Allt kom það nær

Þorsteinn frá Hamri

Mál og menning, 2011

Allt kom það nær„Enn er ég hægt og seint að verða til.“

Ljóðabók Þorsteins frá Hamri sem kom út nú fyrir jólin geymir 37 ljóð og skiptist í tvo hluta, „Vera manns–“ og „Litvörp logans...“ Samkvæmt ritmálaskrá er fyrsta dæmið um orðið ‚litvarp‘ að finna í ferðaþáttum Thors Vilhjálmssonar, Undir gervitungli (1958), sem er viðeigandi því í bók Þorsteins er ákaflega fínt minningarljóð um Thor sem nefnist „... Og stormar blésu“, þar sem í örfáum orðum er dregin upp dramatísk mynd af manni, skáldskap og söknuði allt í senn.

Veruna, tilveruna sem mörg ljóðanna hverfast um, er ekki auðvelt að festa niður, því hún er ekki í núinu, heldur einhvern veginn ávallt í vændum. Í ljóðinu „Fræ“ er þar að auki gefið í skyn að það sem áður var í vændum, ef svo má segja, þ.e. það sem ekki varð, sé líka partur af minningunni og þá tilverunni. Verðandin er sem sagt ekki stöðug, heldur háð árstíðum og sveiflast á milli fortíðar og framtíðar. En það sem vænst var virðist þó hafa nálgast, eins og má lesa út úr ljóðinu „Hvörf, sjónmál, hafsaugu“, en þar segir, einmitt í titilorðum bókarinnar sem koma úr því ljóði, „allt kom það nær“. En þessi óvissa sem þetta flakk á verunni hefur í för með sér, gerir það að verkum að erfitt er að vita hvernig hlutirnir verði í reynd, eins og fjallað er um í ljóðunum „Skúraskin“ og „Gatan, kvöldið, birtan“.

Vera okkar markast í þessari bók líka af hruninu, það má sjá vísanir hér og þar í einhvers konar ‚fyrir og eftir‘ hugsun, til dæmis í ljóðinu „Ljósin inni“, það sem talað er um hið „átfreka oflætishóf“ sem áður ríkti.Og hin raunverulega auðlegð hafði rykfallið á meðan, óskoðuð, eins og segir í samnefndu ljóði: „Bæru þeir kennsl // á svo eldfornt, aflóga glingur?“

Líkingar eru margar fengnar úr náttúru og veðri, en náttúrumyndum, sem lesandi heldur að séu einfaldar í fegurð sinni, er einatt grafið undan, eins og má sjá í ljóðinu „Snjór“ þar sem fegurð drifhvítrar veraldar hylur jörðina þar sem „mangarinn býður mannslíf og hryggð til sölu“. Skáldið er ávarpað í síðasta ljóði fyrri hlutans, skáldið sem hefur glætt eld og komið honum fyrir „í kvæðum“ sem „einhverjir // þreyja við skin hans“ og „skrafa sín í milli // um litvörp logans ...“ sem er einmitt titillinn á seinni hlutanum. Einnig er fjallað um bernskuminningu skáldsins í ljóðinu „Veraldarsaga, bernskumynd“, en þar eru rætur skáldsins fundnar í „gráleitum bókarheftum“ sem gestur á heimilinu dreifði um gólfið og ljóðmælandi segir að skáldið „beri þess nokkrar, næsta kynlegar menjar“.

Margoft er vitnað til upphafa, nýrrar byrjunar eða vors í ljóðunum. Vor sem birtist til dæmis þar sem þess er síst að vænta, í „gegnum síma...“ í ljóðinu „Árstíðirnar“ eða um miðjan vetur í ljóðinu „Sólskinsdagur“. En vor er ekki einungis hér tákn um nýtt upphaf, heldur getur það einnig borið með sér minningar úr fortíð eins og fram kemur í ljóðinu „Vísur á vordögum“. Framtíðin er spurð um hvað sé í vændum: mun vora? má vona? eins og í kvæðinu „Í verunni“:

Það vorar um síðir, vonandi. Moldin
bíður græðslu og góðsemi;
                                           tuddar
níddu svörðinn í svað!
                                 Mun jörðinni
duga sú björg sem berst með fuglum,
sólaryl, regni, samhug manna,
ljóðum og söng, vinarþeli og vindum?

Og síðasta ljóð bókarinnar „Eftir eld“ geymir hvatningarorð til lesenda að nota „langminnug orð“ til að skyggnast um: „Ráðumst nú með þeim // í rannsókn // á brunarústum og brennugjám,“. Í öskunni leynast nefnilega fjársjóðirnir, hin „margræðu jartein“ sem einmitt koma „úr sögum, sígilda jartein!“ og svo líka „undrið sjálft: // hið óbrunna, kvika hjarta.“

Í ljóðunum má því lesa bjartsýni, hugboð um upphaf, um vor – það er ekki allt glatað, heldur leynist með okkur líf, sérstaklega ef við hyggjum að fjársjóði fortíðar: orðum og sögum. Í bókinni má sjá sterkan heildarsvip, þræði sem teknir eru upp aftur og aftur og ljóðin kallast á við hvert annað og magna þannig upp áhrif sín. Ljóðin gætu að sjálfsögðu einnig staðið hvert eitt og sér: orðfar, tónn, hrynjandi, líkingar gera hvert og eitt að sjálfstæðu listaverki, en engu að síður er gaman að sjá merkingu þeirra víkka og andblæinn breytast í samhengi þessarar fínu bókar.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, janúar 2012


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Við tilheyrum sama myrkrinu eftir Kristínu Ómarsdóttur
Á síðasta ári kom út skáldverk sem fjallar um þekktar persónur, nafngreinir þær og lætur þær gera eitt og annað sem ekki samræmist heimildum um líf þeirra. Sumt af því þætti mögulega vafasamt, allavega ef fólk er ekki alveg laust við fordóma og tepruskap. Bókin sem ég er að tala um er auðvitað smásagnasafn Kristínar Ómarsdóttur, Við tilheyrum sama myrkrinu. Af vináttu: Marilyn Monroe og Greta Garbo, en auk sagnanna inniheldur safnið eitt ljóð og fjölmargar teikningar. Sögurnar lýsa allar samskiptum þessara tveggja íkonísku leikkvenna og kvikmyndastjarna, en í þessum söguheimi eru þær miklar vinkonur og bralla hitt og annað saman. ...
Daloon dagar eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur
Daloon dagar | 09.05.2012
Ljóðabókin Daloon dagar eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur er afrakstur nýtilkominnar námsbrautar í ritlist við Háskóla Íslands, en henni stýrir rithöfundurinn og þýðandinn Rúnar Helgi Vignisson. Áður hefur komið út bókin Með mínum grænu augum eftir Sverri Norland (og mögulega fleiri sem ég hef ekki frétt af) og af þessum tveimur bókum má auðveldlega álykta að þarna eru góðir hlutir að gerast. ...
Klækir
Klækir | 22.02.2012
Sigurjón Pálsson kynnir sig á bókarkápu Klækja sem hönnuð og “óskrifað blað í íslenskri bókmenntasögu”. Það má bæta því við að bók á borð við þessa hefur heldur ekki áður tilheyrt íslenskri bókmenntasögu. Bókin er 350 þéttprentaðar síður og tekur dágóðan tíma að krafla sig í gegnum hana. Undirtitillinn er “Spennusaga” og það er orð að sönnu. ...
Götumálarinn
Götumálarinn | 18.01.2012
Í sögunni Götumálaranum segir Þórarinn Leifsson frá ævintýrum sínum á Spáni og í Marokkó þar sem hann bráðungur þvældist um og hafði í sig og á með betli og með því að mála myndir á gangstéttar og torg. Bókin skiptist í stutta, nokkuð hnitmiðaða kafla og í upphafi hvers kafla eru skemmtilegar myndir eftir höfundinn sem gefa tóninn fyrir það sem á eftir fylgir. Sagan er í nokkurs konar dagbókarformi og Þórarinn skrifar því sig hér inn í ýmsar hefðir, ferðabókina, vegabókina, og ‚líf-mitt-á-jaðri-samfélagsins-bókina‘, svona eins og þær sem hafa fylgt í kjölfar Down and Out in Paris and London eftir George Orwell. ...
Allt kom það nær
Allt kom það nær | 18.01.2012
Ljóðabók Þorsteins frá Hamri sem kom út nú fyrir jólin geymir 37 ljóð og skiptist í tvo hluta, „Vera manns–“ og „Litvörp logans...“ Samkvæmt ritmálaskrá er fyrsta dæmið um orðið ‚litvarp‘ að finna í ferðaþáttum Thors Vilhjálmssonar, Undir gervitungli (1958), sem er viðeigandi því í bók Þorsteins er ákaflega fínt minningarljóð um Thor sem nefnist „... Og stormar blésu“, þar sem í örfáum orðum er dregin upp dramatísk mynd af manni, skáldskap og söknuði allt í senn. ...
Hálendið
Hálendið | 11.01.2012
Það setti að mér ugg þegar ég hóf lestur minn á Hálendi Steinars Braga. Ekki vegna þess hryllings sem höfundurinn sníður svo listilega vel á síðum bókarinnar, heldur einfaldlega vegna þess að ég óttaðist að verkið stæðist ekki væntingar. ...
Söngur guðsfuglsins
Söngur Guðsfuglsins fjallar, eins og undirtitillinn segir, um þrastarunga sem „vissi ekki til hvers fuglar voru“. Þetta er saga um leitina að tilgangi lífsins, ætluð börnum og er fagurlega myndskreytt af Helga Þorgils Friðjónssyni. Sögð er saga þriggja kynslóða þrasta í Hljómskálagarðinum og það er gaman hvernig styttur úr þessum sama garði eru notaðar við myndskreytingarnar en myndirnar eru á hægri síðu og ná allar yfir heila síðu, alla jafna með þykkan ramma utan um sjálft myndefnið sem sýnir fuglana við leik og störf. Ýmsum aðferðum er beitt við myndlýsingarnar, myndir eru málaðar og teiknaðar, klipptar inn og ljósmyndir eru einnig notaðar. ...
Lygarinn
Lygarinn eftir Óttar M. Norðfjörð er þrælspennandi glæpasaga en í henni er að finna fjölda tilvísana í samtíma okkar og hrunið auk þess sem spennandi gátur, skákeinvígi aldarinnar og dágóður skammtur af morðum skreyta síðurnar. Fjölskylduerjur, heimilisofbeldi, framhjáhald (raunverulegt og ímyndað, í raunheimi og netheimi) og dass af lesbískum ástum koma líka við sögu og gott ef ekki mannsmorð og mansal. Það er nóg um að vera í Lygara Óttars og lygararnir reynast fleiri en einn. ...
Ómynd
Ómynd | 03.01.2012
Ómynd er þriðja glæpasaga Eyrúnar Ýrar Tryggvadóttur fyrir fullorðna og fjallar, líkt og hinar fyrri, um blaðakonuna Andreu. Hinar fyrri eru Hvar er systir mín? (2008) og Fimmta barnið (2009) sem báðar voru tilnefndar til Blóðdropans, verðlauna Hins íslenska glæpafélags og eru fínustu glæpasögur. ...
Með heiminn í vasanum
Margrét Örnólfsdóttir ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í skáldsögunni Með heiminn í vasanum því þar fjallar hún um tvo „raunveruleika“ – annars vegar líf, raunir og áskoranir íslensks pilts sem við fyrstu sýn virðist ekkert skorta og hins vegar streð og sorgir kínverskrar stúlku sem þrælar við að setja saman leikföng í leikfangaverksmiðju. Líf Ara og Jinghua fléttast saman í baráttunni fyrir frelsi og betra lífi og bæði þrá þau að vera elskuð og vera með þeim sem þau elska. Inn í þetta fléttast svo rafheimur – netið, tölvuleikir og rafræn samskipti – og tengsl raunheims og rafheims sem í nútímasamfélagi virðist ómögulegt að slíta. ...


Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál