Baby´s in Black

Baby’s in Black er myndasaga sem fjallar um kynni þýska ljósmyndarans Astridar Kirchherr og „fimmta Bítilsins“ Stuarts Sutcliffe. Sagan hefst á því að þau kynnast á skuggalegri búllu á Große Freiheit í Hamborg undir lok ársins 1960 og segir svo frá trúlofun þeirra og sambúð allt til sviplegs dauða Sutcliffes í apríl 1962. Nafn bókarinnar er dregið af lagi sem John Lennon og Paul MacCartney sömdu, að því er segir, um Astrid í kjölfar dauða Stuarts. Hér fyrir neðan má sjá elsku drengina spila lagið á tónleikum árið 1966.

Bókin byggir á samtölum Bellstorfs við Astrid Kirchherr, sem býr enn í Hamborg, en þó svo hann hafi augljóslega viðað að sér efni og heimildum annarstaðar frá (t.a.m. er eftirmáli bókarinnar dulítil ritgerð um áhrif Astridar og þýskra vina hennar á klippingar og fatastíl Bítlanna árin á eftir) er sagan öll sögð frá sjónarhorni Astridar. Bellstorf fer heldur ekki út fyrir sögu þeirra beggja, eða tímabil þeirra beggja, til að mynda til að lýsa bakgrunni Astridar eða eftirmálum þeirra Bítlanna. Ramminn er með öðrum orðum mjög skýr: Sagan hefst á því að hún heyrir af þessari spennandi bresku hljómsveit og bassaleikaranum sem er aðeins of töff fyrir plánetuna Jörð, og henni lýkur á því augnabliki sem Astrid tilkynnir Lennon að Stuart sé látinn.

Það stafar rósrauðum bjarma af þessari svarthvítu myndasögu. Hún er ófeimin við að draga upp mynd af einhverskonar fyrirmyndartíma þegar lífið gekk upp, allir voru vinir og klúbbarnir hækkuðu í græjunum. Það er óvíst hvort þetta stafar af hæversku Bellstorfs sjálfs eða af því að sagan byggir á fimmtíu ára gömlum minningum Astridar frá því hún var ung og ástfangin. Í öllu falli leitast sagan ekki við að snúa viðteknum sannleika á haus eða uppljóstra neinum leyndarmálum. Markmiðið er einfaldlega að segja sögu Astridar og Stuarts, ljósmyndarans og listmálarans, með hjálp hins sjónræna miðlis myndasögunnar.

Bellstorf hefur því lítinn áhuga á að endurtaka sögu Bítlanna að öðru leyti en því sem snýr beint að sambandi Stuarts og Astridar. Sennilega má þakka öllum góðum vættum fyrir það; sem viðbót við Bítlagoðsögnina væri bókin dropi í hafið þar sem úir enn og grúir af gulum kafbátum. Höfundurinn heldur sig við átakalitla sögu af stuttri sambúð með samtölum, partíum, gönguferðum og loforðum. Á einhverjum tímapunkti leiðir líkum að því að Stuart verði vísað úr landi og annarstaðar spyr Astrid hvort móður Stuarts eigi eftir að setja sig upp á móti trúlofuninni, en úr þessu verða engin átök, ekkert sem setur strik í reikninginn. Fyrirmyndartíminn er umfram allt hversdagslegur og skær, sem kemur ekki síst fram í myndmáli sögunnar.

Eina áfallið sem hægt er að kalla, og það eina sem bókin „þarfnast“ ef svo má að orði komast, er dauði Stuarts. Það er næsta ómögulegt að koma nokkrum á óvart með skyndilegu dauðsfalli Stuarts og Bellstorf reynir það ekki. Hins vegar er enginn drungi í frásögninni, engin tilfinning fyrir hrikalegum óumflýjanleika dauðans. Þvert á móti virðist allt í heiði. Stuart veikist og honum batnar, hann leggur of hart af sér en lætur líka segjast og slakar á. Dauðanum er því hvorki pakkað inn í sjokkerandi heilsíðu né einhverskonar óhjákvæmilega kollsteypu bóhema-rokkarans. Frekar má segja að áhrifin komi allt að því blíðlega fram í persónu Astridar, en andlit hennar hverfur af síðunni eftir að hún fær fréttirnar og hún hættir að meðtaka orð fólksins í kringum hana. Útskýringar og huggunarorð víkja fyrir hljóðum punktum í annars tómum talblöðrum.

Líklega er það með betur heppnuðum „senum“ bókarinnar, þar sem stilling Bellstorfs í myndmáli gefur vísbendingu um eitthvað sem ekki verður sagt berum orðum, eða svart á hvítu. En þó svo framsetning myndmálsins sé yfirleitt átakalaus, líkt og sagan sjálf, kemur hún endrum og eins þægilega á óvart. Þar má nefna loftmyndirnar, þar sem lesandinn svífur í loftinu yfir Astrid og Stuart þar sem þau liggja á gólfinu heima hjá henni. Þetta er sjónarhorn sem maður kannast frekar við úr bíómyndum en virkar einhvern veginn nýtt í meðförum Bellstorfs, sem færir auga myndasögurammans örsjaldan upp yfir höfuð persónanna. Nú vísa andlit þeirra upp í loft og við stöndum jafnfætis með bakið uppvið loft íbúðarinnar.

Myndheimur bókarinnar er samansettur úr hlýjum blýantsteikningum, svarthvítum án eiginlegra grátóna. Skyggingar eru til að mynda framkvæmdar með mjög áberandi, krullandi blýantsstrokum; gróf áferð trjánna með breiðum, hörðum línum sem þekja þó aldrei fullkomlega. Persónur Bellstorfs eru einfaldar en kennilegar, dregnar fram með hreinum, praktískum línum. Umhverfi þeirra er oft og tíðum áþreifanlegra og frekar „þessa heims“, tól og tæki á borð við hljóðfæri, myndavélar og síma eru oft teiknuð með mun meiri nákvæmni en annað í kring. Þetta kemur vel fram í friðsælum, einföldum myndum af götum Hamborgar, sem fella saman látlaus andlit vegfarenda og smáatriði í götumyndum eða byggingarlist. Í stuttu máli ganga hér saman evrópska hreinlínu-fagurfræðin og lausgirtur, skuggalegur blýantur af B-týpunni.

Í Baby’s in Black er því að finna sáralítið Bítlaklám. Saga sem margir kannast við eða hafa í það minnsta einhvern pata af (einmitt Bítlanna vegna) er hér sögð á næman, stílhreinan máta svo þessir báleygu krakkar lifna við í svarthvítum sixtís.

Björn Unnar Valsson, september 2011.


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Fallið eftir Þráin Bertelsson
Fallið | 21.10.2011
Hér á vefnum birtast lesendapistlar undir yfirskriftinni "Ég les". Ingvi Þór Kormáksson sendir hér inn nokkur orð um nýútkomna bók Þráins Bertelssonar. Eldri lesendapistla má finna á umfjöllunarsíðu vefsins. ...
Babys in Black
Baby´s in Black | 30.09.2011
Baby’s in Black er myndasaga sem fjallar um kynni þýska ljósmyndarans Astridar Kirchherr og „fimmta Bítilsins“ Stuarts Sutcliffe. Sagan hefst á því að þau kynnast á skuggalegri búllu á Große Freiheit í Hamborg undir lok ársins 1960 og segir svo frá trúlofun þeirra og sambúð allt til sviplegs dauða Sutcliffes í apríl 1962. ...
Alex Crosss Trial
Alex Cross's Trial | 07.06.2011
Þorkell Már Ingólfsson, bókavörður í Ársafni Borgarbókasafns, er mikill aðdáandi bandaríska höfundarins James Patterson. Hann skrifar hér um bók úr Alex Cross seríunni, en hún snýst um átök samnefndrar leynilöggu við glæpahyski í Suðurríkjum Bandaríkjanna. ...
Bókmennta- og kartöflubökufélagið
Bókmennta- og kartöflubökufélagið byggist upp á bréfaskriftum milli sögupersónanna. Aðalpersónan er Juliet Ashton, sem er í byrjun bókar árið 1946, að leita að efni í nýja bók. Hún fær þá bréf frá ókunnum manni sem eignast hefur bók sem áður var í eigu skáldkonunnar. Nafn hennar var ritað á saurblaðið og þar sem hún er þekktur pistlahöfundur á hann auðvelt með að hafa upp á henni. ...
Rithöfundaferill Helenu Henschen er margra hluta vegna óvenjulegur. Eftir að hafa starfað alla tíð við hönnun og myndskreytingar ýmis konar þá gefur hún út sína fyrstu „alvörubók“, 64 ára gömul - og það enga venjulega bók. ...
Af einhverjum ástæðum komu þónokkrar þýðingar sem tengjast helförinni út hér á síðasta ári. Ég hef lesið þrjár þessara bóka en þær eru Dagbók Hélène Berr, Bókaþjófurinn og Strákurinn í röndóttu náttfötunum. ...
Armur krónópi er úti að aka á bílnum sínum þegar hann verður fyrir því óláni að bremsurnar bila á götuhorni og hann klessir á annan bíl. Umferðarlögreglumaður kemur askvaðandi og dregur upp sektakompu í bláu bandi. ...
Bókin sem ég valdi er ævisaga séra Sigurjóns Einarssonar, Undir Hamrastáli, Uppvaxtar og mannlífsmyndir úr Arnarfirði. ...
Rán er fimmta skáldsaga Álfrúnar Gunnlaugsdóttur. Sögusviðið er Genf og Barcelona. Sjónarhornið er Íslendings í útlöndum, konunnar Rán en hún er gift svissneskum manni, Hansjürg og býr í Genf. ...
Eitt af því mikilvægasta í lífinu tel ég að vera í góðu sambandi við barnið í sjálfri mér. Til að svo megi vera verð ég að leggja rækt við þetta samband. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál