Illska

Illska eftir Eirík Örn Norðdahleftir Eirík Örn Norðdahl

Mál og menning, 2012

Af fasisma og sjónhverfingum

Daginn eftir að ég lauk við Illsku eftir Eirík Örn Norðdahl heyrði ég lag í alls óskyldu hlaðvarpi (er það ekki örugglega íslensk þýðing á „podcast“?). Lagið er frá árinu 2005, það er samið af grínistanum og tónlistarmanninum Stephen Lynch og heitir Tiny Little Moustache. Í texta lagsins ávarpar maður að nafni Stephen Lynchburgstein kærustuna sína, hann segist hafa uppgötvað að hún sé nasisti og að þess vegna þurfi þau að hætta saman. Þau hafa verið saman í a.m.k. fimm ár og á þeim tíma hefur Stephen séð ýmsar vísbendingar um hennar rétta eðli, þar á meðal: Hún skírði nýju hvolpana sína Goebbels og Göring, hún ekur um á Panzer-skriðdreka og hún er með hakakross húðflúraðan á höfuðið. Já, og henni líkar ekki blöndun þjóðflokka, sem hún kallar „blóðmengun“.

Í texta lagsins er dregin upp mynd af ástinni sem blindri og heyrnarlausri, svo mjög að hún kviknar á fyrsta stefnumóti jafnvel þótt ónefnda kærastan, nasistinn, heilsi þar gyðingnum Stephen með orðunum „white power“. Illska segir einnig frá nokkurra ára sambandi gyðings og nasista, nema þar leynir nasistinn engu og þar er einungis hægt að nota orðið „ást“ þegar öll önnur orð gufa upp. Gyðingurinn heitir Agnes Lukauskaite og nasistinn Arnór Þórðarson. Foreldrar Agnesar flúðu Litháen (þá Sovétríkin) og ólu hana upp á Íslandi en fluttu síðan aftur heim. Hún vinnur að MA ritgerð í sagnfræði og gengur illa, en ritgerðin á að fjalla um uppgang hægri pópúlistaflokka á Íslandi og í Evrópu. Agnes er með Helförina svo að segja á heilanum. Arnór fæddist einstæðri móður á Ísafirði, hann er doktorsnemi í sagnfræði við Pétursborgarháskóla en vinnur að lokaverkefni á Íslandi. Sambýlismaður Agnesar, Ómar Arnarson, er nýútskrifaður og atvinnulaus íslenskufræðingur. Sá ólst upp á víxl hjá fráskyldum foreldrum sínum. Agnes, Arnór og Ómar eru öll á fertugsaldri. Þegar Ómar kemst að því að Agnes hefur verið að halda framhjá honum með Arnóri brennir hann húsið ofan af þeim og flýgur úr landi og þar hefst bókin.

Eiríkur rekur þaðan söguna í nokkrum þráðum á ríflega fimm hundruð blaðsíðum. Í fyrsta hluta segir frá ævi Agnesar, tilhugalífi þeirra Ómars og framhjáhaldi þeirra Arnórs. Samhliða því fylgjumst við með ferðalagi Ómars um gervalla Evrópu, þar sem hann brennir upp VISA-kortinu eins og skopparabolti á milli minnisvarða um Helförina. Í öðrum hluta skiptast á uppvaxtarsaga Arnórs og sagan af útrýmingu gyðinga í heimabæ foreldra Agnesar, Jurbarkas í Litháen. Í þriðja hluta segir frá unglingsárum Ómars allt þar til hann hittir Agnesi, og samhliða fylgir sagan af sambúð þeirra tveggja allt þar til Ómar kveikir í húsinu. Loks segir frá afleiðingum framhjáhaldsins og húsbrunans í fjórða hluta, þ.e.a.s. hvernig allt fer á versta veg.

Það er ekki hægt að nefna orðið „afleiðingar“ án þess að tilgreina stóru Orsökina, en ef marka má sögumann Illsku (sem er reyndar hæpið, ekki síst vegna þess að hann kallar samband þeirra Agnesar og Ómars á einum stað „vel heppnað ástarsamband“) fjallar sagan öll um afleiðingar Helfararinnar í Jurbarkas sumarið 1941. Þannig eru 200 blaðsíður frá áður en sögumaður segist nú ætla að „byrja á byrjuninni“ með því að segja frá útrýmingu gyðinga í þessum 5000 manna bæ. Sögulega tengingin er sú að báðir afar Agnesar og ömmur bjuggu í bænum á þeim tíma. Afinn og amman Izsak og Masza Banai voru gyðingar og voru bæði drepin, en sá sem skaut Izsak var einmitt hinn afinn, Vilhelmas. Agnes heldur upp á Luger-skammhleypuna sem notuð var til verksins og sá bölvaði gripur er það eina sem lifir af húsbrunann. Þarna stendur svo að segja hnífurinn í kúnni, þarna er stóra sárið sem heldur áfram að blæða niður kynslóðirnar. En Illskan, þetta ástand (í víðustu merkingu þess orðs) sem gefur bókinni nafn, verður auðvitað ekki til með Helförinni, þó ættarharmleikur Agnesar reki sig þangað. Illskan brýst þar fram með fjöldamorðum sem rústa líf fjölskyldanna sem koma nálægt þeim, á einn veg eða annan, og hún lifir til sumarsins 2012 í minningum, þráhyggju og gripum á borð við Lugerinn. Hún endurfæðist síðan æ ofan í æ í hatri fólks á sjálfu sér, sem foreldrar skila óumflýjanlega – að því er virðist – til barnanna sinna. Nasisminn, Helförin og seinni tíma útlendingahatur í vestrænum lýðveldisríkjum, þ.e.a.s. stærstu hugmyndafræðilegu viðfangsefni Illsku, eru voldugar greinar í stærra tré, sem varpar skugga sínum yfir bókstaflega allt sem skáldsagan kemur nálægt.

Þetta er ansi þungur baggi enda þykk bók. Eiríkur gefur sér góðan tíma í forsögur aðalpersónanna, þremenninganna, svo engin af þeirra ótal slæmu ákvörðunum virðast út í bláinn. Nasistinn Arnór er jú alltaf nasisti en að öðru leyti eru þau öll sympatísk, aumkunarverð og óþolandi til skiptis. Einhverjir gætu haldið því fram, og hafa reyndar gert, að á þessum 540 síðum sé nokkrum orðum ofaukið en það er argasta vitleysa. Eiríkur er hvorki óðamála né ritlekur heldur virðist hann þvert á móti finna kúnderíska afslöppun í því að breiða svo úr sér, sem og íróníska fjarlægð sem kemur fram í köflum líkt og þessum þegar Arnór gufar upp:

Það var um það leyti sem þriðja þorskastríðið stóð hæst, á vormánuðum 1976 – Íslendingar þóttust standa einir gegn heimsveldinu en nutu baktjaldastuðnings Ameríkana, einsog litla óargadýrið í sex ára bekk sem enginn þorir að lúskra á af því að 14 ára bróðir hans er fantur – það var einmitt um það leyti að Arnór sneri ekki aftur á bókasafnið til móður sinnar að frímínútum loknum. Hann var fjögurra og hálfs árs og lítill eftir aldri. Síðast sást til hans fyrir utan Sundhöllina við Austurveg. Hann var klæddur í græna lopapeysu með rauðu munstri, brúnar flauelssmekkbuxur og lopahosur í gúmmískóm. Á höfðinu bar hann svarta prjónahúfu með hvítum röndum. (211)

Eða hér, þegar Möszu er nauðgað:

Helvítis kellingar, sagði lögreglumaðurinn Kazys Almonaitis, sem stóð álengdar og fylgdist með aumkunarverðum tilraunum Möszu til matarinnkaupa. Júðarnir eru svo umskornir, það er ekkert eftir af typpunum á þeim til að stilla ruglið í kellingunum; það þyrfti einhver að taka sig til og ríða þessu almennilega. Og þegar Masza Banai hafði lokið sér af í búðarleiðangrinum – án þess að uppskera annað en hálfan pott af gamalli undanrennu og 200 gramma brauðhleif frá vikunni áður – var það einmitt það sem hann gerði. Kazys Almonaitis tók altso á sig rögg og reið þessu almennilega og skildi þetta síðan eftir bjargarlaust og stynjandi af frygð eða einhverju svoleiðis úti í vegarkanti. (246)

Sögumaður Illsku yrði seint talinn hlutlægur en þarna tekur hann stökk yfir í orðræðu fréttatilkynningarinnar eða hlutgervingu ofbeldismannsins á fórnarlambi sínu. Það er viss leikur í þessu en auk þess steypir þetta atburði frásagnarinnar í mót talmynsturs og fordóma sem ljá þeim vissa jarðtengingu eða vigt. Markmiðið er ekki að „skilja“ orsakir ofbeldisins, ekki frekar en að „skilja“ fréttaritara Ríkisútvarpsins, heldur að snúa upp á sjónarhornið; að framandgera það með því að dubba upp í orðræðu annarra póla. Taktar af þessu tagi eru líkt og flúr í brotakenndri og ófullkominni mynd – sem verður að vera ófullkomin og hlýtur að vera það – af sjúklegu, sammannlegu ástandi. Og það er ekki síst breidd bókarinnar og afslöppuð framrás sem gerir þetta mögulegt.

Þetta umfang og þetta svigrúm gerir það líka að verkum að maður hlýtur að hlýtur að sveigja fram hjá veigamiklum þáttum í sögunni til þess að halda umfjöllun af þessu tagi í þolanlegri lengd. Án þess að ljóstra neinu upp verð ég samt að segja eitthvað um endalok bókarinnar, þegar allir þræðir sögunnar renna saman. Saga Ómars er sögð í þriðja hluta Illsku og þannig fylgjum við honum eftir á síðustu síðunum, frekar en Agnesi eða Arnóri. Ómar hefur lítinn áhuga á Helförinni, nema að svo miklu leyti sem hún minnir hann á Agnesi, en hann virðist reyndar hafa lítinn áhuga á nokkru sem er. Hann er ábyrgðarfullur, hlýr og hæfur, en hann forðast átök og neitar að reiðast Agnesi þegar hún reynir að æsa hann upp gegn sér – öðrum þræði til að refsa sjálfri sér fyrir framhjáhaldið en mestan part vegna þess að hún gengst upp í hverskonar átökum. Uppvaxtarsaga Ómars sýnir okkur að hann er enginn sakleysingi en samt óttaleg lydda, eins og Agnes hefur á orði við hann. Persóna Ómars sver sig í ætt við lyddur íslenskra bókmennta síðustu ára, sem steypa sér í glötun með aðgerðarleysi frekar en öðru og týna sér í draumum um ímyndanir um hugaróra þegar þeim líkar ekki lengur við raunveruleikann. Þessari týpu er þannig stillt upp gegn aggressívri konu og hörðum hugsjónamanni, þ.e. Agnesi og Arnóri. Sambandið milli þess kúgaða, þess sem kúgar og þess sem stendur hjá birtist í ýmsum myndum á síðum Illsku og kristallast í uppgjöri þremenninganna í lok bókarinnar, þess sem sagan öll leiðir að.

Það er einmitt tilfellið að lesandinn eltir Ómar hálft í hvoru inn í ímyndun undir lok bókarinnar, en sögumaður varar lesandann við að brátt verði hann vitni að sjónhverfingu. Það er hverju orði sannara en við fyrsta lestur leið mér líkt og sagan hefði öll horfið oní svartan pípuhatt og varð satt best að segja frekar illur út í höfundinn um það bil sem sagan rann á enda. En sjónhverfingin er annars konar; hún felur ekkert, týnir engu og útilokar ekki það sem áður segir, heldur varpar hún frekar ljósi á væntingar okkar til sögunnar og væntingar okkar til manneskjunnar (eða Íslendingsins?) sem stendur andspænis illsku. Líkt og veröldin sem hún lýsir býður Illska lesandanum skínandi tækifæri til sjálfsblekkingar, en það sem ber henni og færni höfundarins best vitni er það hvernig hún afhjúpar blekkinguna um leið – og hefur í raun læst öllum dyrum og neglt fyrir hlerana löngu áður en völin er borin upp. Við getum hvorki valið annað né hitt og þaðan af síður bæði, heldur hvorugt.

Þetta hljómar ósköp alvarlega og Illska er eðlilega grafalvarleg á stundum en hún er oft og tíðum fyndin, ekki síst þegar það virðist alls ekki eiga við. Eiríkur leggur áherslu á hið mannlega gagnvart hinu hátíðlega, eða á manneskjuna – sem stillir sig ekki um að hlæja að fáránleika ómannúðlegra aðfara – gagnvart ómennsku, og það er eitt af því sem gefur bókinni hreinlega leyfi til að ganga upp. Gott dæmi um þetta er vandræðaleikinn í kringum feluleik gyðinganna í Jurbarkas þegar nasistarnir renna í hlað, og banka að lokum kurteisislega upp á baðhúsið þar sem gyðingarnir hafa hrúgað sér inn og standa maður við mann. Afleiðingarnar eru hrikalegar en aðstæðurnar afkáralegar og það er ekki létt verk að undirstrika það án þess að gera lítið úr voðaverkunum.

Fasisminn ber ekki skynbragð á íróníu, segir einhverstaðar, og hún hlýtur þar af leiðandi að reynast gagnlegt tól í baráttunni gegn honum. Eftir lestur Illsku langar mann a.m.k. til að trúa því, en jafnvel þó svo sé ekki er hitt víst að hér er á ferðinni fallegt og viðamikið skáldverk, þrekvirki liggur mér við að segja, um laskaðar manneskjur sem leiðast um sjúklega veröld í allri sinni depurð – og dýrð.

Björn Unnar Valsson, desember 2012


Til bakaSenda Senda Prenta Prenta Senda á Facebook

Leitað að verki

Höfundur:
Ritverk:


Skipta um leturstærð


Tungumál