Lygarinn: sönn saga

Óttar M. Norðfjörð

Sögur útgáfa, 2011

Lygarinn: sönn saga„Í fornsögum táknar rigningin nýtt upphaf“

Lygarinn eftir Óttar M. Norðfjörð er þrælspennandi glæpasaga en í henni er að finna fjölda tilvísana í samtíma okkar og hrunið auk þess sem spennandi gátur, skákeinvígi aldarinnar og dágóður skammtur af morðum skreyta síðurnar. Fjölskylduerjur, heimilisofbeldi, framhjáhald (raunverulegt og ímyndað, í raunheimi og netheimi) og dass af lesbískum ástum koma líka við sögu og gott ef ekki mansal. Það er nóg um að vera í Lygara Óttars og lygararnir reynast fleiri en einn.

Aðalsöguhetjan er Vera Ragnarsdóttir sem er allt í senn bókmenntafræðingur, háskólakennari, rithöfundur, aðgerðarsinni, eiginkona og móðir. Þrátt fyrir sín mörgu afrek er hún óánægð og kemur sér ekki til að byrja á næstu bók, en þess vegna hefur hún tekið að sér stundakennslu við Háskóla Íslands. Hún tilheyrir hópi aðgerðarsinna sem starfar í samráði við Wikileaks og eftir að brotist er inn í aðsetur hópsins fer í gang æsileg atburðarás með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Sagan teygir sig aftur til ársins 1972, þess tíma þegar Spassky og Fischer tefldu í Laugardalshöll og faðir Veru, lögregluþjónninn Ragnar, rannsakar glæp sem enn er óleystur og skrifar um hann í dagbók sína. Glæpurinn og dularfullar gáturnar sem Ragnari berast tengjast, bæði beint og óbeint, Veru sjálfri og þeirri flækju sem hún og félagar hennar reyna að leysa í nútímanum. Frásögnin er hröð og spennandi og þó svo ótrúlega margt sé á seyði missir sögumaður aldrei dampinn og það er auðvelt að fylgja honum eftir. Dagbókarbrotin, tímaflakkið og gáturnar brjóta frásögnina skemmtilega upp.

Persónusköpun og samskipti persóna eru trúverðug. Þetta á t.d. við um samband Veru og Kára, samverkamanns hennar og aðgerðarsinna, en ég verð þó að viðurkenna að meiri rækt hefði mátt leggja í aðra félaga í hópnum, tölvutótann Patta og Ástu Lilju. Samskipti Veru og Ingólfs, eiginmanns hennar, eru vel skrifuð þótt nöturleg séu og vel kemur fram hversu flókin og sársaukafull ofbeldissambönd geta verið og að engin ein lausn sé möguleg. Saga föður Veru, og fortíð hennar sjálfrar, sýna okkur einnig að það er aldrei eitt einhlítt svar við öllum spurningum og að allar ákvarðanir hafi afleiðingar. Höfundur hefði þó að ósekju mátt leggja meiri rækt við samband Veru og Berglindar. Berglind er nemandi Veru og ástfangin af henni og virðist einna helst gegna því hlutverki að fá Veru til að opna augun og viðurkenna hversu skítt samband þeirra Ingólfs er. Samskipti kvennanna finnst mér á stundum hálfpínleg og meiri alúð hefði mátt vera lögð í þau og lýsingar á ástarlífi þeirra.

Skáldsagan Lygarinn hefst á sömu orðum og henni lýkur á: „Í fornsögum táknar rigningin nýtt upphaf“ (bls. 10 og 302) og er að vissu leyti sagan um það hvernig höfundur hennar varð fær um að skrifa hana – saga um eigin tilurð eða svokölluð sjálfsaga (e. metafiction). Vísanir í okkar eigin samtíma – og fortíð sem margir lesendur muna eftir – eru fjölmargar, vitnað er orðrétt í þjóðþekkta menn og einhvern veginn efast maður ekki um að eitthvað – og kannski svolítið mikið – í þessari sögu, sem hefur undirtitilinn Sönn saga, sé satt.

Helga Birgisdóttir, janúar 2012


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Við tilheyrum sama myrkrinu eftir Kristínu Ómarsdóttur
Á síðasta ári kom út skáldverk sem fjallar um þekktar persónur, nafngreinir þær og lætur þær gera eitt og annað sem ekki samræmist heimildum um líf þeirra. Sumt af því þætti mögulega vafasamt, allavega ef fólk er ekki alveg laust við fordóma og tepruskap. Bókin sem ég er að tala um er auðvitað smásagnasafn Kristínar Ómarsdóttur, Við tilheyrum sama myrkrinu. Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo, en auk sagnanna inniheldur safnið eitt ljóð og fjölmargar teikningar. Sögurnar lýsa allar samskiptum þessara tveggja íkonísku leikkvenna og kvikmyndastjarna, en í þessum söguheimi eru þær miklar vinkonur og bralla hitt og annað saman. ...
Daloon dagar eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur
Daloon dagar | 09.05.2012
Ljóðabókin Daloon dagar eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur er afrakstur nýtilkominnar námsbrautar í ritlist við Háskóla Íslands, en henni stýrir rithöfundurinn og þýðandinn Rúnar Helgi Vignisson. Áður hefur komið út bókin Með mínum grænu augum eftir Sverri Norland (og mögulega fleiri sem ég hef ekki frétt af) og af þessum tveimur bókum má auðveldlega álykta að þarna eru góðir hlutir að gerast. ...
Klækir
Klækir | 22.02.2012
Sigurjón Pálsson kynnir sig á bókarkápu Klækja sem hönnuð og “óskrifað blað í íslenskri bókmenntasögu”. Það má bæta því við að bók á borð við þessa hefur heldur ekki áður tilheyrt íslenskri bókmenntasögu. Bókin er 350 þéttprentaðar síður og tekur dágóðan tíma að krafla sig í gegnum hana. Undirtitillinn er “Spennusaga” og það er orð að sönnu. ...
Götumálarinn
Götumálarinn | 18.01.2012
Í sögunni Götumálaranum segir Þórarinn Leifsson frá ævintýrum sínum á Spáni og í Marokkó þar sem hann bráðungur þvældist um og hafði í sig og á með betli og með því að mála myndir á gangstéttar og torg. Bókin skiptist í stutta, nokkuð hnitmiðaða kafla og í upphafi hvers kafla eru skemmtilegar myndir eftir höfundinn sem gefa tóninn fyrir það sem á eftir fylgir. Sagan er í nokkurs konar dagbókarformi og Þórarinn skrifar því sig hér inn í ýmsar hefðir, ferðabókina, vegabókina, og ‚líf-mitt-á-jaðri-samfélagsins-bókina‘, svona eins og þær sem hafa fylgt í kjölfar Down and Out in Paris and London eftir George Orwell. ...
Allt kom það nær
Allt kom það nær | 18.01.2012
Ljóðabók Þorsteins frá Hamri sem kom út nú fyrir jólin geymir 37 ljóð og skiptist í tvo hluta, „Vera manns–“ og „Litvörp logans...“ Samkvæmt ritmálaskrá er fyrsta dæmið um orðið ‚litvarp‘ að finna í ferðaþáttum Thors Vilhjálmssonar, Undir gervitungli (1958), sem er viðeigandi því í bók Þorsteins er ákaflega fínt minningarljóð um Thor sem nefnist „... Og stormar blésu“, þar sem í örfáum orðum er dregin upp dramatísk mynd af manni, skáldskap og söknuði allt í senn. ...
Hálendið
Hálendið | 11.01.2012
Það setti að mér ugg þegar ég hóf lestur minn á Hálendi Steinars Braga. Ekki vegna þess hryllings sem höfundurinn sníður svo listilega vel á síðum bókarinnar, heldur einfaldlega vegna þess að ég óttaðist að verkið stæðist ekki væntingar. ...
Söngur guðsfuglsins
Söngur Guðsfuglsins fjallar, eins og undirtitillinn segir, um þrastarunga sem „vissi ekki til hvers fuglar voru“. Þetta er saga um leitina að tilgangi lífsins, ætluð börnum og er fagurlega myndskreytt af Helga Þorgils Friðjónssyni. Sögð er saga þriggja kynslóða þrasta í Hljómskálagarðinum og það er gaman hvernig styttur úr þessum sama garði eru notaðar við myndskreytingarnar en myndirnar eru á hægri síðu og ná allar yfir heila síðu, alla jafna með þykkan ramma utan um sjálft myndefnið sem sýnir fuglana við leik og störf. Ýmsum aðferðum er beitt við myndlýsingarnar, myndir eru málaðar og teiknaðar, klipptar inn og ljósmyndir eru einnig notaðar. ...
Lygarinn
Lygarinn eftir Óttar M. Norðfjörð er þrælspennandi glæpasaga en í henni er að finna fjölda tilvísana í samtíma okkar og hrunið auk þess sem spennandi gátur, skákeinvígi aldarinnar og dágóður skammtur af morðum skreyta síðurnar. Fjölskylduerjur, heimilisofbeldi, framhjáhald (raunverulegt og ímyndað, í raunheimi og netheimi) og dass af lesbískum ástum koma líka við sögu og gott ef ekki mannsmorð og mansal. Það er nóg um að vera í Lygara Óttars og lygararnir reynast fleiri en einn. ...
Ómynd
Ómynd | 03.01.2012
Ómynd er þriðja glæpasaga Eyrúnar Ýrar Tryggvadóttur fyrir fullorðna og fjallar, líkt og hinar fyrri, um blaðakonuna Andreu. Hinar fyrri eru Hvar er systir mín? (2008) og Fimmta barnið (2009) sem báðar voru tilnefndar til Blóðdropans, verðlauna Hins íslenska glæpafélags og eru fínustu glæpasögur. ...
Með heiminn í vasanum
Margrét Örnólfsdóttir ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í skáldsögunni Með heiminn í vasanum því þar fjallar hún um tvo „raunveruleika“ – annars vegar líf, raunir og áskoranir íslensks pilts sem við fyrstu sýn virðist ekkert skorta og hins vegar streð og sorgir kínverskrar stúlku sem þrælar við að setja saman leikföng í leikfangaverksmiðju. Líf Ara og Jinghua fléttast saman í baráttunni fyrir frelsi og betra lífi og bæði þrá þau að vera elskuð og vera með þeim sem þau elska. Inn í þetta fléttast svo rafheimur – netið, tölvuleikir og rafræn samskipti – og tengsl raunheims og rafheims sem í nútímasamfélagi virðist ómögulegt að slíta. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál