviljun og fyrirgefa höfundinum er sagan kominn á fulla ferð og óþarfi að velta meira vöngum yfir svona smáatriði sem flestallir glæpahöfundar verða reyndar að glíma við að einhverju leyti. ...
Ódáðahraun | 21.12.2010
Titillinn hér að ofan hefði getað verið undirtitill Ódáðahrauns, nýjustu skáldsögu Stefáns Mána. Skúrkurinn Óðinn R. Elsuson er reyndar bisnessmaður að upplagi en alltaf röngu megin við lögin. Þegar hann svo fær tækifæri til að taka þátt í nokkurn veginn lögmætum viðskiptum grípur hann það þótt ófús sé í fyrstu. Hann hefur nefnilega verið nokkuð ánægður með sig og sitt fram að þessu. Hann gengur til starfa í viðskiptageiranum af sama miskunnarleysinu (en kannski ekki sama ákafanum) og tíðkast hinum megin við línuna og er að lokum orðinn stórefnamaður. Það er svo spurning hvort hann er hamingjusamur í hinu nýja hlutverki sem góðborgari og styrktaraðili Óperunnar. ...
Ljósaskipti | 21.12.2010
Skrýmslið hefur löngum verið ákaflega vinsælt viðfangsefni skáldskapar. Það er eitthvað ómótstæðilegt við það hvernig óvættin ræðst á öll viðtekin gildi og leggur samfélagið í rúst - um stund allavega. Þannig er skrýmsið fulltrúi óreiðunnar, upplausnar sem er bæði nauðsynleg og holl. Almennt séð þykir afstyrmið þó ekki sérlega fagurt og iðulega er djúpt á hinni eðlislægu hrifningu sem þó hlýtur að vakna þegar dýrið gengur laust. Því hefur vampýran tekið að sér það hlutverk að vera helsti fulltrúi þessa ógnar-afls skrýmslisins; vampýran er bæði falleg og fín, fáguð og (kyn)þokkafull, auk þess að búa yfir þeim ákaflega vinsæla og eftirsótta eiginleika að vera ódauðleg, jafnvel handhafi eilífrar æsku. ...
Í þokunni | 21.12.2010
Það kemur ekki á óvart að saga Philippe Claudel, Í þokunni, hafi verið kvikmynduð, því bókin er sérlega myndræn og knöpp. Claudel teiknar upp lítið þorp við víglínuna í fyrri heimsstyrjöld, umhverfi þess og íbúa og leggur áherslu á stéttaskiptingu, en mörkin milli stéttanna endurspeglast að einhverju leyti í þeim mörkum lífs og dauða sem eru við víglínuna. Flestir karlmenn þorpsins eru horfnir í stríð og konurnar verða að bjarga sér eftir mætti, meðal annars með því að selja líkama sinn þeim fjölda hermanna sem ferðast gegnum þorpið í átt til víglínunnar, á leið í stríðið, og þeim sem koma til baka, mis-illa laskaðir. Víglínan spilar líka veigamikið hlutverk fyrir ungu kennslukonuna sem kemur til bæjarins eftir að fyrri kennari tapaði geðheilsunni og ungi lögreglumaðurinn, sögumaður Í þokunni, hrífst af. ...
Það er eitthvað sérstaklega dýrmætt við það bessaleyfi sem barnabækur taka sér í bulli. Hugmyndafluginu er gefinn algerlega laus taumur og fyrstu skotmörkin eru raunsæi (sem er leiðindapúki) og trúverðugleiki (sem er fúll). Hláturtaugarnar eru kitlaðar hressilega í tveimur þýddum barnabókum sem einkennast af líflegu taumleysi, Ottólína og gula kisan (Æskan, 2008) eftir Chris Riddell, breskan barnabókahöfund og myndasöguhöfund og Doktor Proktor og prumpuduftið (Mál og menning, 2008) eftir norska glæpasöguhöfundinn Jo Nesbø. ...
Martröð | 28.06.2010
Martröð segir frá Hrefnu sem er 13 ára íslenskt tökubarn frá Mexíkó, tökubarn er einmitt rétta orðið því hún er ekki löglega ættleidd heldur fann móðirin hana uppi í tré þegar hún var um þriggja ára og var henni síðan smyglað úr landi til Íslands. ...
Rökkurbýsnir | 28.06.2010
Það eru undarleg teikn á lofti, jarðskjálftar skekja byggðir og bú, dögum saman, ísbirnir ganga ítrekað á land og ókennilegur sumarhiti leikur um andlit. Slíkt getur aðeins boðað stórtíðindi, líklega ill. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál