Sólkross
Óttar M. Norðfjörð.

Sögur, 2008

Hálf sólarsagan

Sólkross Óttars M. Norðfjörð kemur fast á hæla Hnífs Abrahams, og hefur verið kölluð sjálfstætt framhald hennar. Böndin milli bókanna eru þó lítil sem engin, nema að báðar eru spennusögur sem byggðar eru á einhverjum fræðilegum grunni sem lesendur eru hvattir til að íhuga. Skyldleiki Hnífs Abrahams við sögur Dan Browns var ljós og nokkuð tíundaður, Sólkross er á sömu línu en að þessu sinni eru leyndarmál fortíðarinnar grafin á Íslandi, nánar tiltekið á Suðurlandsundirlendinu.

Fornleifafræðingurinn Embla Þöll er kölluð á vettvang þar sem skrifstofu fornleifafræðingsins Baldurs Skarphéðinssonar hefur verið umturnað, þjónustustúlka hans myrt og Baldur sjálfur numinn á brott (að því er virðist). Leitin að morðingjanum berst austur á land, þar sem Sæmundur, bóndi á Hofi, leitar dyrum og dyngjum að fornu hofi Óðins. Þar ætlar hann að framkvæma fórn til að bjarga Íslandi frá innflytjendum, en það þarf að gerast fyrir sólsetur.

Sólkross er sem sagt steyptur í sama mót og Hnífur Abrahams. Ungir og uppveðraðir sérfræðingar leita bæði morðingja og Sannleika með því að lesa sig í gegnum ráðgáturnar. Þeir eru tveimur, þremur skrefum á undan lögreglunni, sem er fín til síns brúks en svo ósköp illa að sér í fræðunum. Og þeir eru á hælum trúarlegra samtaka sem ætla sér að breyta framgangi sögunnar. Í Sólkrossi bætast svo við tveir fréttamenn frá Stöð 2 í leit að skúbbi.

Fréttamennirnir elta Emblu, sem eltir Sæmund, sem eltir sólina og hundinn sinn. Frásögnin heldur dampi með stuttum köflum og síbreytilegu sjónarhorni, auk þess að leiknum skal lokið áður en dagurinn er úti. Leitin þróast áfram eftir því sem nýjar vísbendingar og nýir sökudólgar koma í ljós, en það sem heldur henni gangandi eru sögurnar og fræðin, allt það sem Embla og Sæmundur dæla í viðmælendur sína. Hins vegar reynist heldur erfitt að samþætta þetta tvennt: eltingaleikinn og fræðin, hasarinn og einræðurnar. Sagan gengur áfram í rykkjum þar sem þessi fræðilega kjölfesta fær ekki tóm til að anda, heldur er hún látin hrynja í takt við eltingaleikinn. Og það er fátt minna spennandi en tvær manneskjur að skiptast á upplýsingum til glöggvunar lesandans. Úr verður drafandi lognmolla með sprettum af hjákátlegu melódrama, þegar æsa á leikinn eftir einhverja langlokuna.

Ekki bætir úr skák að allar persónurnar tala frekar stirt og bóklegt mál sem er oft og tíðum klisjulegt og laust við alla tilfinningu, hversu hátt sem þær hrópa eða gleitt þær glenna augun. Þetta á hvergi eins vel við og þegar Vilborg greinir frá hrikalegri lífsreynslu undir lok bókarinnar, en hljómar líkt og hún sé að lesa upphátt úr fréttatilkynningu um málið. Sögumaðurinn kemst litlu betur frá leiknum, þar sem hann leiðist allt of oft út í skýringar og útlistanir sem annað hvort koma sögunni ekki við eða ættu frekar að ráðast af samhengi sýnilegra atburða. Þar finnur hann sig t.a.m. knúinn til að útskýra hvers vegna Nikulásargjá er kölluð Peningagjá („vegna allrar smámyntarinnar sem ljómaði á botninum") og hvers vegna lögreglumennirnir Grímur og Hörður ganga ekki í skrokk á þeim sem þeir handtaka („Þótt [hann] væri grunaður um morð var ástæðulaust að beita hann ofbeldi. Þeir bjuggu ekki lengur á miðöldum, heldur í nútímanum, við lög og rétt").

Sólkross á nokkra góða spretti þar sem enginn segir neitt eða fáir segja lítið, og atburðir ná fram að ganga án of mikilla útskýringa. Byrjunin er líka nokkuð sterk, kenningarnar sem Óttar leggur út af eru forvitnilegar og fléttan sjálf hefði getað skilað ágætis reifara að öðru breyttu. Stærsta ráðgátan er þó hvers vegna höfundurinn hendir fornleifafræðinni út um gluggann undir lok bókarinnar og klárar síðustu metrana á fjölskyldudrama sem hefur varla komið við sögu þangað til. Viðsnúningurinn í bláenda sögunnar bítur síðan höfuðið af skömminni með því að vera bæði fyrirsjáanlegur og merkingarlaus.

Óttar er nú búinn að gefa frá sér tvær „fræða-spennusögur" á jafnmörgum árum en það er nokkuð ljóst að Sólkross hefði þolað talsvert meiri yfirlegu og yfirlestur, og er í raun skref aftur á bak frá Hníf Abrahams.

Björn Unnar Valsson, desember 2008


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Ljóðasafnið Flautuleikur álengdar markar aldarfjórðungs rithöfundarafmæli þýðandans Gyrðis Elíassonar, en árið 1983 sendi hann frá sér sína fyrstu bók, ljóðabókina Svarthvít axlabönd. Á þessum árum hefur Gyrðir markað varanleg spor í íslenskt bókmenntalandslag og sent frá sér tugi bóka, eigin verk og þýðingar, en þýðingastarf er mikilvægur hluti af höfundarverki Gyrðis. Þær bækur sem hann þýðir eru oft eftir áhrifavalda hans og höfunda sem standa honum nærri á einhvern hátt, og svo er einnig um Flautuleikinn, það er greinilegt að þessir flautuhljómar eiga ýmislegt skylt með tónum Gyrðis sjálfs. ...
Það hefur löngum verið hlutverk bókmennta að fjalla um samtímann eða endurspegla hann á einhvern hátt. Þannig hafa íslenskar bókmenntir undanfarinna ára komið inn á hið svokallaða góðæri (sem reyndar aðeins fáir upplifðu að einhverju ráði), efling íslensku glæpasögunnar hefur verið tengdur auknum glæpum og umfjöllun um umhverfisvernd hefur sömuleiðis verið áberandi. ...
Sólkross | 21.12.2010
Sólkross Óttars M. Norðfjörð kemur fast á hæla Hnífs Abrahams, og hefur verið kölluð sjálfstætt framhald hennar. Böndin milli bókanna eru þó lítil sem engin, nema að báðar eru spennusögur sem byggðar eru á einhverjum fræðilegum grunni sem lesendur eru hvattir til að íhuga. Skyldleiki Hnífs Abrahams við sögur Dan Browns var ljós og nokkuð tíundaður, Sólkross er á sömu línu en að þessu sinni eru leyndarmál fortíðarinnar grafin á Íslandi, nánar tiltekið á Suðurlandsundirlendinu. ...
Sjöundi sonurinn | 21.12.2010
Tíu ár eru nú liðin frá því að fyrsta skáldsaga Árna Þórarinssonar, Nóttin hefur þúsund augu, kom út. Á þessum tíma hefur hann sent frá sér átta bækur. Tvær eru skrifaðar í samvinnu við Pál Pálsson en hinar sex, sem Árni skrifar einn og óstuddur, eru í seríu þar sem Einar blaðamaður á Síðdegisblaðinu flækist í hin aðskiljanlegustu glæpamál og tekst að leysa þau á sinn hátt. Það er alltaf spurning hvernig til tekst með trúverðugleika þegar íslenskar glæpasögur eru annars vegar. Lesendur verða að geta trúað því að þeir atburðir sem bera uppi sögurnar geti í raun gerst í íslensku samfélagi. Árna hefur til þessa gengið bærilega að skrifa sögur sem reyna ekki á þolrif lesenda hvað þetta atriði varðar. Einhverjum kann þó að finnast eilítið undarlegt að einmitt þegar Einar er mættur á staðinn, í þetta sinn til Ísafjarðar, fari óhugnanleg atburðarás af stað. En um leið og maður er búinn að sætta sig við þá einkennilegu tilviljun og fyrirgefa höfundinum er sagan kominn á fulla ferð og óþarfi að velta meira vöngum yfir svona smáatriði sem flestallir glæpahöfundar verða reyndar að glíma við að einhverju leyti. ...
Ódáðahraun | 21.12.2010
Titillinn hér að ofan hefði getað verið undirtitill Ódáðahrauns, nýjustu skáldsögu Stefáns Mána. Skúrkurinn Óðinn R. Elsuson er reyndar bisnessmaður að upplagi en alltaf röngu megin við lögin. Þegar hann svo fær tækifæri til að taka þátt í nokkurn veginn lögmætum viðskiptum grípur hann það þótt ófús sé í fyrstu. Hann hefur nefnilega verið nokkuð ánægður með sig og sitt fram að þessu. Hann gengur til starfa í viðskiptageiranum af sama miskunnarleysinu (en kannski ekki sama ákafanum) og tíðkast hinum megin við línuna og er að lokum orðinn stórefnamaður. Það er svo spurning hvort hann er hamingjusamur í hinu nýja hlutverki sem góðborgari og styrktaraðili Óperunnar. ...
Ljósaskipti | 21.12.2010
Skrýmslið hefur löngum verið ákaflega vinsælt viðfangsefni skáldskapar. Það er eitthvað ómótstæðilegt við það hvernig óvættin ræðst á öll viðtekin gildi og leggur samfélagið í rúst - um stund allavega. Þannig er skrýmsið fulltrúi óreiðunnar, upplausnar sem er bæði nauðsynleg og holl. Almennt séð þykir afstyrmið þó ekki sérlega fagurt og iðulega er djúpt á hinni eðlislægu hrifningu sem þó hlýtur að vakna þegar dýrið gengur laust. Því hefur vampýran tekið að sér það hlutverk að vera helsti fulltrúi þessa ógnar-afls skrýmslisins; vampýran er bæði falleg og fín, fáguð og (kyn)þokkafull, auk þess að búa yfir þeim ákaflega vinsæla og eftirsótta eiginleika að vera ódauðleg, jafnvel handhafi eilífrar æsku. ...
Í þokunni | 21.12.2010
Það kemur ekki á óvart að saga Philippe Claudel, Í þokunni, hafi verið kvikmynduð, því bókin er sérlega myndræn og knöpp. Claudel teiknar upp lítið þorp við víglínuna í fyrri heimsstyrjöld, umhverfi þess og íbúa og leggur áherslu á stéttaskiptingu, en mörkin milli stéttanna endurspeglast að einhverju leyti í þeim mörkum lífs og dauða sem eru við víglínuna. Flestir karlmenn þorpsins eru horfnir í stríð og konurnar verða að bjarga sér eftir mætti, meðal annars með því að selja líkama sinn þeim fjölda hermanna sem ferðast gegnum þorpið í átt til víglínunnar, á leið í stríðið, og þeim sem koma til baka, mis-illa laskaðir. Víglínan spilar líka veigamikið hlutverk fyrir ungu kennslukonuna sem kemur til bæjarins eftir að fyrri kennari tapaði geðheilsunni og ungi lögreglumaðurinn, sögumaður Í þokunni, hrífst af. ...
Það er eitthvað sérstaklega dýrmætt við það bessaleyfi sem barnabækur taka sér í bulli. Hugmyndafluginu er gefinn algerlega laus taumur og fyrstu skotmörkin eru raunsæi (sem er leiðindapúki) og trúverðugleiki (sem er fúll). Hláturtaugarnar eru kitlaðar hressilega í tveimur þýddum barnabókum sem einkennast af líflegu taumleysi, Ottólína og gula kisan (Æskan, 2008) eftir Chris Riddell, breskan barnabókahöfund og myndasöguhöfund og Doktor Proktor og prumpuduftið (Mál og menning, 2008) eftir norska glæpasöguhöfundinn Jo Nesbø. ...
Martröð | 28.06.2010
Martröð segir frá Hrefnu sem er 13 ára íslenskt tökubarn frá Mexíkó, tökubarn er einmitt rétta orðið því hún er ekki löglega ættleidd heldur fann móðirin hana uppi í tré þegar hún var um þriggja ára og var henni síðan smyglað úr landi til Íslands. ...
Rökkurbýsnir | 28.06.2010
Það eru undarleg teikn á lofti, jarðskjálftar skekja byggðir og bú, dögum saman, ísbirnir ganga ítrekað á land og ókennilegur sumarhiti leikur um andlit. Slíkt getur aðeins boðað stórtíðindi, líklega ill. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál